Fara í efni

Norðurorka sér um dreifingu rafmagns innan Akureyrar. Einnig þjónar rafmagnsverkstæði fyrirtækisins öðrum veitum félagsins sem starfa í alls 8 sveitarfélögum. Verkefni rafvirkja Norðurorku eru því fjölbreytt, snúa jöfnum höndum að háspennu, lágspennu sem og stýrikerfum veitna. Á árinu var áfram unnið að smíðum og uppsetningu á iðntölvuskápum fyrir stjórnkerfi hitaveitu og rafveitu og er það góð viðbót sem eykur fjölbreytni starfa rafvirkja.

Nýframkvæmdir og viðhald

Ný dreifistöð var sett upp í húsnæði við neðri enda nýrrar skíðalyftu í Hlíðarfjalli. Háspennustrengur var lagður milli dreifistöðvar 061 í Bakkahlíð og dreifistöðvar 068 í Stapasíðu. Þann streng á eftir að taka í notkun. Einnig var stofnstrengjum frá dreifistöðinni í Stapasíðu  fjölgað til að efla dreifikerfið þar. Til stóð að tengja streng sem lagður hafði verið á milli dreifistöðvar 111 í Síðubraut við dreifistöð 101 Hlíðarenda. Þeirri tengingu var frestað þar sem ákveðið var að byggja nýtt hús við Hlíðarenda fyrir dreifistöðina og dælustöð sem er nauðsynleg vegna Hálanda. Reiknað er með að það verði gert á árinu 2020.

Spennubreyting úr 220V IT kerfi í 230/400V TN-C kerfi var gerð í 61 húsi á Akureyri, m.a. samhliða ýmsum framkvæmdum, eða skoðunum og lagfæringum á dreifistöðvum. Því verður haldið áfram á næstu árum þar sem tækifæri gefst til og aðstæður leyfa.

Öryggismál og öryggisstjórnunarkerfið

Áfram var unnið við útreikninga á ljósbogahættu í raforkudreifikerfinu sem byrjað var á árið 2017 en ljósbogahætta er ein stærsta hættan sem leynist í raforkukerfinu. Verkefni sem þetta snýst um að bæta bæði rekstraröryggi og ekki síður öryggi starfsfólks við vinnu í dreifistöðvum. Í þeim stöðvum sem búið er að reikna ljósbogaaflið eru komnar viðeigandi merkingar en þannig er reynt að draga úr hættunni m.a. með því að minna á þörf fyrir hlífðarbúnað.

Strangar reglur gilda um öryggisstjórnunarkerfi rafveitu sem m.a. felur í sér að hverja dreifistöð á að skoða á 10 ára fresti. Á árinu 2019 voru 16 dreifistöðvar skoðaðar samkvæmt þessari reglu. Skipt var um þann búnað sem uppfyllir ekki lengur kröfur og almennt er aukin áhersla á að endurnýja gamlan búnað. Reiknað er með að tvær af þessum stöðvum verði aflagðar og ein tekin til gagngerrar endurnýjunar innan fárra ára. Skipt var um háspennurofa í tíu stöðvum og lágspennurofa í fjórum. Áætlað er að á árinu 2020 verði skipt um sjö háspennurofasett og þrjú lágspennu. Dreifikerfi viðkomandi stöðvar er einnig skoðað og lagfært, stöðvarnar málaðar, ljós lagfærð ef þurfa þykir og götuljós í eigu Akureyrarbæjar skoðuð.

Til að sannreyna að innri skoðanir Norðurorku séu í lagi er lögbundið að hluti þeirra sé skoðaður aftur af löggildri skoðunarstofu. Rafskoðun hf. hefur framkvæmt ytri skoðanir á rafdreifikerfi Norðurorku og voru þær samkvæmt áætlun á árinu 2019.

Samhliða skoðunum og úrbótum, og öðrum tilfallandi verkefnum í dreifistöðvum, er unnið að iðntölvuvæðingu viðkomandi stöðva. Markmiðið er að dreifistöðvar tengist nýjum stjórnvaka, WinCC, þannig að hægt verði að fylgjast með, stýra og fá aðvaranir.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Rafveitan í tölum

Ársskýrsla Norðurorku
Ársskýrsla Norðurorku