Fara í efni

Norðurorka tekur á móti gestum sem óska eftir að koma í heimsókn til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og þau störf sem þar eru unnin. Móttökur af þessu tagi gefa okkur tækifæri til að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri auk þess sem þær verða mögulega til þess að einhverjir líti á Norðurorku sem ákjósanlegan vinnustað í framtíðinni.
Á árinu komu hópar af ýmsum skólastigum, allt frá grunnskóla og upp í háskóla, starfsfólk Akureyrarbæjar, af fræðslusviði, fjölskyldusviði og búsetusviði kom í heimsókn auk þess sem þjónustuaðilum í pípulögnum á Akureyri var boðið á sérstakan kynningarfund.  Af erlendum gestum má m.a. nefna Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem kom í sína árlegu heimsókn með nemendur frá 16 þjóðlöndum auk þess sem sendinefnd frá Shanghai í Kína kom í heimsókn og kynnti sér grænar lausnir. Gestir ársins voru tæplega 400.

Norðurorka tók þátt í ýmsum viðburðum á árinu 2019. Starfamessan var haldin í Háskólanum á Akureyri í febrúar þar sem elstu grunnskólanemunum gafst færi á að kynnast atvinnustarfsemi í bænum og þeim möguleikum sem þeirra bíða í framtíðinni. Þar kynnti Norðurorka störf sem unnin eru hjá fyrirtækinu með sérstaka áherslu á störf vélfræðinga. Í mars tók Norðurorka þátt í Local food hátíðinni sem haldin var í Hofi og í maí kom hópur stelpna í heimsókn í tengslum við „Stelpur og tækni“ daginn sem haldinn var í HA og kynntu þær sér störf á teiknistofu og á vélaverkstæði Norðurorku. Í ágúst tók Norðurorka þátt í Vísindasetri sem haldið var í Hofi og var hluti af Akureyrarvöku en þar fengu gestir og gangandi kynningu á starfsemi fyrirtækisins og lagningu Hjalteyrarlagnar.

Til viðbótar við ofantalið hefur starfsfólk Norðurorku farið víða og haldið fyrirlestra og kynningar ef óskað hefur verið eftir því t.d. af skólum eða félagasamtökum ásamt því að svara eftirspurn eftir viðtölum um starfsemi og framkvæmdir fyrirtækisins, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða í blaðaviðtölum.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina