Fara í efni

Rannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Norðurorku en þær eru að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar Orkurannsóknir, ÍSOR. Rannsóknir byggja annars vegar á því að fylgjast vel með þeim auðlindum sem verið er að nýta hverju sinni, svokallað vinnslueftirlit, en hins vegar á að huga að mögulegum framtíðarvinnslusvæðum. Vinnslueftirlit á jarðhitasvæðum sem ekki tengjast Akureyri var aukið og sett í sama form og eftirlit á svæðum tengdum Akureyri.

Jarðhitasvæðin í Eyjafirði

Borun nýrrar holu á Hjalteyri 2018, sem fékk nafnið HJ-21, tókst með ágætum og gæti þar verið um að ræða eina vatnsgæfustu lághitaholu á landinu. Vinnsla hófst á haustdögum 2019 og verður spennandi að sjá hvort holan sé jafn vatnsgæf og fyrstu mælingar benda til. Unnið er að úrvinnslu jarðlagamælinga og annast Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) þá vinnu.

Rannsóknum á jarðhitasvæðinu að Ytri-Vík var haldið áfram á árinu í því formi að safnað var gögnum um jarðskjálfta á svæðinu. Áður hafði verið sett upp net jarðskjálftamæla í samvinnu við ÍSOR til að fá betri mynd af legu og stefnu sprungna í Eyjafirði.

Í júní var gerð tilraun til að bora út úr holu HN-13 á Botni. Tilraunin var hluti af verkefni sem styrkt var af Evrópusambandinu þar sem kanna átti nýjar leiðir við orkuöflun. Tilgangur verkefnisins var að freista þess að tengja holuna við vatnsgefandi sprungur á um 1000m dýpi, en holan hefur ekki neina tenginu við jarðhitakerfið og gefur því ekkert vatn af sér.
ÍSOR stjórnaði verkefninu á íslandi en Norðurorka lagði til holuna. Borbúnaðurinn kom frá fyrirtækinu WGC sem staðsett er í Hollandi og hefur verið að þróa nýja tækni við útborun úr holum með mjög háum vatnsþrýstingi og hafa náð ágætisárangri sérstaklega þar sem eru lin jarðlög. Íslenska bergið er þó mun harðara en þeir höfðu komist í áður og því skilaði þessi tilraun ekki árangri.

Þá hefur verið unnið að athugunum á jarðhita á hafsbotni í Eyjafirði og er þar byggt á þrívíðum dýptarmælingum sem unnar voru af mælingabátnum Baldri. Einnig hefur verið kafað að hugsanlegum jarðhitastöðum. Tilgangur þessa er að fá yfirsýn yfir legu og innbyrgðis samhengi jarðhitasvæðanna við Eyjafjörð og auka skilning á þeim.

Vatnið í Vaðlaheiði

Rannsóknir jarðhitans í Vaðlaheiðinni hafa verið færðar aftar í forgangsröðina. Byggir það m.a. á því að erfitt og dýrt er að koma við rannsóknum ofan á heiðinni. Fylgst er með efnasamsetningu heita vatnsins sem leitt hefur verið út úr Vaðlaheiðargöngum sem hluta af vinnslueftirliti hitaveitu Norðurorku

Undirbúningur að afmörkun vatnsverndarsvæðis í Vaðlaheiði vegna vatnsbólsins í göngunum hófst 2018 og felst sú vinna bæði í mælingum og gerð reiknilíkans til að meta áhrifasvæði vatnsbólsins í heiðinni. Verkfræðistofan Vatnaskil sér um líkangerð en verkfræðistofan Mannvit annast mælingar.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina