Fara í efni

Á starfsárinu 2019 voru haldnir 13 stjórnarfundir í stjórn Norðurorku, auk funda vegna stefnumótunar og fleiri mála. Stjórn félagsins á starfsárinu skipuðu auk mín, Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður, Eva Hrund Einarsdóttir ritari og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir og Hlynur Jóhannsson meðstjórnendur. Varamenn voru, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson. Á aðalfundi 2019 gengu úr stjórn Gunnar Gíslason og Edward Hákon Huijbens og vil ég þakka þeim gott samstarf liðin ár. Á árinu var samþykkt að minni hluthafar fengu áheyrnarfulltrúa í stjórn. Til liðs við stjórn kom Snorri Finnlaugsson inn sem áheyrnafulltrúi minni hluthafa.

Rekstur Norðurorku hefur gengið vel undanfarin ár og árið 2019 var á svipuðu róli. Staða félagsins er sterk og verkefnin stór og margþætt. Hagnaður varð af rekstri samstæðunnar á árinu 2019 upp á 347 milljónir króna og bókfært eigið fé samstæðunnar í árslok nam 12,3 milljörðum króna. Hagnaður félagsins er nokkru minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður þess eru m.a. hækkun afskrifta vegna endurmats á eignum, aukinn kostnaður vegna orkugjafa til að mæta toppafli í hitaveitunni s.s. olía á varmaketil og tjón sem félagið varð fyrir vegna gallaðra sölumæla. Ánægjuefni er að þrátt fyrir allt skilaði reksturinn svo gott sem óbreyttu veltufé frá rekstri eða 1.225 milljónum króna.

Í lok árs 2019 var lagt af stað í stefnumótun félagsins. Að mati stjórnar og stjórnenda er félagið, í stóru myndinni, á réttri braut. Það helsta er að í lykiláherslur bættust við þættir s.s. framsækin tækniþróun, ennfremur aukin áhersla á samskipti við viðskiptavini, umhverfismál, samfélagsábyrgð og mannauð fyrirtækisins. Út úr stefnumótunarvinnunni kemur síðan aðgerðaráætlun sem nær yfir næstu fimm ár með fjölda verkefna. Í framhaldi þarf að útfæra verkefnin, skilgreina reglubundna eftirfylgni og árangursmarkmið.

Á árinu voru tekin ný lán upp á 800 milljónir króna til framkvæmda og voru lánin tekin hjá Lánasjóði sveitarfélaga, þar af voru um 700 milljónir í evrum.

Fjárfestingaráætlun áranna 2020-2024 gerir ráð fyrir kostnaði upp á fjóran og hálfan milljarð króna og því ljóst að framundan er enn hjalli, en toppnum er náð og nú fara fjárfestingar næstu ára lækkandi. Til að mæta kostnaði við verkefni þessa árs er áætluð lántaka upp á 400 milljónir króna síðar á árinu. Áætlanir okkar gera þó áfram ráð fyrir því að fjármál fyrirtækisins verði komin í gott jafnvægi árið 2024. Mikilvægt er áfram að framtíðarsýn og fjárfestingaráætlanir félagsins taki mið af rekstraröryggi veitukerfanna sem sífellt verða eldri og kalla á aukið viðhald.

Orku- og veitukostnaður á Akureyri hefur um langt skeið verið með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Sérstaklega sýnir samanburður að verðskrár vatnsveitu og fráveitu eru lægri en hjá flestum sveitarfélögum sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.

Áfram er okkar mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sterkri samkeppnisstöðu sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu. Stjórn félagsins og stjórnendur hafa því lagt mikið kapp á að stilla framkvæmda- og fjárfestingaráætlunum upp með þeim hætti að gott jafnvægi sé milli framtíðartekna og gjalda, en að um leið sé uppbyggingin nægilega hröð til þess að tryggja góða og örugga þjónustu til framtíðar.

Árangur dótturfélags Norðurorku, Fallorku, var góður á síðasta ári og var hagnaður af rekstri 68 milljónir króna. Afkoman er góð þrátt fyrir að félagið upplifi aukna samkeppni sem kemur m.a. fram í að stærri aðilar þ.m.t. sveitarfélög bjóða út raforkukaup sín í auknum mæli. Í þessu sambandi er rétt að minnast á að í stefnumótun stjórnar Norðurorku kom fram sú skoðun að rétt væri að skoða framtíð sölusviðs Fallorku með þá möguleika í huga að efla það eða selja.

Rekstur nýju Glerárvirkjunar gekk vel á árinu og umfram áætlanir. Fallorka kannar áfram möguleika á Djúpadalsvirkjun þrjú auk þess að hafa sent inn í rammaáætlun fjögur, möguleika á vindorkugarði í Hörgárdal.

Kjarnarekstur Norðurorku er veitustarfsemi fyrst og fremst og mikilvægt að muna að þar liggur okkar megin ábyrgð. Engu að síður býr félagið yfir möguleikum til þess að styðja við og fjölga tækifærum í samfélaginu með ýmsum hætti og það höfum við vissulega gert í gegnum tíðina með góðum árangri.

Í fleiri tilvikum höfum við tekið verkefnin alveg að okkur eins og t.d. metanframleiðsluna úr hauggasi frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal og með því að stofna félagið Vistorku sem er ætlað að vinna að hugmyndum sem geta stuðlað að kolefnisjöfnun samfélagsins þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum.

Metanframleiðslan hefur nú staðið yfir í tæp sex ár. Salan hefur aukist jafnt og þétt þrátt fyrir að verð á jarðefnaeldsneyti sé lágt á heimsvísu og metanorka hafi ekki náð hylli neytanda. Salan á árinu 2019 var 215 þúsund Nm3 og jókst um 31% milli ára. Hjá Akureyrarbæ ganga nú fjórar af sex ferliþjónustubifreiðum fyrir metani og þrír metanstrætisvagnar. Norðurorka sjálf á 15 bíla sem nýta Metan sem orkugjafa.

Af fleiri spennandi verkefnum sem NO tekur þátt í má nefna EIM. EIMUR er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Í dag „lánar“ Norðurorka starfsmann í hálft starf hjá Eimi meðan verið er að koma grundvelli undir starfsemina til næstu missera eða ára en Eimur hefur hlotið nokkra styrki til að byggja grundvöll á.

Norðurorka hefur staðið einstaklega vel þegar kemur að kolefnisfótspori. Sporið er jákvætt ef svo má segja, þ.e. kolefnisbinding hefur undanfarin ár verið mun meiri en kolefnislosun frá starfseminni, og vegur þar þyngst metanverkefnið og sú skógrækt sem félagið á. Kolefnissporið hefur ekki verið tekið saman fyrir árið 2019 en það er ljóst að eldsneytiskaup fyrir varmaketil hitaveitunnar liðinn vetur mun hafa áhrif á þann útreikning þar sem losun kolefnis eykst sem því nemur.

Norðurorka hefur jafnt og þétt verið að auka við styrki til samfélagsverkefna og veitti Norðurorka um 32 milljónum króna til ýmissa samfélagsstyrkja á síðasta ári, auk 17 milljóna styrks til reksturs Vistorku og rúmlega 6 milljóna króna styrktarframlag til verkefnisins Eims.

Ég vil að lokum þakka forstjóra, starfsfólki Norðurorku ásamt félögum mínum í stjórninni fyrir gott og farsælt samstarf á árinu. Þá vil ég einnig færa hluthöfum bestu þakkir fyrir ánægjulega samvinnu á árinu.

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Til baka á forsíðu