Fara í efni

Á árinu 2019 störfuðu 85 einstaklingar hjá Norðurorku í 70,6 stöðugildum, 59 karlar og 26 konur. Á framkvæmdasviði, sem jafnframt er fjölmennasta sviðið, var fjöldi stöðugilda 30, á veitu- og tæknisviði 21 og á þjónustu- og fjármálasviði 14. Á stoðsviðum og skrifstofu forstjóra voru 5 stöðugildi.

Á árinu komu 10 einstaklingar til starfa í sumarafleysingar og tímabundin verkefni, fimm konur og jafn margir karlar. Þrír einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, þrír á veitu- og tæknisviði, þrír á þjónustu- og fjármálasviði og einn á stoðsviði. Mælaálestri var eins og undanfarin ár að megninu til sinnt af verktökum.

Starfsmannavelta var 7%, fimm einstaklingar létu af störfum hjá Norðurorku en sjö gengu til liðs við fyrirtækið. Allir nýjir starfsmenn voru karlmenn, þrír tóku til starfa á veitu- og tæknisviði og fjórir á framkvæmdasviði.

Ekki höfðu farið fram starfsmannasamtöl hjá Norðurorku í nokkur ár en í september hófst skipulagning og innleiðing nýrrar tegundar slíkra samtala. Stjórnendur boðuðu starfsfólk í fyrstu umferð starfsmannasamtala í nóvember og tókust þau með miklum ágætum en áætlað er að samtölin fari fram tvisvar á ári. Haldnir voru 8 starfsmannafundir á árinu með fjölbreyttri dagskrá.

Í október var starfsfólki boðið í kynnisferð en slík ferð er liður í að auka þekkingu starfsfólks á veitusvæðum Norðurorku með áherslu á starfsemi og framkvæmdir félagsins. Í ferðinni voru aðveitustöð og dreifistöð rafveitu heimsóttar og kynntar auk þess sem starfsfólk fékk kynningu á tveimur stærstu verkefnum ársins, byggingu hreinsistöðvar og lagningu heitavatnslagnar frá Hjalteyri til Akureyrar.

Endurmenntun

Árlega tekur starfsfólk Norðurorku þátt í ýmiskonar sí- og endurmenntun, starfstengdri og almennri, bæði á vegum fyrirtækisins og aðkeyptri. Árið 2019 var tekin upp sú nýlunda að bjóða upp á svo kallaðar fræðsluvikur. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur í febrúar þar sem skipulagður var fjöldi námskeiða fyrir starfsfólk og lukkaðist fyrirkomulagið afar vel. Haldin voru 12 mismunandi námskeið, samtals 57 kennslustundir og þátttakendafjöldi var 327, sem þýðir að hver starfsmaður sat að meðaltali 5 námskeið þessar tvær vikur. Þeir sem sóttu flest námskeið sátu átta námskeið í fræðsluvikum og fjölsóttasta námskeiðið var „Fornám í heilsu og öryggismálum“ á vegum Promennt. Einnig er gaman að nefna að starfsfólkið sjálft var duglegt að miðla af eigin reynslu og setja upp stutt námskeið og fyrirlestra sem mæltust afar vel fyrir.

Viðamikil þjálfun starfsfólks og stjórnenda fór fram í samstarfi við Gest Pálmason hjá Complete Coherence með lengri og styttri vinnustofum í janúar, apríl, júní og október.

Ráðstefnur og kynningar

Starfsfólk Norðurorku tók að venju þátt í ýmsum ráðstefnum og fjölmennum fundum á árinu.  
Í apríl fór fram norræn ráðstefna um framleiðslu á Biogasi þar sem fjallað var um hvaða leiðir aðrir eru að fara í framleiðslu á metangasi undir stýrðum aðstæðum.
Vörusýning Elfack fór fram í Gautaborg í byrjun maí þar sem 23.000 þátttakendur komu saman, fræddust og skoðuðu nýjungar á sviði rafmagnsiðnaðarins og -búnaðar.
Fagþing rafmagns fór fram á Suðurnesjum í lok maí en þar koma fyrirtæki, sem sinna framleiðslu, flutningi, dreifingu og sölu á rafmagni, saman sem ein heild og ræða það sem er efst á baugi hverju sinni.
Í september sátu fulltrúar Norðurorku norræna fráveituráðstefnu í Finnlandi þar sem forstjórinn flutti erindi um Norðurorku út frá sjónarhóli heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir

Á árinu fengu 42 starfsmenn greiddan heilsueflingarstyrk og 36 fengu greiddan samgöngustyrk. Fyrirtækið hvetur starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. Það er gaman að segja frá því að ár frá ári skráir starfsfólk sífellt fleiri daga sem það nýtir vistvænan og heilsusamlegan ferðamáta til og frá vinnu. Árið 2019 skráði starfsfólk Norðurorku 4.676 daga sem það ferðaðist til vinnu gangandi eða hjólandi. Sjö starfsmenn fengu greiddan samgöngustyrk fyrir alla mánuði ársins en alls greiddi Norðuroka samgöngustyrk fyrir 277 mánuði á árinu.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina