Á árinu 2020 fjárfesti Norðurorka fyrir 25 milljónir í bílum og tengdum búnaði. Ýmis verkfæri og tæki, stór og smá, voru einnig keypt og má þar nefna sem dæmi þráðsuðuvél til að sjóða saman plast. Þessi vél nýtist vel t.d. við frágang á kápu eftir tengingar inn á stofna í hitaveitu.
Endurnýjun bílaflotans
Snemma árs 2020 fékk Norðurorka afhenta tvo bíla sem báðir fóru til rafmagnsþjónustu. Annar þeirra er metan/bensín breyttur VW Caddy og hinn bíllinn er Toyota Hilux sem keyptur var notaður og síðan breytt til að henta betur fyrir bakvakt rafveitunnar. Síðla árs kom svo nýr Ford F150 pallbíll með húsi af gerðinni Super Cab en bíllinn kom metanbreyttur frá Kanada og verður í notkun hjá kerfisdeild. Starfsmenn kerfisdeildar fara víða um sveitir í misjöfnu veðri og því þarf bíllinn að vera vel búinn af verkfærum og búnaði. Ford F150 bílarnir hafa því reynst vel enda útbúnir með geymsluhólfum fyrir verkfæri og búnað auk þess að vera með spennubreyti fyrir 24VDC/230 V AC.
Kaup á nýjum bílum fer eftir aldri bílaflotans og þörf á ári hverju og því misjafnt milli ára hversu margir bílar eru endurnýjaðir. Seldir voru 3 eldri bílar á árinu, sá elsti var módel 1991.
Vistvænum bílum heldur áfram að fjölga hjá Norðurorku
Það hefur verið stefna Norðurorku, eftir að framleiðsla á metani varð hluti af starfseminni, að fjölga vistvænum bílum í bílaflotanum og hefur fjölgunin nánast eingöngu verið í metan bílum. Reikna má með því í framtíðinni að með frekari þróun rafmagnsbíla og aukinni drægni verði hlutur þeirra í bílaflota Norðurorku stærri.
Hlutur vistvænna bíla hjá Norðurorku fer hægt og bítandi í rétta átt og er í dag 43,2%. Á næstu árum mun hlutfall vistvænna bíla halda áfram að hækka. Bílum Norðurorku var ekið 267.411 km á árinu 2020. Þar af var akstur vistvænna bíla 101.968 km eða 38,1 % af heildar akstrinum.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina