Á starfsárinu 2020 voru haldnir 12 stjórnarfundir, auk eigendafunda og funda vegna stefnumótunar. Á aðalfundi 2020 var stjórn kosin óbreytt en stjórn félagsins á starfsárinu skipuðu auk mín, Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður, Eva Hrund Einarsdóttir ritari og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir og Hlynur Jóhannsson meðstjórnendur. Varamenn voru, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson. Áheyrnafulltrúi minni hluthafa var Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit.
Rekstur Norðurorku hefur gengið vel undanfarin ár og árið 2020 var á svipuðu róli. Staða félagsins er sterk og verkefnin stór og margþætt. Hagnaður varð af rekstri samstæðunnar á árinu 2020 upp á tæpar 207 milljónir króna og bókfært eigið fé samstæðunnar í árslok nam 12,4 milljörðum króna. Hagnaður félagsins er nokkru minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður þess eru m.a. þar sem gengisveiking krónunnar orsakaði neikvæða gengisfærslu uppá 194 milljónir króna. Ánægjuefni er að rekstrarkostnaður lækkaði lítillega á milli ára og veltufé frá rekstri jókst um 144 milljónir króna.
Fjárfestingaráætlun áranna 2021-2024 gerir ráð fyrir kostnaði upp á rúma þrjá milljarða króna en toppnum er náð og nú eru fjárfestingar lækkandi. Til að mæta kostnaði við verkefnin er gert ráð fyrir lántöku upp á 600 milljónir króna á árinu. Áætlanir okkar gera þó áfram ráð fyrir því að fjármál fyrirtækisins verði komin í gott jafnvægi árið 2024. Mikilvægt er áfram að framtíðarsýn og fjárfestingaráætlanir félagsins taki mið af rekstraröryggi veitukerfanna sem sífellt verða eldri og kalla á aukið viðhald.
Áfram er okkar mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sterkri samkeppnisstöðu sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu. Stjórn félagsins og stjórnendur hafa því lagt mikið kapp á að stilla framkvæmda- og fjárfestingaráætlunum upp með þeim hætti að gott jafnvægi sé milli framtíðartekna og gjalda, en að um leið sé uppbyggingin nægilega hröð til þess að tryggja góða og örugga þjónustu til framtíðar.
Árangur dótturfélags Norðurorku, Fallorku, var viðunandi á síðasta ári og var hagnaður af rekstri tæpar 5 milljónir króna. Þrátt fyrir lítinn hagnað sem orsakaðist af gengisveikingu krónunnar var veltufé frá rekstri með besta móti eða 173 milljónir króna. Nýverið fékk Fallorka grænt ljós í rammaáætlun fjögur á áætlað vindorkuverkefni sitt tengt Vindheimum í Hörgárdal. Á árinu var ákveðið að eiga Fallorku áfram og vinna með tækifæri fyrirtækisins í framhaldinu.
Á árinu 2020 lauk vinnu við stefnumótum sem hófst í lok árs 2019. Að mati stjórnar og stjórnenda er félagið, í stóru myndinni, á réttri braut. Út úr stefnumótunarvinnunni kom tímasett aðgerðaráætlun með verkefnum sem unnið verður að næstu misserin. Stjórnendur fara reglulega yfir aðgerðarlistann og kynna stöðu verkefna og árangur þeirra fyrir stjórn.
Ný hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót var gangsett á síðari hluta ársins og þar með má segja að lokaáfanga í uppbygginu fráveitukerfisins á Akureyri hafi verið náð, verkefni sem hófst í raun árið 1991 þegar Akureyrarbær lét hanna framtíðarfyrirkomulag fráveitukerfisins. Um stóran áfanga er að ræða fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð þar sem fráveituvatnið er nú loks hreinsað áður en því er veitt út í fjörðinn.
Kjarnarekstur Norðurorku er veitustarfsemi fyrst og fremst og mikilvægt að muna að þar liggur okkar megin ábyrgð. Engu að síður býr félagið yfir möguleikum til þess að styðja við og fjölga tækifærum í samfélaginu með ýmsum hætti og það höfum við vissulega gert í gegnum tíðina með góðum árangri.
Ég vil að lokum þakka forstjóra, starfsfólki Norðurorku ásamt félögum mínum í stjórninni fyrir gott og farsælt samstarf á árinu. Þá vil ég einnig færa hluthöfum bestu þakkir fyrir ánægjulega samvinnu á árinu.
Ingibjörg Ólöf Isaksen