Fara í efni

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt undanfarin ár og var aukningin um 5,5% á liðnu ári sem er um tvöföldur vöxtur sé horft til meðalárs. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og nágrenni en þegar horft er til aukningar í íbúafjölda virðist sem hver einstaklingur sé að nota aukið magn hitaveituvatns. Aukningin mun útheimta áframhaldandi rannsóknir til öflunar á heitu vatni sem og frekari framkvæmdir til að koma því til Akureyrar. 

Hjalteyrarlögnin og tengd verkefni

Á árinu 2020 héldu framkvæmdir áfram við að auka orkumátt hitaveitunnar. Lagðir voru 8.500m af 500mm lögn frá bænum Ósi við ósa Hörgár að dælustöð Norðurorku við Skjaldarvík. Lögnin liggur skammt vestan Skipalóns og við þverun Hörgár fer hún í gegnum hólma sem þar er í ánni. Hér má sjá fleiri myndir af vinnunni við Hörgá.

Einnig var lögð lögn frá Skjaldarvík að lögn sem tengir Þelamörk við Akureyri og hafði ekki verið fullnýtt. Með þessum tveimur framkvæmdum jókst flutningsgeta til Akureyrar mikið þrátt fyrir að ekki sé búið að leggja 500 mm lögnina alla leið til Akureyrar frá Hjalteyri.

Samhliða þessari lagnavinnu voru ýmis önnur verkefni í gangi sem tengjast nýju Hjalteyrarlögninni. Heitavatnskerfi Akureyrar var breytt og fært í þá mynd sem til stóð í upphafi veitunnar, þ.e. þannig að dælustöðin Þórunnarstræti (Mímisvegi) yrði "miðpunktur" kerfisins. Þangað kæmi allt vatn sem dælt væri frá vinnslusvæðunum, bæði sunnan og norðan Akureyrar, og frá Þórunnarstræti yrði því dreift út til notenda. Lögnin sem lögð var innanbæjar sumarið 2018, frá Hlíðarbraut og að Þórunnarstræti, þjónar einmitt þessum tilgangi, þ.e. að koma Hjalteyrarvatninu í Þórunnarstræti. Tvær stórar dælur voru settar upp í dælustöðinni í Þórunnarstræti (Mímisvegi) til að stöðin anni hlutverkinu, auk þess sem varaaflsvél var komið fyrir í  þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi í rafmagnsleysi.
Dælustöð bakrásar, sem er á plani Glerártorgs var breytt þannig að hún geti bæði blandað vatnið sem fer niður á eyri sem og dælt bakrás  til blöndunar í dælustöðinni Þórunnarstræti (Mýmisvegi). 

Ljóst er að núverandi eimskilja og dælustöð á Hjalteyri munu ekki anna aukinni dælingu eftir að síðasti hluti Hjalteyrarlagnar verður lagður frá Skjaldarvík að Akureyri. Því verður ráðist í það verkefni á árunum 2021 og 2022 að byggja nýja eimskilju og dælustöð, umtalsvert stærri en þær sem fyrir eru.

Reykjaveita

Á árinu var ný eimskilja tekin í notkun og er hún einn liður í að bæta afkastagetu Reykjaveitunnar sem nær frá Reykjum í Fnjóskadal að Grenivík. Einnig var keypt öflugri rafmagnsheimtaug að dælustöðinni sem og öflugri varaaflsvél sem hefur sannað sig að er nauðsynlegur búnaður á stað eins og Reykjum. Reykjaveitan er löng og með mjög kaflaskipta notkun þannig að borið hefur á þrýstisveiflum í kerfinu. Þar af leiðandi er á dagskránni að setja niður eina dælustöð á leiðinni sem mun hjálpa til við að halda stöðugum þrýstingi á lögninni alla leið til Grenivíkur.

Dæluupptektir hitaveitu

Skipt var um dælu í holu LÞNS-10 á Þelamörk. Holan er önnur af tveimur holum á svæðinu sem m.a. sjá Þelamerkursvæðinu fyrir heitu vatni auk þess sem vatni úr holunum er dælt til Akureyrar. Dælan sem tekin var upp úr holunni var á 250m dýpi en um var að ræða hluta af venjulegu viðhaldi en miðað er við að fara í dæluupptekt sem þessa á um 10 ára fresti.

Einnig var skipt um dælu í ÓB-4 á Ólafsfirði á árinu. Dælan sem fyrir var í holunni hafði verið síkkuð um 9 metra á árinu 2019 til að mæta aukinni notkun á svæðinu. Aukna notkun má m.a. rekja til þess að á árinu 2017 var hitaveita lögð að bænum Hólkoti en með Hólkotsveitunni bættust á annan tug nýrra notenda við veituna.  Þegar dælan var tekin upp og síkkuð árið 2019 kom í ljós að hún var óeðlilega slitin miðað við aldur og því var ákveðið að skipta um hana núna ári seinna. 

Á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit var skipt um dælu í holu LJ-7 vegna bilunar. Dælan var einungis tæplega árs gömul og því ekki um óskastöðu að ræða. 

Hér má sjá myndir frá dæluupptektum á Þelamörk og Ólafsfirði. 

Ýmsar framkvæmdir

Á árinu var byrjað að byggja nýja dælustöð við Hlíðarenda sem dælir vatni til Hálanda en hverfið fer sífellt stækkandi. Þar sem byggðin í Hálandahverfinu er tiltölulega einsleit, líkt og í öðrum frístundahverfum, þá verða álagstoppar háir þegar margir skrúfa frá heita vatninu á sama tíma t.d. til að láta renna í pottinn. Því var stutt í að dælan, sem fyrir var á Hlíðarenda, hætti að ráða við mestu álagstoppana. Með nýju dælustöðinni hefur afhendingaröryggi í Hálöndum aukist til muna.

Á árinu var unnið að lagningu hitaveitu í Bakkatún í Valsárhverfi sem er nýtt hverfi rétt norðan við Svalbarðseyri auk þess sem hafist var handa við að leggja lagnir að nýju hverfi sem mun rísa í Glæsibæ á næstu misserum.
Lagðar voru lagnir í Kotru sem er í Eyjafjarðarsveit auk þess sem hitaveitustofninn frá Öngulstöðum að Björk var endurnýjaður.
Ný hitaveita var lögð í Austurveg í Hrísey þegar skipt var um allar lagnir í þeirri götu.
Það var því í ýmis horn að líta hjá hitaveitunni á árinu fyrir utan allt venjulegt viðhald.

 

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Ársskýrsla Norðurorku