Fara í efni

Þann 1. janúar 2019 hækkuðu verðskrár rafveitu og vatnsveitu um 3,45%, hitaveitu um 6% og fráveitu um 7%. Nokkur breyting varð á samsetningu fastagjalda í hitaveitu til lækkunar en öll gjöld í veitunum utan beinna notkunargjalda hækkuðu um 3,45% s.s. fastagjöld, lengdargjöld og heimlagnagjöld.

Orku- og veitukostnaður á Akureyri hefur um langt skeið verið með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá sýnir samanburður að verðskrár vatnsveitu og fráveitu eru lægri en hjá flestum sveitarfélögum sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.

Miklar innviðaframkvæmdir eru í gangi í flestum veitum Norðurorku og á það bæði við um nýframkvæmdir og viðhald. Hér má nefna lagningu nýrrar hitaveitulagnar frá Hjalteyri með tilheyrandi afleiðuverkum, byggingu hreinsistöðvar fyrir fráveitu og lagnir og vatnsból vegna neysluvatnstöku úr Vaðlaheiðargöngum.

Horft er til að stærri langtímafjárfestingar hverrar veitu greiðist til baka á áratugum og er þar miðað við líftíma innviða. Með því móti taka núverandi notendur sem og framtíðarnotendur þátt í því að greiða niður framkvæmdina. Framkvæmdin þarf jafnframt að skila framlegð til allra rekstrarþátta á hverjum tíma. Í ljósi stórra innviðaframkvæmda munu verðskrár einstakra veitna, að óbreyttu, hækka umfram verðþróun næstu ár. Við verðbreytingar er horft til verðskrárhækkana í smærri áföngum með hliðsjón af framlegð veitna á hverjum tíma og þar gætt hófsemi.

Sem samfélagi og einstaklingum er okkur ætíð hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina