Fara í efni

Rekstrarhagnaður Norðurorkusamstæðunnar var tæpar 207 milljónir króna eftir skatta en áætlanir gerðu ráð fyrir 362 milljóna króna hagnaði fyrir skatta og áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga. Fjárfestingar voru nokkuð í takt við áætlun eða rúmlega 1.500 milljónir króna. Rekstur veitnanna, sérstaklega hitaveitunnar krefst áfram mikilla fjárfestinga og því er veltufé frá rekstri aðalmælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri jókst milli ára og var 1.369 milljónir króna. Þrátt fyrir það þarf Norðurorka að taka lán á árinu 2021 til að fjármagna lokaþætti þess að auka orkumátt hitaveitunnar. Nú dregur úr fjárfestingum og er stefnt að því að fjárhagur félagsins verði kominn í jafnvægi árið 2024.

Nú sem fyrr eru mörg stór verkefni í ferli, eða í farvatninu hjá samstæðunni. Stærsta einstaka verkefnið var og er lagning nýrrar Hjalteyrarlagnar en lokið er þrem áföngum af fimm. Stóru verkefni, þ.e. byggingu hreinsistöðvar fráveitu lauk á árinu og var hún gangsett seinni hluta ársins 2020. Þar með náðist lokaáfangi í því langþráða verkefni að hreinsa fráveituvatn frá Akureyri. Rekstrarkostnaður fráveitunnar mun eðlilega aukast með tilkomu hreinsistöðvarinnar en áætlað er að rekstur hennar kosti um 35-40 milljónir á ári.

Fyrri ár hefur rekstur hitaveitunnar yfir köldustu vetrardagana verið okkur þungur í skauti. Liðinn vetur var hitaveitunni hagstæður enda magnaukningin frá Arnarnessvæðinu að skila árangri. Næsta vetur verður fjórði áfangi Hjalteyrarlagnar, ný dælustöð, tekin í notkun sem áfram mun skila magnaukningu. Fyrir haustið 2024, verður að óbreyttu, síðasti áfangi lagnaleiðarinna þ.e. ný lögn frá Skjaldarvík að Akureyri tekin í notkun sem enn mun auka á flutningsgetuna. Í takt við sverun aðveitulagna og minni flutningstapa, fer rafmagnskostnaður hitaveitunnar lækkandi, samfara aukinni flutningsgetu.

Breytingar á húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum eru áfram í gangi, nýtt mötuneyti hefur verið tekið í notkun og er nú unnið að gerð sameiginlegrar starfsmannaaðstöðu. Verkefninu í heild hefur seinkað og er nú von okkar að breytingum og endurbótum á húsnæði Norðurorku verði lokið á árunum 2022-2023.

Verkefni Norðurorku hverfast einnig um umhverfis- og loftslagsmál í þá veru að vinna að „grænum“ lausnum og ábyrgð í loftlagsmálum. Ábyrgð Norðurorku, sem og íbúa, er mikil í umhverfis- og loftslagsmálum og ekki á aðra að benda í því máli. Norðurorka tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sitt af mörkum m.a. með framleiðslu á metani og framleiðslu á lífdísli í gegnum dótturfyrirtækið Orkey ehf, auk þess að reka 15 farartæki sem brenna metani. Kolefnisfótspor Norðurorku er, eins og liðin ár, neikvætt þ.e. við bindum meira kolefni en við losum út í umhverfið en þar spila metanframleiðsla og skógrækt stærsta hlutverkið.

Mikilvægt er að notendur séu vel meðvitaður um notkun þeirra auðlinda sem veitan nýtir s.s. jarðhitavatn og neysluvatn. Hvorugt kemur af sjálfu sér, mikið fjármagn fer í rannsóknir, leit og virkjun jarðhita- og neysluvatns. Við hvetjum notendur áfram til að fara vel með auðlindirnar, sóa ekki heitu og köldu vatni og ganga vel um fráveitukerfið og þar með viðtakann.

Horft til viðtakans hefur hreinsað magn grófefna í hreinsistöðinni verið að meðaltali um 70-90 kg á sólahring. Það er í takt við áætlanir litið til sambærilegra hreinsistöðva á höfuðborgarsvæðinu. Það var þó von okkar og tilfinning að við yrðum með minna magn horft til þess hversu þróuð flokkun úrgangs er, og hefur verið lengi á Akureyri.

Álag er áfram mikið á starfsfólk enda má segja að viðvarandi þensluástand hafi verið undanfarin ár, auk stórra verkefna og áskorana í rekstri veitnanna svo sem aukin vinnsla og aðflutningur jarðhitavatns sem og uppbygging nýrra hverfa fyrir húsbyggingar. Norðurorka hefur einnig tekið við rekstri margra dreifbýlisveitna liðin ár og á árinu bættust við vatnsveita Kaupangssveitar og vatnsveitan í Grímsey. Á sama tíma eykst ár frá ári, umfang og umsýsla vegna stjórnsýslunnar sem að fyrirtækinu lýtur.

Starfsemi félagsins fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum, Covid-19. Neyðarstjórn Norðurorku hélt um 60 fundi á liðnu ári þar sem skipulagi starfseminnar var breytt í takt við lög, reglur og tilmæli sóttvarnayfirvalda á hverjum tíma. Starfsfólk Norðurorku á skilið hrós og þakkir fyrir sveigjanleika og lausnamiðaðar úrlausnir, en starfsfólk vann að stórum hluta út frá nokkrum starfsstöðvum fyrirtækisins og eins unnu margir heima sem og að heiman á tímabilum.

Framtíðarhorfur fyrirtækisins eru góðar horft til heildarinnar, verðskrá er hagfelld en við blasir að viðhaldsþörf veitnanna er að aukast í takt við hækkandi aldur kerfa. Innviðir veitukerfanna eru að mestu neðanjarðar og því er endurnýjun gríðarlega kostnaðarsöm. Ljóst er að viðhald og endurnýjun kerfa þarf í framhaldinu aukna athygli og að gerast í skipulögðum áföngum næstu áratugi.

Ég færi stjórnarfólki þakkir fyrir gott samstarf á liðnum árum. Einnig þakka ég mínu góða samstarfsfólki gott og farsælt samstarf á árinu 2020.

Helgi Jóhannesson