Fara í efni

Rannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Norðurorku en þær eru að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar Orkurannsóknir, ÍSOR. Rannsóknir byggja annars vegar á því að fylgjast vel með þeim auðlindum sem verið er að nýta hverju sinni, svokallað vinnslueftirlit, en hins vegar á að huga að mögulegum framtíðarvinnslusvæðum. Vinnslueftirlit á jarðhitasvæðum sem ekki tengjast Akureyri var aukið og sett í sama form og eftirlit á svæðum tengdum Akureyri.

Ólafsfjörður

Að beiðni Norðurorku tók Ísor saman yfirlit um jarðhitastaði í Ólafsfirði með það að markmiði að fá samantekt um stöðu rannsókna á svæðinu. Niðurstaðan var birt í skýrslu þar sem fjallað var um sextán jarðhitastaði. Fjallað var um jarðfræðilegar aðstæður, efnafræði og fleira því tengt ásamt því að setja fram tillögur að frekari rannsóknum.

Jarðhitasvæðin í Eyjafirði

Borun nýrrar holu á Hjalteyri árið 2018, sem fékk nafnið HJ-21, tókst með ágætum og gæti þar verið um að ræða eina vatnsgæfustu lághitaholu á landinu. Vinnsla úr henni hefur verið í gangi allt árið 2020. Ekki er annað að sjá en holan standi undir væntingum og verði einn af máttarstólpum vatnsvinnslu hitaveitunnar í framtíðinni.

Rannsóknum á jarðhitasvæðinu að Ytri-Vík var haldið áfram í því formi að safna gögnum um jarðskjálfta á svæðinu. Áður hafði verið sett upp net jarðskjálftamæla í samvinnu við ÍSOR til að fá betri mynd af legu og stefnu sprungna í Eyjafirði. Unnið var að úrvinnslu rannsóknargagna á árinu til að öðlast betri skilning á svæðinu áður en til borunar kemur.

Þá hefur a fyrri árum verið unnið að athugunum á jarðhita á hafsbotni með þrívíðum dýptarmælingum sem unnar voru af mælingabátnum Baldri. Kafað hefur verið að hugsanlegum jarðhitastöðum til að kanna hvort uppstreymi sé til staðar en úrvinnslu er ekki lokið. Tilgangur þessa er að fá yfirsýn yfir legu og innbyrðis samhengi jarðhitasvæðanna við Eyjafjörð og auka skilning á þeim.

Boraðar voru tvær hitastigulsholur í Djúpadal í Eyjafjarðarsveit en úrvinnslu er ekki lokið.

Vatnið í Vaðlaheiði

Rannsóknir jarðhitans í Vaðlaheiðinni hafa verið færðar aftar í forgangsröðina. Byggir það m.a. á því að erfitt og dýrt er að koma við rannsóknum ofan á heiðinni. Fylgst er með efnasamsetningu heita vatnsins sem hluta af vinnslueftirliti hitaveitu Norðurorku.

Afmörkun vatnsverndarsvæðis í Vaðlaheiði vegna vatnsbólsins í göngunum hófst 2018 og felst sú vinna bæði í mælingum og gerð reiknilíkans til að meta áhrifasvæði vatnsbólsins í heiðinni. Verkfræðistofan Vatnaskil sér um líkangerð en verkfræðistofan Mannvit annast mælingar.

 

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina