Fara í efni

Forstjóri Norðurorku

Rekstur Norðurorkusamstæðunnar var vel viðunandi á árinu 2019. Hagnaður varð 347 milljónir króna eftir skatta en áætlanir gerðu ráð fyrir 470 milljóna króna hagnaði fyrir skatta og áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga. Fjárfestingar voru ívið meiri en áætlað eða tæplega 2.200 milljónir króna. Rekstur veitnanna krefst áfram mikilla fjárfestinga og því er veltufé frá rekstri aðalmælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var 1.225 milljónir króna þ.e. nokkurn vegin óbreytt milli ára. Þrátt fyrir það þarf Norðurorka áfram að taka lán á næstu árum til að fjármagna þær stóru framkvæmdir sem nú eru í gangi og framundan. Áætlað er að fjárhagur félagsins verði kominn í jafnvægi 2024. Toppnum í fjárfestingum er náð og áætlað að þær fari nú lækkandi næstu ár.

Rekstrarniðurstaða ársins ber með sér að rekstrarkostnaður samstæðunnar sem hlutfall af tekjum hefur hækkað m.a. vegna almennrar þennslu á markaði, kostnaði við orkugjafa og tjón sem félagið varð fyrir vegna gallaðra hitaveitumæla. Áfram verður það verkefni stjórnar og stjórnenda að nýta möguleg tækifæri til að draga úr rekstrarkostnaði næstu ár. Hér ber þó að geta þess að ný tækni s.s. snjallmælar og ýmis rafræn tækni, mun tímabundið næstu ár, þrýsta rekstrarkostnaði upp meðan innleiðing nýrrar tækni á sér stað. Á móti kemur að kostnaður við orkugjafa fer lækkandi, sem hlutfall af seldu magni í hitaveitu, horft til nýju Hjalteyrarlagnarinnar.

Nú sem fyrr eru mörg stór verkefni í ferli, eða í farvatninu hjá samstæðunni. Stærsta einstaka verkefnið var og er lagning nýrrar Hjalteyrarlagnar ásamt byggingu nýrrar dælustöðvar á vinnslusvæðinu á Arnarnesi. Öðru stóru verkefni er að ljúka en það er bygging hreinsistöðvar fyrir fráveitu en áætlað er að hreinisstöðin verði gangsett nú í sumarbyrjun. Þar með næst lokaáfanginn í því langþráða verkefni að hreinsa fráveituvatn frá Akureyri. Rekstrarkostnaður fráveitunnar mun eðlilega aukast með tilkomu hreinsistöðvarinnar en áætlað er að rekstur hennar kosti um 35-40 milljónir á ári.

Eins og áður hefur komið fram er rekstur hitaveitunnar yfir köldustu vetrardagana okkur þungur í skauti þrátt fyrir magnaukningu frá vinnslusvæðinu á Arnarnesi. Liðinn vetur var hitaveitunni sérlega erfiður og þurfti að keyra varmadælur og olíuketil með tilheyrandi kostnaði yfir kaldasta tímann. Næsta haust verður þriðji áfangi Hjalteyrarlagnar tekin í notkun sem áfram mun skila magnaukningu. Fyrir haustið 2022 verður síðan tekin í notkun ný dælustöð á Arnarnesi sem enn mun auka á flutningsgetuna.

Breytingar á húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum eru í gangi og er nú unnið að færslu mötuneytis sem aftur skapar rými til stækkunar og breytinga á aðstöðu starfsfólks. Áætlað er að breytingum og endurbótum á húsnæði Norðurorku verði lokið seint á árinu 2021.

Í desember sl. gekk aftakaveður yfir norðanvert landið sem olli rafmagnstruflunum og rafmagnsleysi víða um Norðurland. Norðurorka var vel undirbúin enda ákveðið í stefnumótun félagsins 2012 að koma upp varaafli fyrir hita- og vatnsveitu þar sem því yrði viðkomið. Flest vinnslusvæði félagsins voru keyrð á varaafli og náðist sem betur fer að afstýra stærri rekstrartruflunum hjá viðskiptavinum félagsins. Það er von mín að með samstilltu átaki náist að stytta og einfalda leyfismál svo styrkja megi flutnings- og drefikerfi raforku á næstu misserum og árum. Slíkt rafmagnsleysi má ekki endurtaka sig.

Verkefni Vistorku hverfast sem áður um umhverfis- og loftslagsmál. Félagið er talsmaður þess að sveitarfélög og íbúar á starfsvæði Norðurorku hugsi um „grænar“ lausnir og taki ábyrgð á losftlagsmálum. Ábyrgð Norðurorku, sem og íbúa, er mikil í umhverfis- og loftslagsmálum og ekki á aðra að benda í því máli. Öll snýst heildarmyndin um að gera samfélagið við Eyjafjörð kolefnishlutlaust og umhverfisvænt. Norðurorka tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sitt af mörkum m.a. með framleiðslu á metani og lífdísel auk þess að reka 15 farartæki sem brenna metani.

Mikilvægt er að notendur séu vel meðvitaður um notkun þeirra auðlinda sem veitan nýtir s.s. jarðhitavatn og neysluvatn. Hvorugt kemur af sjálfu sér, mikið fjármagn fer í rannsóknir, leit og virkjun jarðhita- og neysluvatns. Við hvetjum notendur áfram til að fara vel með auðlindirnar, sóa ekki heitu og köldu vatni og ganga vel um fráveitukerfið og þar með viðtakann.

Álag hefur áfram verið mikið á starfsfólk enda má segja að viðvarandi þensluástand hafi verið undanfarin ár, auk stórra áskorana í rekstri veitnanna ekki síst hvað lýtur að aukinni vinnslu og aðflutningi jarðhitavatns. Á sama tíma eykst ár frá ári, umfang og umsýsla vegna stjórnsýslunnar sem að fyrirtækinu lýtur.

Ég færi stjórnarfólki þakkir fyrir gott samstarf á liðnum árum. Einnig þakka ég mínu góða samstarfsfólki gott og farsælt samstarf á árinu 2019.

Helgi Jóhannesson

Til baka á forsíðu