Fara í efni

Helstu framkvæmdir vatnsveitunnar á árinu 2020 voru lagfæringar á bökkum Hörgár, kaup á nýrri vatnsveitu og bygging nýrrar dælustöðvar vatnsveitu í Hrísey ásamt verkefnum tengdum þeirri framkvæmd.

Ný dælustöð í Hrísey

Vatnsveitan í Hrísey hefur á síðustu misserum verið styrkt og bætt m.a. með smíði nýrrar dælustöðvar sem stendur við Ystabæjarveg 7. Með tilkomu dælustöðvarinnar mun rekstraröryggi vatnsveitunnar í Hrísey batna mikið þar sem nú er aftur hægt að nýta vatnið úr vatnslindum Hríseyjar ásamt borholunni á staðnum. Samhliða tengingu dælustöðvarinnar var lagður ljósleiðari á milli allra veitumannvirkja Norðurorku í eynni auk þess að tengja þriggja fasa rafmagn sem nýtast mun stýribúnaði veitunnar. Þannig verður hægt að fylgjast með stöðu kerfisins frá Akureyri og stýra kerfinu betur rafrænt, sem hefur ekki verið hægt hingað til.

Lagfæringar á bökkum Hörgár

Í mars var farið í að laga bakka Hörgár fyrir ofan vatnsverndarsvæði Norðurorku á Vöglum. Þar var áin búin að naga úr bakkanum og ryðja sér leið í gegnum eldri varnargarð. Ef ekkert hefði verið að gert hefði áin getað flætt að brunnsvæði Vagla með tilheyrandi ógn fyrir vatnsverndina. Því var farið í að setja nýjan og öflugri varnargarð ásamt því að styrkja leifarnar af gamla garðinum.

Kaup á Kaupangsveitu

Norðurorka keypti á árinu nýja vatnsveitu sem í daglegu tali er kölluð Kaupangsveita og nær hún frá Ytri Varðgjá í norðri að Þverá í suðri. Veitan var stofnuð af íbúum svæðisins árið 2002 og í dag eru 87 aðilar tengdir henni. Fljótlega eftir að Norðurorka tók við veitunni hófust framkvæmdir við lagfæringar á brunnsvæði auk þess sem unnið er að því að tengja Kaupangsveitu við aðrar veitur Norðurorku.

Yfirtaka á vatnsveitu í Grímsey

Í október tók Norðurorka yfir vatnsveituna í Grímsey. Yfirtakan hefur staðið til í nokkur ár enda ljóst að hagstæðara er að sama fyrirtækið reki bæði fráveituna og vatnsveituna í eynni. Fljótlega var hafist handa við að endurnýja og lagfæra ýmsan búnað, sérstaklega hvað varðar stýringar. 

Nýframkvæmdir og viðhald

Á árinu voru framkvæmdir í Bakkatúni, götu í Valsárhverfi sem er stórt hverfi rétt norðan við Svalbarðseyri og framtíðar byggingarland Svalbarðseyrar.  Lagðar voru lagnir i Kotru í Eyjafjarðarsveit auk þess sem hafist var handa við að leggja lagnir að nýju hverfi í Glæsibæ sem mun rísa þar á næstu árum. Í Hrísey var skipt um kaldavatnslagnir í Austurvegi á sama tíma og lagðar voru nýjar skólp- og hitaveitulagnir.
Til viðbótar við ofangreind verkefni var unnið að fjölmörgum smærri verkefnum í viðhaldi og nýlögnum víðsvegar í veitukerfinu.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Ársskýrsla Norðurorku