Norðurorka hefur undanfarin ár tekið á móti gestum sem óska eftir að koma í heimsókn til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og þau störf sem þar eru unnin. Gestir af öllum skólastigum, allt frá leikskóla og upp í háskóla hafa komið í heimsókn ásamt félagasamtökum og öðrum fyrirtækjum. Móttökur af þessu tagi gefa okkur tækifæri til að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri auk þess sem þær verða mögulega til þess að einhverjir líti á Norðurorku sem ákjósanlegan vinnustað í framtíðinni.
Neyðarstjórn Norðurorku tók þá ákvörðun snemma á árinu að móttökum og kynningum yrði haldið í algjöru lágmarki á meðan covid-19 geysaði og þar af leiðandi urðu heimsóknir afar fáar á árinu.
Viðskiptavinir voru einnig beðnir að sinna sínum erindum rafrænt eða í gegnum síma ef mögulegt væri, í stað þess að koma á staðinn. Fyrirtækið lokaði þó aldrei og höfðu viðskiptavinir möguleika á að koma í þjónustuver og sinna sínum erindum þar ef þeir óskuðu þess heldur en áhersla var lögð á sóttvarnir, fjarlægðamörk og grímuskyldu, líkt og annarsstaðar í fyrirtækinu.
Ný heimasíða Norðurorku var tekin í notkun síðla árs 2020 og var það svo sannarlega kærkomin bót í kynningarmálum. Fyrirtækið vinnur einnig að því að verða sýnilegra á samfélagsmiðlum en segja má að krafan um aukna upplýsingagjöf hafa aukist á undanförnum árum.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina