Fara í efni


Gæðamál

Norðurorka afhendir kalt vatn, heitt vatn og rafmagn til viðskiptavina og sér um að fráveita sé í lagi. Þetta eru gríðarlega mikilvægir innviðir sem samfélagið reiðir sig á allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Til að tryggja að fyrirtækið sinni sínum mikilvægu verkefnum vel þarf gott utanumhald. Það gerir Norðurorka m.a. með vottuðu gæðakerfi sem m.a. tryggir kerfisbundnar úttektir óháðra aðila en fyrirtækið hefur haldið vottun sinni frá upphafi. Á hverju ári tekur Heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Norðurorku til örverugreiningar auk þess sem tekin eru sýni til heildarefnagreiningar. Reglulegt vinnslueftirlit fer fram í hitaveitunni þar sem m.a. er mælt efnainnihald vatnsins og lagt mat á heildarafkastagetu vinnslusvæðanna. Árlega eru gerðar spennugæðamælingar í rafveitu til að fylgjast með því að kröfur til spennugæða, sem fram koma í reglugerðum og stöðlum, séu uppfylltar. Fráveitan dælir skólpi út í sjó og með reglulegum sýnatökum er fylgst með álagi á skilgreindu þynningarsvæði og við strandlengjuna meðfram Akureyri.

Frá árinu 2011 hefur Norðurorka rekið innra eftirlitskerfi með sölumælum sínum sem hluta af gæðakerfi fyrirtækisins. Þessi þáttur gæðakerfisins snýr að því að tryggja réttar mælingar og að mælaskipti fari fram á réttum tíma. Árið 2020 var skipt um 603 mæla í hitaveitu, ýmist til að ljúka mælaskiptum fyrra árs eða skipta út mælum sem haldnir voru ágalla.  Settir voru upp 306 varmaorkumælar til að einfalda aflestur og uppgjör en einnig sem lið í þeirri framtíðarþróun að selja varmaorku í stað rúmmetra. Heildarfjöldi varmaorkumæla var 2.208 stk í lok árs 2020. Gert hafði verið ráð fyrir frekari fjölgun en vegna covid gekk það ekki eftir. Einnig voru settir upp nokkrir nýir kaldavatnsmælar á stærri heimlagnir hjá lögaðilum og mun sú vinna halda áfram árið 2021.  Rúmlega 300 aflrænum mælum í rafveitu var skipt út á árinu fyrir rafræna.  

Þó að reglulegt eftirlit með gæðum sé nauðsynlegt snúast gæðamál um svo miklu meira. Gott gæðakerfi ýtir undir að hver einasti starfskraftur taki eftir og leiti að tækifærum til að tryggja gæði betur, bæta verkferla, auka öryggi og minnka álag á starfsfólk svo eitthvað sé nefnt. Hjá Norðurorku eru stöðugt í gangi umbótaverkefni, bæði stór og smá, sem miða að því að bæta fyrirtækið á allan mögulegan hátt. Að reka gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001 er verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins og er skuldbinding stjórnenda og þátttaka starfsfólks lykilatriði. Starfsfólk Norðurorku er stolt af fyrirtækinu og leggur metnað sinn í að bæta það stöðugt.

Gott gæðakerfi snýst nefnilega ekki einungis um að gera vel heldur snýst það um að gera sífellt betur.

Umhverfismál

Á undanförnum árum hafa umhverfismál fengið auka vægi hjá Norðurorku og hefur fyrirtækið samþykkt umhverfisstefnu. Lögð er áhersla á virðingu við náttúruna og hefur starfsfólk Norðurorku lagt lóð á vogaskálarnar í umhverfismálum undanfarin ár, m.a. með því að hittast eftir vinnu, einn dag að vori, ásamt fjölskyldumeðlimum til að tína rusl og fegra umhverfi í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Norðurorku á Rangárvöllum. Vorið 2020 samanstóð hópurinn af 35 einstaklingum, stórum og smáum sem lögðu allir sitt að mörkum. Hér má sjá fleiri myndir frá deginum.

Umhverfismál eru Norðurorku afar mikilvæg og hefur fyrirtækið skuldbundið sig til að draga úr losun gróðuhúsalofttegunda auk þess að minnka myndun úrgangs frá starfseminni. Á árinu 2020 var rúmlega 85% alls úrgangs frá starfseminni flokkaður.

Helstu aðgerðir fyrirtækisins til að draga úr kolefnislosun vegna starfseminnar er áhersla á að kanna ávalt möguleikann á vistvænum bílum við endurnýjun á bílaflotanum en eins og sjá má í kaflanum "Tæki og búnaður" þá eru nú 16 af 37 bílum Norðurorku knúnir á vistvænan hátt og þeim fer fjölgandi. 

Auk þess að vera með aðgerðir sem stuðla að minnkun beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins leggur Norðurorka áherslu á bindingu kolefnis og bindur fyrirtækið mun meiri koltvísýring en það losar frá starfseminni.

Í upphafi árs 2020 átti Norðurorka 54 hektara af skógi sem binda koltvísýring. Á árinu var tekin ákvörðun um að endurvekja gróðursetningaverkefni fyrirtækisins og í samvinnu við Akureyrarbæ er gróflega búið að kortleggja möguleg gróðursetningarsvæði Norðurorku. Einnig var hafist handa við gróðursetningu trjáa en um 550 víðitrjám var plantað á metantökusvæði Norðurorku. Gert er ráð fyrir að skógræktaráætlun Norðurorku til komandi ára eða áratuga verði fullunnin á árinu 2021.
Til viðbótar við skógræktina hefur Norðurorka unnið gegn gróðurhúsaáhrifum með því að framleiða metangas úr gömlu sorphaugunum ofan við Akureyri frá árinu 2014.  

Ársskýrsla Norðurorku

 

Hreinsistöð fráveitu sem tekin var formlega í notkun síðla árs 2020 er svo sannarlega jákvætt skref í umhverfismálum Norðurorku og fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð. Í hreinsistöðinni fer fram "fyrsta þreps hreinsun" þ.e. að allir fastir hlutir í fráveituvatninu eru síaðir frá með þriggja millimetra þrepasíun áður en fráveituvatnið er veitt út í fjörðinn. 

Öryggismál

Norðurorka leggur áherslu á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi eða heilsu fólks vegna þess. Fyrirtækið leggur metnað í að útvega þann öryggisbúnað sem þurfa þykir til að tryggja öryggi starfsfólks og almennings vegna framkvæmda.

Haldin er skrá yfir slys og hættuleg atvik hjá Norðurorku og er starfsfólki skylt að tilkynna strax ef það verður fyrir slíku. Vinnuslys árið 2020 voru 16, þar af 4 fjarveruslys. Óásættanlegar aðstæður, ótryggur búnaður eða annað sem ógnað getur öryggi og/eða heilsu er einnig skráð ásamt næstum slysum og voru þessar skráningar 16 á árinu. Við hverja skráningu fær næsti yfirmaður póst um atvikið og sér hann til þess að úrbætur séu gerðar eins fljótt og auðið er, gjarnan í samvinnu við þann sem skráði. 

Hjá Norðurorku starfar öryggisnefnd sem fundar að lágmarki átta sinnum yfir árið og oftar ef þurfa þykir. Fundina sitja einnig  öryggisstjóri og verkefnastjóri öryggismála . Farið er m.a. yfir allar slysaskráningar og ábendingar varðandi öryggismál og fylgist með því hvort úrbætur séu framkvæmdar. 

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina