Helstu framkvæmdir vatnsveitunnar á árinu 2019 voru endurnýjun á miðgeymi og bygging nýrrar dælustöðvar vatnsveitu í Hrísey.
Miðgeymir endurnýjaður
Miðgeymir, sem staðsettur er í 275m hæð norðvestan við Hálönd og beint fyrir ofan Lögmannshlíðarkirkju sér Hálöndum og Kræklingahlíðinni fyrir neysluvatni. Ákveðið var að endurnýja hann og setja í staðinn tvo umtalsvert stærri tanka, með afloftunartank fyrir framan, í þeim tilgangi að minnka loftgang í vatninu sem kemur ofan úr Hesjuvallalindum. Áætlað er að framkvæmdinni ljúki sumarið 2020 og verður það mikil bót fyrir kerfið í heild, og þá ekki síst fyrir íbúa efst í bænum, þar sem súrefni í vatninu mun trúlega minnka umtalsvert með tilkomu afloftunartanksins.
Ný dælustöð í Hrísey
Vatnsveitan í Hrísey er að fá mikla yfirhalningu þar sem smíðuð var ný dælustöð sem búið er að setja við Ystabæjarveg 7. Ekki náðist á árinu að klára að tengja hana fyllilega við vatnskerfi eyjarinnar þar sem hætta þurfti framkvæmdum í desember vegna veðurs. Með tilkomu dælustöðvarinnar mun rekstaröryggi vatnsveitunnar í Hrísey batna mikið þar sem samhliða tengingu dælustöðvarinnar verður stýribúnaði komið á allar einingar veitunnar. Þannig verður hægt að fylgjast með stöðu kerfisins frá Akureyri og stýra kerfinu betur, sem hefur ekki verið hægt hingað til.
Nýframkvæmdir og viðhald
Á árinu var framkvæmdum lokið við stofnlagnir í sjöunda áfanga Naustahverfis, sem einnig hefur verið nefnt Hagahverfi. Vatnsveitan í Bakkatröð í Hrafnagilshverfi var lengd vegna aukinnar uppbyggingar þar ásamt því að stofnlögn var lögð í nýja götu Reynihlíð Lónsbakka og eru fyrstu húsin þar þegar tengd við hana.
Tvö ræsi sem liggja hjá aðveitulögn okkar frá Vöglum voru löguð til að tryggja öryggi aðveitulagnarinnar þar sem jarðvegur hafði runnið frá lögninni. Ljóst er að huga þarf að lögninni á fleiri stöðum á næstunni.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina