Fara í efni

Ýmis mál tengd fráveitu hafa verið í brennidepli á Íslandi undanfarið. Ljóst er að víða um land bíða stór verkefni sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra til að uppfylla kröfur laga og reglugerða. Það er þó einnig mikilvægt að huga að uppruna fráveituvatnsins og þar með starfsleyfum fjölmargra fyrirtækja sem eru sérstakir álagsvaldar. Almenningur getur lagt sitt af mörkum í að draga úr umhverfisáhrifum vegna fráveitu, t.d. með því að muna að klósettið er ekki ruslafata.

Hreinsistöð

Nú er rúmt ár síðan hreinsistöð Norðurorku í Óseyri var tekin í notkun en þar með var stórum áfanga í fráveitumálum á Akureyri lokið. Hreinsistöðin er svokölluð 1. þreps hreinsun og byggð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Í þessum fyrsta áfanga er skólpið grófhreinsað, þ.e. grófefni er sigtað úr fráveituvatninu með sigtum sem hafa 3mm möskva, því pakkað og það fært til urðunar. 
Rekstur hreinsistöðvarinnar gekk vel á árinu 2021 og var unnið að því klára ýmis smáverk tengd framkvæmdinni ásamt lærdómsferli sem fylgir því að taka slíkt mannvirki í notkun. Settur var upp sýnatökubúnaður þar sem tekið er sýni af fráveituvatninu á tveggja vikna fresti fyrir og eftir hreinsun. Á fyrsta rekstrarári stöðvarinnar voru síuð tæplega 20 tonn af rusli/óæskilegum úrgangi úr fráveituvatninu sem annars hefðu borist út í Eyjafjörðinn með tilheyrandi mengun. 

Viðhald og nýframkvæmdir

Lagning Þrýstilagnar frá Dælustöð Torfunefi að Dælustöð í Hafnastræti var framkvæmd í apríl og maí og tenging við þrýstilögn norðan við Torfunef var með í þessu verki. Tilgangur verksins var að auka afkastagetu dælustöðvar við Hafnarstræti til að minnka þann tíma sem hún er á yfirfalli. Eftir er að tengja lögnina við dælustöðina í Hafnarstræti og setja þar upp rennslismæli en farið  verður í það vorið 2022.

Í Hörgársveit var lagt í tvær götur, Víðihlíð og framhald af Reynihlíð. Tilheyrandi þessari framkvæmd, að leggja og tengja sláturhús við Lónsbakka inn á fráveitukerfið, voru í framhaldinu tekin niður óson tæki sem höfðu hreinsað fráveitu sláturhússins.

Í maí var farið í að leggja nýja regnvatnslögn í Höfðahlíð við Glerárskóla og upp í Skarðshlíð í þeim tilgangi að minnka regnvatnið í fráveitukerfinu og þannig bæta hreinsun í hreinsistöð. Verkið var tiltölulega flókið og stóðu framkvæmdir fram í nóvember. 

Í Grímsey var fleygað fyrir hreinsistöð og hreinsistöðin sett niður, steypt í kringum hana og hún tengd. Einnig var lögð ný lögn neðan við byggðakjarnann og hann tengdur við hreinsistöðina.

Ýmsu viðhaldi var sinnt eins og venja er á heimlögnum og brunnum í kerfinu og áfram var unnið að hreinsun lagnakerfis líkt og fyrri ár. Helst er um að ræða að ná sandi upp úr kerfinu því að hann getur valdið skemmdum á dælum og valdið stíflum ásamt því að minnka afkastagetu kerfisins.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

Ársskýrsla Norðurorku