Fara í efni
 
Gæðamál

Norðurorka afhendir kalt vatn, heitt vatn og rafmagn til viðskiptavina og sér um að fráveita sé í lagi. Þetta eru gríðarlega mikilvægir innviðir sem samfélagið reiðir sig á allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Til að tryggja að fyrirtækið sinni sínum mikilvægu verkefnum vel þarf gott utanumhald. Það gerir Norðurorka m.a. með vottuðu gæðakerfi sem m.a. tryggir kerfisbundnar úttektir óháðra aðila en fyrirtækið hefur haldið vottun sinni frá upphafi. Á hverju ári tekur Heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Norðurorku til örverugreiningar auk þess sem tekin eru sýni til heildarefnagreiningar. Reglulegt vinnslueftirlit fer fram í hitaveitunni þar sem m.a. er mælt efnainnihald vatnsins og lagt mat á heildarafkastagetu vinnslusvæðanna. Árlega eru gerðar spennu­gæðamælingar í rafveitu til að fylgjast með því að kröfur til spennugæða, sem fram koma í reglugerðum og stöðlum, séu uppfylltar. Fráveitan dælir skólpi út í sjó og með reglulegum sýnatökum er fylgst með álagi á skilgreindu þynningarsvæði og við strandlengjuna meðfram Akureyri.

Frá árinu 2011 hefur Norðurorka rekið innra eftirlitskerfi með sölumælum sínum en kerfið er hluti af gæðakerfi fyrirtækisins. Þessi þáttur gæðakerfisins snýr að því að tryggja réttar mælingar og að mælaskipti fari fram á réttum tíma. Árið 2019 var skipt um 2.409 rennslismæla í hitaveitu og 404 aflræna mæla í rafveitu.

Þó að reglulegt eftirlit með gæðum sé nauðsynlegt snúast gæðamál um svo miklu meira. Gott gæðakerfi ýtir undir að hver einasti starfskraftur taki eftir og leiti að tækifærum til að tryggja gæði betur, bæta verkferla, auka öryggi og minnka álag á starfsfólk svo eitthvað sé nefnt. Hjá Norðurorku eru stöðugt í gangi umbótaverkefni, bæði stór og smá, sem miða að því að bæta fyrirtækið á allan mögulegan hátt. Að reka gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001 er verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins og er skuldbinding stjórnenda og þátttaka starfsfólks lykilatriði. Starfsfólk Norðurorku er stolt af fyrirtækinu og leggur metnað sinn í að bæta það stöðugt.

Gott gæðakerfi snýst nefnilega ekki einungis um að gera vel heldur snýst það um að gera sífellt betur.

Umhverfismál

Umhverfismál eru Norðurorku mikilvæg og fyrirtækið hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs.

Við endurnýjun á bílaflota fyrirtækisins er ávallt kannaður möguleikinn á vistvænum bílum sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til bílanna hverju sinni. Bílar Norðurorku eru 38 talsins en þar af eru 15 sem annað hvort eru knúnir af metani eða rafmagni, sem gerir rúmlega 39% bílaflotans vistvænan.

Auk þess að vera með aðgerðir sem stuðla að minnkun beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins réðst Norðurorka árið 2014 í það verkefni að byggja metanhreinsistöð til að vinna metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal. Frá því hreinsistöðin var tekin í notkun árið 2014 hefur framleiðsla og sala á metani aukist að meðaltali um u.þ.b. 40% milli ára og var árið 2019 rúmlega 214.000 Nm3. Þar að auki á Norðurorka 54 hektara af skógi sem binda koltvísýring. Saman gera þessi tvö atriði það að verkum að Norðurorka bindur mun meiri koltvísýring en hún losar frá starfseminni.

Hreinsistöð fyrir fráveitu Akureyrar er í byggingu og áætlað er að hún taki til starfa á árinu 2020. Hreinsistöðin mun grófhreinsa allt skólp frá Akureyri og dæla því svo út í sjó um neðansjávarlögn sem endar 400 metra frá landi og á 40 metra dýpi.

Öryggismál

Norðurorka leggur áherslu á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi eða heilsu fólks vegna þess. Fyrirtækið leggur metnað í að útvega þann öryggisbúnað sem þurfa þykir til að tryggja öryggi starfsfólks og almennings vegna framkvæmda.

Haldin er skrá yfir slys og hættuleg atvik hjá Norðurorku og er starfsfólki skylt að tilkynna strax ef það verður fyrir slíku. Vinnuslys árið 2019 voru 16, þar af 2 fjarveruslys. Óásættanlegar aðstæður, ótryggur búnaður eða annað sem ógnað getur öryggi og/eða heilsu er einnig skráð ásamt næstum slysum og voru þessar skráningar 4 á árinu. Við hverja skráningu fær næsti yfirmaður póst um atvikið. Hann sér þá til þess að úrbætur séu gerðar eins fljótt og auðið er, gjarnan í samvinnu við þann sem skráði. Sem dæmi um aðgerðir í framhaldi af skráningu starfsfólks má nefna nýjan og öruggari stiga á gróflager og kaup á nýjum og öruggari rafgeymum.

Hjá Norðurorku starfar öryggisnefnd sem fundar minnst átta sinnum yfir árið og oftar ef þurfa þykir, einnig sitja þessa fundi öryggisstjóri og verkefnastjóri öryggismála . Nefndin fer m.a. yfir allar slysaskráningar og ábendingar varðandi öryggismál og fylgist með því hvort úrbætur séu framkvæmdar. 

Auk þessa skipuleggur og heldur öryggisnefndin árlega rýmingaræfingu fyrirtækisins, skráir athugasemdir eftir hana og sér til þess að úrbætur séu framkvæmdar í kjölfarið. Rýmingaræfingin 2019 gekk að vanda vel og í ljós komu nokkur atriði sem þörfnuðust úrbóta en sem dæmi um það var að lyftan í skrifstofuhúsnæði Norðurorku var ekki tengd brunaviðvörunarkerfinu og fór því ekki úr virkni eins og ætlast er til við eldsvoða. 

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina