Fara í efni

Á árinu 2021 störfuðu 86 einstaklingar hjá Norðurorku í 69 stöðugildum, 58 karlar og 28 konur. Á framkvæmdasviði, sem jafnframt er fjölmennasta sviðið, var fjöldi stöðugilda 27, á veitu- og tæknisviði 23 og á þjónustu- og fjármálasviði 15. Á stoðsviðum og skrifstofu forstjóra voru 4 stöðugildi.

Tíu einstaklingar komu til starfa í sumarafleysingar og tímabundin verkefni, átta konur og tveir karlar, sem er í takt við stefnu Norðurorku um að bjóða konum nemastöður og sumarstörf. Tveir einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, sjö á veitu- og tæknisviði og einn á þjónustu- og fjármálasviði. Mælaálestur var, eins og undanfarin ár, að mestu í höndum verktaka.

Starfsmannavelta var 5,8%, fimm létu af störfum hjá Norðurorku en sex gengu til liðs við fyrirtækið. Þrír karlmenn tóku til starfa á framkvæmdasviði, karl og kona hófu störf á veitu- og tæknisviði og einn karl var ráðinn á þjónustu- og fjármálasviði.

Starfsmannafundir og -samtöl

Covid-19 heimsfaraldurinn dróst á langinn og sú varúðarráðstöfun að fækka starfsfólki í höfuðstöðvum Norðurorku og hafa fólk í fjarvinnu stóð meira og minna allt árið. Starfsfólk vann heima eða að heiman auk þess sem þrír hópar sérfræðinga í útistörfum voru gerðir út, þ.e. frá Þórunnarstræti, Þingvallastræti og frá hreinsistöð fráveitu. Aðlögunarhæfni starfsfólks var aðdáunarverð en vissulega tekur það toll að gera ráð fyrir tímabundnum takmörkunum, en sitja svo uppi með langvarandi ástand þar sem erfitt er að koma saman eða gera sér glaðan dag með vinnufélögunum.

Starfsmannafundir voru færri en í meðal ári eða einungis fimm og allir fóru þeir að einhverju leyti fram á Teams vegna fjöldatakmarkana eða fjarvinnufyrirkomulags.

Starfsmannasamtöl fara alla jafna fram tvisvar á ári en af ýmsum ástæðum dróst fyrri umferð og ákveðið var að aflýsa seinni umferð m.a vegna vinnustaðagreiningar sem fram fór seinni hluta ársins.

Ráðstefnur og kynningar

Þátttaka í ráðstefnum og kynningum var nánast engin á árinu. Norðurorka sendi engan erlendis á sínum vegum og ekkert varð af fyrirætluðu fagþingi Samorku.

Árlegri kynnisferð starfsfólks var aflýst og sömu sögu má segja um Kattaslag, sem alla jafna fer fram í febrúar og er ígildi árshátíðar starfsfólks. Árlegri sumarfjölskylduhátíð á Reykjum var aflýst og í stað jólahlaðborðs var boðað til októberfagnaðar í glugga sem myndaðist tímabundið þegar smitum hafði fækkað á landinu og samkomutakmarkanir rýmkaðar verulega. Skemmtunin tókst með miklum ágætum, en starfsfólk og gestir þeirra komu saman í nýjum og glæsilegum matsal Norðurorku í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Boðið var upp á dýrindis veitingar og heimatilbúin skemmtiatriði af bestu sort.

Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir

Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. Það að svo margt starfsfólk sinnti fjarvinnu að heiman hafði mikil áhrif á skráðan dagafjölda þar sem nýttur er vistvænn og heilsusamlegur ferðamáti til og frá vinnu. Þeir sem vinna heima ferðast eðli málsins samkvæmt ekki til vinnu og skrá þá enga daga. Norðurorka greiddi samgöngustyrk fyrir 196 mánuði ársins 2021 en til samanburðar voru þeir 184 árið áður og 277 árið fyrir covid. Starfsfólk skráði 3.268 daga árið 2021 sem er lítilleg aukning frá árinu áður en einungis 70% af skráðum dagafjölda árið 2019.
Á árinu fengu 39 starfsmenn greiddan heilsueflingarstyrk og 25 fengu greiddan samgöngustyrk.

Endurmenntun

Árlegar fræðsluvikur fóru fram samkvæmt áætlun í janúar. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur frá 11. til 22. janúar. Haldin voru 17 mismunandi námskeið, samtals 127 kennslustundir og heildarþátttakendafjöldi var 597, sem er samsvarandi því að hver starfsmaður hafi setið rúmlega 8 mismunandi námskeið á þessu tveggja vikna tímabili. Allflest námskeiðin fóru fram í gegnum fjarfundabúnað.

 

Jafnlaunavottun

Jafnréttisráð tók til starfa í mars og er skipað fimm sjálfboðaliðum, tveimur konum og þremur körlum úr hópi starfsfólks til viðbótar við mannauðsstjóra. Ráðið fundaði 11 sinnum og helstu verkefni sem ráðið sinnti voru að móta tillögur til að stuðla að auknu jafnrétti innan Norðurorku, greina starfseiningar og kynjaskiptingu þeirra í fyrirtækinu, taka þátt í námskeiðum og ráðstefnum um jafnréttismál, fjölbreytileika og fjölmenningu, vinna samantekt yfir auglýst störf, umsóknir og ráðningar hjá Norðurorku og undirbúa fræðslu fyrir stjórnendur og starfsfólk.

Launagreining var unnin í október upp úr launagögnum frá í ágúst 2021. Launamunur þegar horft er til heildarlauna mælist 1,9% körlum í vil en kynbundinn launamunur þegar horft er til fastra grunnlauna er 0.8% konum í vil. Launamunurinn er vel innan við sett markmið Norðurorku frá í mars um að kynbundinn launamunur fastra launa skuli vera innan við 2,5%.

Jafnréttisstefna og – áætlun var staðfest af Jafnréttisstofu í upphafi ársins og í lok árs fékk Norðurorka vottunarstaðfestingu á því að jafnlaunakerfi fyrirtækisins uppfyllti kröfur jafnlaunastaðalsins.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina