Fara í efni

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt undanfarin ár og var aukningin um 4% á liðnu ári sem er um tvöföldun vaxtar sé horft til meðalárs. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og nágrenni og þegar horft er til aukningar í íbúafjölda virðist sem hver einstaklingur sé að nota aukið magn heitavatns. 

Hjalteyrarlögnin og tengd verkefni

Á árinu héldu framkvæmdir áfram til að auka orkumátt hitaveitunnar. Lagðir voru 6.500m af 500mm lögn frá vinnslusvæði Norðurorku á Hjalteyri að bænum Ósi við ósa Hörgár. Þessi framkvæmd hefur þegar skilað sér í aukinni dælugetu til Akureyrar, en betur má ef duga skal og því verður á árinu 2020 haldið áfram með lögnina undir Hörgá og að Skjaldarvík sem er um 8.000m leið.

Samhliða þessari lagnavinnu þá voru ýmis önnur verkefni í gangi sem tengjast þessari nýju Hjalteyrarlögn. Heitavatnskerfinu var breytt og fært í þá mynd sem til stóð í upphafi veitunnar, þannig að dælustöðin Þórunnarstræti (Mímisvegi) væri "miðpunktur" kerfisins. Þangað kæmi allt vatn sem dælt væri frá vinnslusvæðunum og því dreift þaðan út til notenda. Til að þetta væri mögulegt þá er nú vatninu frá Hjalteyri dælt um nýju 500mm lögnina sem lögð var innanbæjar sumarið 2018, frá Hlíðarbraut að Þórunnarstræti.
Haldið var áfram að vinna í dælustöðinni í Þórunnarstræti (Mímisvegi) þar sem settar voru tvær stórar dælur til að geta annað þessu verkefni ásamt varavél sem auka á afhendingaröryggi í rafmagnsleysi.
Lagning Hjalteyrarlagnar og afleidd verkefni hennar eru stærstu verkefni Norðurorku í langan tíma.

Reykjaveita

Á árinu var ákveðið að byggja nýja eimskilju fyrir Reykjaveitu sem nær frá Reykjum í Fnjóskadal að Grenivík og mun þessi skilja koma til með að bæta rekstur veitunnar. Skiljan er kominn á sinn stað en vinnu við tengingu hennar var hætt í desember vegna veðurs og verður haldið áfram í vor þegar snjór á svæðinu bráðnar og aðstæður til vinnu skána.

Ýmsar framkvæmdir

Lögð var sverari stofnlögn frá Rangárvöllum að dælustöð í Hlíðarenda sem dælir heitu vatni upp til Hálanda. Var þetta liður í því að styrkja hitaveituna í Hálöndum þar sem uppbygging heldur afram og nú er verið að byggja hús í þriðja áfanga hverfisins.  Lagnastækkun var því óhjákvæmileg og einnig er á teikniborðinu dælu- og dreifistöð sem mun bæta enn betur afhendingaröryggi að Hálöndum. Áætlað er að byggja dælustöðina á árinu 2020.

Skipt var um dælu í holu LJ-7 á Laugalandi í byrjun desember vegna bilunar. Venjulega er reynt að fara í dæluskipti sem þessi að sumarlagi, en sem betur fer var frekar hlýtt á þessum tíma og því var hægt að framkvæma dæluskiptin án þess að skortur yrði á vatni hjá veitunni.

Dælan í holu ÓB-4 á Ólafsfirði var síkkuð um 9 metra til þess að mæta aukinni notkun á svæðinu sem meðal annars er tilkomin eftir að hitaveita var lögð að bænum Hólkoti árið 2017 sem tengdi á annan tug nýrra notenda við veituna. Því fylgir óhjákvæmlega aukin dæling upp úr jörðu. 

Á árinu lauk framkvæmdum við stofnlagnir í sjöunda áfanga í Naustahverfi, sem einnig hefur verið nefnt Hagahverfi. Hitaveitan í Bakkatröð í Hrafnagilshverfi var lengd vegna aukinnar uppbyggingar þar og stofnlögn var lögð í nýja götu Reynihlíð Lónsbakka og fyrstu húsin tengd við hana.

Óveðrið í desember

Mikið óveður gekk yfir landið dagana 10-12. desember og hafði það áhrif á meirihluta landsmanna. Hitaveitan varð fyrir barðina á því og keyra þurfti varavélar í nokkurn tíma á Ólafsfirði, Reykjum í Fnóskadal, Hjalteyri og í dælustöð Þórunnarstrætis, ásamt því að varmadælurnar og olíuketillinn voru keyrð. Allir notendur veitunnar voru beðnir að draga úr notkun sinni og sundlaugar og aðrir stórnotendur beðin að loka og lágmarka notkun sína eins og hægt var þessa daga. Með sameiginlegu átaki tókst að halda veitunni gangandi þrátt fyrir skerta afkastagetu.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Hitaveitan í tölum

Ársskýrsla Norðurorku

 

 

Ársskýrsla Norðurorku