Fara í efni

Samorka

Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samtökin eru málsvari orku- og veitufyrirtækja og beita sér fyrir farsælli þróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi. Á meðal meginverkefna Samorku eru einnig innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna en í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk aðildarfyrirtækjanna. 

Fallorka ehf.

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þar af tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2020 varð orkuframleiðslan 44 GWst.

Fallorka hefur formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun vegna mögulegrar þriðju virkjunar í Djúpadalsá og á árinu var haldið áfram rannsóknum á jarðfræði við fyrirhugað stíflustæði og á vatnsrennsli í ánni. Þá fékk félagið einnig úthlutað rannsóknarleyfi vegna Núpár í Sölvadal við Eyjafjörð og munu rannsóknir hefjast þar  sumarið 2021.

Fallorka hefur unnið að undirbúningi vegna mögulegrar nýtingar á vindorku í Hörgárdal með það fyrir augum að auka framboð og afhendingaröryggi á raforku við Eyjafjörð. Félagið sendi á árinu inn til verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar tillögu um „Vindheimavirkjun 40MW“ og nú hefur verkefnisstjórnin upplýst að hún leggi til að þessi virkjun fari í orkunýtingarflokk.

Tekjur Fallorku námu 864 milljónum króna á árinu og hagnaður fyrir afskriftir var 209 milljónir króna. Hagnaður ársins var þó aðeins 4,5 milljónir króna vegna óhagstæðs gengismunar en veltufé frá rekstri var með besta móti eða 173 milljónir króna.

Vistorka

Annað af tveimur stóru verkefnum ársins var þátttaka með Umhverfis- og auðlindaráðneytinu í bættri nýtingu á Moltu. Verkefnið var framkvæmt í samstarfi við Skógræktina, Orkusetur, Akureyrarbæ og Moltu með veglegum styrkt frá ráðuneytinu. Hitt stóra verkefnið var undirbúningur orkuskipta í Grímsey, þar sem ætlunin er að setja upp vindmyllur og sólarpanela á árinu 2021.

Seinni hluta ársins var byrjað að hanna og setja efni inn á nýja vefsíðu Vistorku þar sem fókusinn verður á fræðslumál í umhverfis- og loftslagsmálum. Á vefsíðunni verða einnig upplýsingar um þau verkefni sem félagið hefur unnið að undanfarin ár ásamt tölulegum upplýsingum um árangur svæðisins í loftslagsmálum, eins og framleiðslumagn moltu, metans og lífdísils.

Þrátt fyrir miklar samkomutakmarkanir á árinu tók Vistorka þátt í mörgum viðburðum m.a. Vísindaskóla HA, ráðstefnu um úrgangsmál á N-landi og Evrópsku nýtnivikunni.

Tengir hf.

Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi. Starfsemi Tengis hefur vaxið mikið undanfarin ár og er tekjugrunnur félagsins sterkur. Fjárfestingar Tengis munu á næstu árum að mestu snúast um að ljúka ljósleiðaravæðingu í þéttbýlinu á Akureyri en segja má að lokið sé tengingum í dreifbýli norðanlands að mestu. Velta félagsins var um 512 milljónir króna og hagnaður um 89 milljónir króna. Rekstrarniðurstaðan er mjög vel ásættanlegt í ljósi mikilla fjárfestinga í uppbyggingu á ljósleiðaraneti og búnaði liðin ár.

NORAK ehf.

NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli. Reksturinn sem er fjárhagslega stilltur af miðað við samningstíma verksmiðjunnar til ársins 2027 gekk vel á árinu 2020.

Hrafnabjargavirkjun ehf.

Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðárdals.
Í tillögu verkefnastjórnar Rammaáætlunar III til umhverfisráðherra eru allir fjórir nýtingakostir félagsins settir í verndarflokk. Rammaáætlun III hefur ekki farið fyrir Alþingi og ekki ljóst hver framvindan verður.

Íslensk orka hf.

Norðurorka er hluthafi í félaginu Íslensk orka hf. en félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði, verkefni sem enn er í biðstöðu. Fram hafa komið áhugsamir aðilar um nýtingu á heita vatninu til raforkuframleiðslu en það er mat stjórnar Íslenskrar orku að hagkvæmara sé fyrir félagið og heimamenn að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til einhvers konar iðnaðarframleiðslu.

Netorka

Norðurorka á 7,7% hlut í Netorku ehf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. 

Orkey ehf.

Á árinu 2019 eignaðist Norðurorka að fullu Orkey ehf. sem rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarfeiti frá veitingahúsum og ýmsum öðrum fitu- og olíuríkum úrgangi. Vinnsla félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfum bæjarins eða í urðun.
Reksturinn í dag er fjárhagslega sjálfbær. Áætlun Norðurorku er að samþætta rekstur Orkeyjar öðrum fyrirtækjum sem taka á móti úrgangi og vinna úr honum verðmæti. Helstu kaupendur Lífdísels er Malbikunarstöð Akureyrarbæjar og sem fyrr Samherji.

Eimur

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Vaðlaböð ehf.

Vaðlaböð ehf. er verkefni um náttúruböð sem kom út úr hugmyndasamkeppni Eims á nýtingu heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum. Norðurorka er með 30% eignarhlut á móti Tækifæri hf. og Stefáni Tryggvasyni hugmyndasmið. Verkefnið var að kanna möguleika þess að koma upp náttúruböðum og nýta heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina