Fara í efni

Ýmis mál tengd fráveitu hafa verið í brennidepli á Íslandi undanfarið. Ljóst er að víða um land bíða stór verkefni sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra til að uppfylla kröfur laga og reglugerða. Það er þó einnig mikilvægt að huga að uppruna fráveituvatnsins og þar með starfsleyfum fjölmargra fyrirtækja sem eru sérstakir álagsvaldar. Almenningur getur lagt sitt af mörkum í að draga úr umhverfisáhrifum vegna fráveitu, t.d. með því að muna að klósettið er ekki ruslafata.

Bygging hreinsistöðvar

Norðurorka sér um uppbyggingu og rekstur fráveitu á Akureyri. Á árinu 2018 var boðin út bygging hreinsistöðvar á landfyllingu við Sandgerðisbót ásamt lagningu útrásarlagnar. SS Byggir á Akureyri átti lægsta tilboð og var skrifað undir verksamning í lok maí 2018.
Á árinu 2019 var boðin út vinna við röralagnir og uppsetningu hreinsibúnaðar og er gert ráð fyrir verklokum í maí 2020 og stöðin verði þá tekin í notkun í framhaldi.

Í hreinsistöðinni verður skólp frá Akureyri grófhreinsað, grófa efninu sem síað er frá í stöðinni verður pakkað og það fært til urðunar. Hreinsuðu skólpi verður veitt út í sjó, um 400 metra frá landi og á 40 metra dýpi, þar sem það dreifist innan skilgreinds þynningarsvæðis. Ástand viðtakans verður áfram vaktað með reglulegu millibili en árið 2017 kom út vöktunarskýrsla um viðtakann Eyjafjörð sem unnin var af Háskólanum á Akureyri og byggir á gögnum sem safnast hafa á undanförnum árum.

Nýframkvæmdir og viðhald á árinu

Fráveitulagnir voru lagðar í nýtt hverfi í Hörgársveit við Skógarhlíð ásamt því að leggja þrýstilögn milli Skógarhlíðar og Sjafnargötu til að tengja fráveitukerfið í Skógarhlíð við kerfið á Akureyri. Á árinu 2020 verða settir niður dælubrunnar við Skógarhlíð og Sjafnargötu sem munu dæla skólpi frá Skógarhlíð og svæðinu við Sjafnargötu.

Framkvæmdum við fráveitu í sjöunda hluta Naustahverfis, Hagahverfi, lauk á árinu, stofnlögn regnvatnskerfis við Klettaborg var færð vegna húsbyggingar á nýrri lóð og framkvæmdir við iðnaðargötuna Týsnes á Akureyri hófust á árinu. 

Unnið var að undirbúningi og upplýsingaöflun vegna fráveitu í Grímsey en verið er að kortleggja það kerfi sem fyrir er í eyjunni til að geta nýtt það sem best fyrir áframhaldandi framkvæmdir. Fráveitulagnir í Austurvegi í Hrísey voru endurnýjaðar samhliða endurgerð götunnar.

Ýmsu viðhaldi var sinnt eins og venja er á heimlögnum og brunnum í kerfinu og áfram var unnið að hreinsun lagnakerfis líkt og fyrri ár. Helst er um að ræða að ná sandi upp úr kerfinu því að hann getur valdið skemmdum á dælum og valdið stíflum ásamt því að minnka afkastagetu kerfisins.

Útbúinn var losunarstaður á Glerárdal fyrir sand úr kerfinu í stað þess að keyra hann á urðunarstað við Blönduós. Losunarstaðurinn er ætlaður til að geyma sandinn þar til lífræn efni hafa brotnað niður en þá má nota sandinn, til dæmis í uppfyllingu.

Unnið var að ýmsum endurbótum í rafkerfum fráveitu ásamt því að setja upp myndavélakerfi í fráveitustöðvum á Akureyri.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina