Fara í efni

Rekstrarhagnaður Norðurorkusamstæðunnar var tæpar 546 milljónir króna eftir skatta en áætlanir gerðu ráð fyrir 336 milljóna króna hagnaði án áhrifa dóttur- og hlutdeildarfélaga. Fjárfestingar voru nokkuð í takt við áætlun eða rúmlega 1.100 milljónir króna en nokkuð var um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við. Rekstur veitnanna, sérstaklega hitaveitunnar krefst áfram mikilla fjárfestinga og er veltufé frá rekstri aðalmælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri jókst milli ára og var tæpar 1.600 milljónir króna.

Undanfarin ár höfum við horft til þess að nú færi að draga úr stærri fjárfestingum og var stefnt að því að fjárhagur félagsins yrði kominn í jafnvægi árið 2024. Í ljósi þess að allt bendir til að jarðhitakerfið á Hjalteyri sé orðið fullnýtt, fyrr en við sáum fyrir, blasir við að framkvæmdir aukast á ný og þar af leiðandi fjárfestingar. Enn eru tveir áfangar eftir í svokölluðu Hjalteyrarverkefni, bygging dælustöðvar og einn áfangi aðveitulagnar. Nú er í gangi uppsetning áætlana fyrir þá framtíðarmynd að staðsetja borholu í jarðhitasvæðið við Syðri-Haga og virkja svæðið til nýtingar. Vonir standa til að boranir hefjist í lok árs 2022. Þá mun síðasti leggur aðveitulagnarinnar frá Hjalteyri verða lagður á árinu 2024 enda mun sú lögn flytja aukið jarðhitavatn úr norðri.

Miklar samfélagsbreytingar eru í gangi sem hafa áhrif á rekstur fyrirtækisins. Í því sambandi má segja að þáttur Norðurorku sé nú að vinna framar í þjónustu og með viðskiptavinum að ýmsum verkefnum félagsins. Í gangi er m.a. „snjallmælavæðing hita- og vatnsveitu sem býður upp á „tækifæri“ til að útbúa nýjar verðskrár sem taka mið af sóun, ábyrgri auðlindanýtingu og nýtingu innviða. Hleðsla rafbíla mun reyna á þjónustu og innviði dreifikerfisins og því er mikilvægt að fræða viðskiptavini m.a. um að afltaka úr dreifikerfinu sé á einhvern hátt heft eða stýrt m.a. með nýjum verðskrám.

Í hitaveitunni blasir við gríðarleg aukning notkunar hvert ár, langt umfram fólksfjölgun. Í því samhengi er ljóst að vinna þarf mun meira á notendahliðinni svo sem í fræðslu þannig að umgengni okkar um jarðhitaauðlindina sé ábyrg og að jarðhitavatni sé ekki sóað eða það nýtt til verkefna sem skipta samfélagið minna máli. Í því sambandi má horfa til þess að jarðhitavatn hefur hingað til verið ódýr orkugjafi og nýting því tekið mið af því. Verðskrá hitaveitu þarf að vera þannig úr garði gerð að „umframnotkun“ verði dýrari. Það er dýrt fyrir okkur öll að sækja í ný jarðhita- og vinnslusvæði með tilheyrandi kostnaði við rannsóknir, leit, virkjun og aðveitulagnir.

Verkefni Norðurorku hverfast einnig um umhverfis- og loftslagsmál í þá veru að vinna að „grænum“ lausnum og ábyrgð í loftlagsmálum. Ábyrgð Norðurorku, sem og íbúa, er mikil í umhverfis- og loftslagsmálum og ekki á aðra að benda í því máli. Norðurorka tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sitt af mörkum m.a. með rekstri Vistorku sem og framleiðslu á metani og lífdísli í gegnum dótturfyrirtækið Orkey ehf, auk þess að reka 16 farartæki sem brenna metani. Hér ber að geta þess að margar áskoranir eru samfara rekstri á Orkey og óljóst með framtíð þess fyrirtækis en þó ljóst að áfram verður notaðri steikingarolíu safnað til þess að hlífa viðtakanum. Olían kann því að verða flutt erlendis til endurvinnslu. Framleiðsla Orkeyjar er nátengd hugmyndum um uppbyggingu á endurvinnslustöð, svokölluðu lífmassaveri eða heildarúrlausn ýmissa umhverfis- og orkumála s.s. framleiðslu á lífdísli og metani auk brennslu á sorpi. Sveitarfélögin og ríkið þurfa að taka höndum saman um forustu í síkum úrlausnum til framtíðar.

Kolefnisfótspor Norðurorku er, eins og liðin ár, neikvætt þ.e. við bindum meira kolefni en við losum út í umhverfið en þar spila metanframleiðsla og skógrækt stærsta hlutverkið. Áfram verður unnið í að binda kolefni og ákveðið er að auka fjármagn til skógræktar á Reykjum næstu ár.

Álag er áfram mikið á starfsfólk enda má segja að viðvarandi þensluástand hafi verið undanfarin ár, auk stórra verkefna og áskorana í rekstri veitnanna svo sem aukin vinnsla og aðflutningur jarðhitavatns sem og uppbygging nýrra hverfa fyrir húsbyggingar. Á sama tíma eykst ár frá ári, stærð og umfang veitukerfa auk umsýslu í stjórnsýslu sem að fyrirtækinu lýtur. Í ljósi þess að Norðurorka áætlar að auka framlag sitt á notendahliðinni eins og að framan greinir, mun félagið styrkja stjórnsýsluna og þjónustuver á næstu misserum. Áfram er unnið að endurbótum á húsnæðinu á Rangárvöllum í takt við það starfsumhverfi sem við viljum bjóða starfsfólki okkar upp á. Norðurorka hefur átt gott með að fá starfsfólk til starfa, sem er ekki sjálfgefið í dag, en góður starfsandi er hjá félaginu og öll umgjörð maunnauðsmála til eftirbreytni.

Starfsemi félagsins fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum, Covid-19 á árinu 2021 frekar en fyrra ár. Neyðarstjórn Norðurorku hefur haldið yfir 100 fundi á liðnum tveim árum þar sem skipulagi starfseminnar hefur verið breytt í takt við lög, reglur og tilmæli sóttvarnayfirvalda á hverjum tíma. Starfsfólk Norðurorku á skilið hrós og þakkir fyrir sveigjanleika og lausnamiðaðar úrlausnir, en áfram vann starfsfólk að stórum hluta út frá nokkrum starfsstöðvum fyrirtækisins og eins unnu margir heima sem og að heiman á tímabilum.

Ég færi stjórnarfólki þakkir fyrir gott samstarf á liðnum árum. Einnig þakka ég mínu góða samstarfsfólki gott og farsælt samstarf á árinu 2021.

Helgi Jóhannesson
Forstjóri