Norðurorka sér um dreifingu rafmagns innan Akureyrar. Einnig þjónar rafmagnsþjónusta fyrirtækisins öðrum veitum félagsins sem starfa í alls 8 sveitarfélögum. Verkefni rafvirkja Norðurorku eru því fjölbreytt og snúa jöfnum höndum að háspennu og lágspennu sem og að stjórnkerfum veitna. Á árinu var áfram unnið að smíðum og uppsetningu á iðntölvuskápum fyrir stjórnkerfi allra veitukerfa og er það góð viðbót sem eykur fjölbreytni starfa rafvirkja.
Nýframkvæmdir og viðhald
Aðveitustöðvar Norðurorku eru tvær og eru tveir spennar í hvorri til að auka afhendingaröryggi. Haustið 2020 var skipt um 66kV háspennurofa fyrir annan spenninn í Kollugerði en framkvæmd sem þessi er bæði kostnaðarsöm og flókin. Fjöldi fólks kom að verkinu sem tókst vel en á næsta ári er fyrirhugað að skipta um tvo aðra rofa. Hægt er að sjá fleiri myndir frá vinnunni í Kollugerði með því að smella hér.
Ný dreifistöð 101 var reist við Hlíðarenda og eldri stöð með sama númeri lögð niður. Samhliða var tekinn í rekstur nýr háspennustrengur frá dreifistöð 111 Síðubraut að dreifistöð 101 Hlíðarenda. Með þessari tengingu er búið að styrkja flutningskerfið að Hálöndum og skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli til lengri tíma. Háspennustrengur sem lagður var milli dreifistöðvar 061 í Bakkahlíð og dreifistöðvar 068 í Stapasíðu árið 2019 var tekinn í notkun á vordögum. Tvær dreifistöðvar voru teknar úr notkun árið 2020 og ein er í smíðum á Tangarbryggju.
Á árinu var unnið að spennubreytingu úr 3x220V kerfi í 3N400/230V kerfi í 55 húsum á Akureyri, samhliða ýmsum framkvæmdum eða skoðunum og lagfæringum á dreifistöðvum. Spennubreytingum verður haldið áfram á næstu árum og þau tækifæri nýtt sem gefast þegar skipta þarf um lagnir.
Öryggismál og öryggisstjórnunarkerfið
Ljósbogahætta er ein stærsta hættan sem leynist í raforkukerfinu og á árinu var áfram unnið við útreikninga á ljósbogahættu. Verkefnið snýst um að bæta bæði rekstraröryggi og ekki síður öryggi starfsfólks við vinnu í dreifistöðvum. Í þeim stöðvum þar sem búið er að reikna ljósbogaaflið eru komnar viðeigandi varúðarmerkingar og leiðbeiningar um þann hlífðarbúnað sem krafist er á hverjum stað. Þannig er reynt að draga úr hættunni á slysum vegna ljósboga.
Strangar reglur gilda um öryggisstjórnunarkerfi rafveitu sem m.a. fela í sér að hverja dreifistöð á að skoða á 10 ára fresti. Á árinu 2020 voru þrettán dreifistöðvar skoðaðar samkvæmt þessari reglu. Dreifikerfi út frá viðkomandi stöðvum er einnig skoðað og lagfært eins og þörf er á. Skipt er um þann búnað sem kominn er á aldur og/eða uppfyllir ekki lengur þær öryggiskröfur sem gerðar eru til hans. Til að sannreyna að innri skoðanir Norðurorku séu samkvæmt reglugerðum er hluti þeirra endurskoðaður af Rafskoðun hf. sem er löggild skoðunarstofa.
Til að auka enn frekar rekstraröryggi er unnið að nýjum stjórnvaka, WinCC, sem gerir starfsfólki kleift að fylgjast betur með álagi, stöðu og viðvörunum í rafdreifikerfinu.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina