Ýmis mál tengd fráveitu hafa verið í brennidepli á Íslandi undanfarið. Ljóst er að víða um land bíða stór verkefni sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra til að uppfylla kröfur laga og reglugerða. Það er þó einnig mikilvægt að huga að uppruna fráveituvatnsins og þar með starfsleyfum fjölmargra fyrirtækja sem eru sérstakir álagsvaldar. Almenningur getur lagt sitt af mörkum í að draga úr umhverfisáhrifum vegna fráveitu, t.d. með því að muna að klósettið er ekki ruslafata.
Stórum áfanga var náð í fráveitumálum við Eyjafjörð haustið 2020 þegar ný hreinsisstöð fráveitu var tekin í notkun í Sandgerðisbót. Hreinsistöðin er svokölluð 1. þreps hreinsun og byggð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
Hreinsistöðin er ein af stærri hreinsistöðvum landsins og er nokkuð ólík fyrri stöðvum í útfærslu m.a. vegna þess að fráveituvatninu er aðeins dælt einu sinni upp á hreinsibúnaðinn og síðan er sjálfrennsli út um útrennslispípuna. Stöðin er með tvær útrásir þ.e. 400 metra útrás og álagsútrás sem er 90 metrar.
Í þessum fyrsta áfanga er skólpið grófhreinsað, þ.e. grófefni er sigtað úr fráveituvatninu með sigtum sem hafa 3mm möskva, því pakkað og það fært til urðunar. Á fyrstu mánuðunum eftir að hreinsun hófst voru síuð að meðaltali rúmlega 70 kíló á sólarhring af föstum efnum úr fráveituvatninu sem annars hefðu farið í Eyjafjörðinn.
Meðalrennsli um hreinsistöðina er meira en áætlað var eða um 350 l/s. Á Íslandi er fráveituvatn mjög „þynnt“ vegna mikillar vatnsnotkunar. Megnið af retúrvatni skilar sér í fráveituna auk þess sem stór hluti fráveitukerfis bæjarins er einfalt, þannig að regn,- og ofanvatn fer í gegnum stöðina. Eitt af stóru verkefnum framtíðarinnar er að skilja ofan- og regnvatn frá skólpkerfinu í bænum. Hér má sjá fleiri myndir úr hreinsistöð fráveitu.
Ástand viðtakans verður áfram vaktað með reglulegu millibili en árið 2017 kom út vöktunarskýrsla um viðtakann Eyjafjörð sem unnin var af Háskólanum á Akureyri og byggir á gögnum sem safnast hafa á undanförnum árum. Einnig er ástand sjávar við strandlengjuna meðfram bænum vaktað með tilliti til saurkólígerla með reglubundinni sýnatöku. Niðurstöður þeirra eru birtar á heimasíðu Norðurorku.
Nýframkvæmdir og viðhald á árinu
Langstærsta einstaka framkvæmdin tengt fráveitunni var að klára uppsetningu á tækjum og búnaði í hreinsistöð.
Á árinu 2020 voru settar niður dælustöðvar við Skógarhlíð í Hörgársveit og Sjafnargötu á Akureyri þannig að nú er skólpinu frá þeim svæðum dælt inn í fráveitukerfi Akureyrar og þar með í gegnum hreinsistöðina.
Unnið var að undirbúningi og upplýsingaöflun vegna fráveitu í Grímsey en verið er að kortleggja það kerfi sem fyrir er í eyjunni til að geta nýtt það sem best fyrir áframhaldandi framkvæmdir.
Ýmsu viðhaldi var sinnt eins og venja er á heimlögnum og brunnum í kerfinu og áfram var unnið að hreinsun lagnakerfis líkt og fyrri ár. Helst er um að ræða að ná sandi upp úr kerfinu því að hann getur valdið skemmdum á dælum og valdið stíflum ásamt því að minnka afkastagetu kerfisins.
Unnið var að ýmsum endurbótum í rafkerfum fráveitu ásamt því að setja upp myndavélakerfi í fráveitustöðvum á Akureyri.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina