Fara í efni


Á árinu 2020 störfuðu 84 einstaklingar hjá Norðurorku í 70,6 stöðugildum, 58 karlar og 26 konur. Á framkvæmdasviði, sem jafnframt er fjölmennasta sviðið, var fjöldi stöðugilda 30, á veitu- og tæknisviði 22,8 og á þjónustu- og fjármálasviði 13,8. Á stoðsviðum og skrifstofu forstjóra voru 4 stöðugildi.

Tíu einstaklingar komu til starfa í sumarafleysingar og tímabundin verkefni, sjö konur og þrír karlar, sem er í takt við stefnu Norðurorku um að bjóða konum nemastöður og sumarstörf. Tveir einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, fimm á veitu- og tæknisviði, og þrír á þjónustu- og fjármálasviði. Mælaálestur var, eins og undanfarin ár, að mestu í höndum verktaka.

Starfsmannavelta var 5,7%, fjórir einstaklingar létu af störfum hjá Norðurorku en þrír gengu til liðs við fyrirtækið. Allir nýjir starfsmenn voru karlmenn og dreifðust jafnt einn á hvert svið fyrirtækisins.

Starfsmannafundir og -samtöl

Vegna covid-19 heimsfaraldursins var snemma árs gripið til þeirrar varúðarráðstöfunar að fækka starfsfólki í höfuðstöðvum Norðurorku eins og kostur var með því að senda fólk í fjarvinnu. Starfsfólk fór að vinna heima eða að heiman auk þess sem starfsstöðvum var fjölgað þannig að tveir hópar sérfræðinga í útistörfum voru gerðir út, annars vegar frá Þórunnarstræti og hins vegar Þingvallastræti. Að sjálfsögðu litaði fyrirkomulagið meira og minna allt starfið á árinu en óhætt er að segja að starfsfólk hafi tekið höndum saman og staðið sem einn maður í því að láta hlutina ganga sem best.

Starfsmannafundir voru færri en í meðal ári eða einungis fimm og þrír þeirra fóru fram á Teams þar sem covid-19 hamlaði því að starfsfólk gæti komið saman.

Starfsmannasamtöl fóru fram tvisvar á árinu og tókust ágætlega þrátt fyrir að mörg samtöl hafi þurft að fara fram með frekar óhefðbundnum hætti í gegnum Teams.

Ráðstefnur og kynningar

Þátttaka í ráðstefnum og kynningum var nánast engin á árinu. Norðurorka sendi engan erlendis á sínum vegum og ekkert varð af fyrirætluðu fagþingi Samorku.

Árlegri kynnisferð starfsfólks var aflýst og sömu sögu má segja um Kattaslag, sem alla jafna fer fram í febrúar og er ígildi árshátíðar starfsfólks. Árlegri sumarfjölskylduhátíð á Reykjum var aflýst og í stað jólahlaðborðs var boðað til rafrænnar jólagleði, sem tókst með miklum ágætum. Þar gæddi starfsfólk sér á veitingum í boði starfsmannafélagsins á meðan það tók þátt í skemmtidagskrá í beinu streymi undir stjórn Eyþórs Inga Gunnlaugssonar.

Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir

Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. Það að svo margt starfsfólk sinnti fjarvinnu að heiman hafði mikil áhrif á skráðan dagafjölda þar sem nýttur er vistvænn og heilsusamlegur ferðamáti til og frá vinnu. Þeir sem vinna heima ferðast eðli málsins samkvæmt ekki til vinnu og skrá þá enga daga. Norðurorka greiddi samgöngustyrk fyrir 184 mánuði ársins 2020 en til samanburðar voru þeir 277 árið áður. Starfsfólk skráði 3.083 daga árið 2020 sem er einungis 65% af skráðum dagafjölda árið 2019.
Á árinu fengu 36 starfsmenn greiddan heilsueflingarstyrk og 33 fengu greiddan samgöngustyrk.

Endurmenntun

Árlegar fræðsluvikur fóru fram samkvæmt áætlun í janúar. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur frá 13. til 24. janúar. Haldin voru 20 mismunandi námskeið, samtals 89 kennslustundir og heildarþátttakendafjöldi var 422. Um 60% námskeiðanna voru námskeið fyrir allt starfsfólk Norðurorku, 35% námskeiðanna var eingöngu ætlað útifólki og 5% eingöngu innifólki.

Breytingar á vinnufyrirkomulagi

Í öllum kjarasamningum sem Norðurorka er aðili að var samið um að í upphafi árs 2020 myndi Norðurorka hefja viðræður við starfsfólk um skipulag vinnutíma, neysluhléa og styttingu vinnutíma. Í upphafi árs tók því til starfa stýrihópur um mótun tillagna til að samræma vinnutíma í fyrirtækinu með samþættingu fjölskyldu og atvinnulífs að leiðarljósi og um styttingu vinnuvikunnar.

Í lok maí var kosið og samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að taka upp virkan vinnutíma, 35 klukkustundir og 35 mínútur á viku og að styttingin yrði tekin út vikulega á föstudögum. Breytt fyrirkomulag kom til framkvæmdar 21. ágúst og hefur reynst vel.

Jafnlaunavottun

Vinna við innleiðingu jafnlaunavottunar hefur staðið yfir um nokkurt skeið og liður í þeirri vinnu hefur m.a. verið að uppfæra ýmsar stefnur fyrirtækisins, móta aðrar og taka upp starfsmatskerfi sem metur hvert starf sem unnið er hjá Norðurorku til stiga út frá fimm yfirviðmiðum og 14 undirviðmiðum.

Vinna við jafnlaunavottun hafði áhrif á mannauðsstefnu fyrirtækisins og launastefnuna auk þess sem stefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi var uppfærð og aðgerðaáætlun mótuð til að takast á við þau tilfelli sem geta komið upp og varða slík mál. Jafnréttisstefnan var uppfærð og jafnréttisáætlun unnin, sem m.a. fól í sér stofnun jafnréttisráðs innan Norðurorku. Jafnréttisráð er skipað fimm einstaklingum, þremur körlum og tveimur konum og hefur það hlutverk að vinna að og móta tillögur til að stuðla að jafnrétti innan fyrirtækisins, skrifa ársskýrslu jafnréttismála og kynna fyrir starfsfólki.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina