Fara í efni

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt undanfarin ár. Árið 2021 var aukningin um 2,1%  sem er sambærilegt við undanfarin ár, að árinu 2020 undanskildu þar sem vöxturinn var rúmlega tvöfaldur sé horft til meðalárs. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og nágrenni en þegar horft er til aukningar í íbúafjölda virðist sem hver einstaklingur sé að nota aukið magn hitaveituvatns. Aukningin mun útheimta áframhaldandi rannsóknir til öflunar á heitu vatni sem og frekari framkvæmdir til að koma því til Akureyrar. 

Hjalteyri og tengd verkefni

Á árinu var gengið frá í kringum borholur í strandlengjunni frá Hjalteyri að Arnarnesi, en þar höfðu 7 holur verið boraðar áður en Norðurorka tók við jarðhitaleit og nýtingu. Þessar holur voru farnar að láta verulega á sjá og hætta talin á að sjór gæti gengið ofan í þær. Auk þess gátu þær verið hættulegar fyrir þá fáu vegfarendur sem gengu ströndina. Niðurstaðan var að eiga tvær af þessum holum sem mæliholur en steypa upp í hinar og loka þeim varanlega.

Vinna í kringum Hjalteyrarlögnina hélt áfram og gengið var á árinu frá yfirborði jarða eftir framkvæmdir ársins 2020 þar sem lagðir voru 8.500m af 500mm lögn frá bænum Ósi við ósa Hörgár að dælustöð Norðurorku við Skjaldarvík. Norðurorka vill eiga gott samstarf við landeigendur leggur sig því fram við að ganga vel frá.

Um mitt ár upplýsti Norðurorka um þær vísbendingar sem komið höfðu fram á undangengnum vetri að minnkað útrennsli væri við sjávarstrýturnar sem tengjast jarðhitakerfinu á Hjalteyri. Strýturnar fundust við könnun Norðurorku á jarðhitasvæðinu á sínum tíma og hefur því verið vitað frá upphafi vinnslu á svæðinu að þar sem heitt vatn getur flætt út úr strýtunum þá er einnig möguleiki á að sjór komist þar inn í jarðhitakerfið. Sjá fyrri frétt um málið hér. 

Í framhaldi af þessum vísbendingum var bygging eimskilju og dælustöðvar á Hjalteyri, sem áður hafði verið stefnt að á árinu 2022, sett í bið.  Búið var að hanna skiljuna og dælustöðina ásamt því að taka grunn fyrir bæði mannvirkin, en í ljósi fyrrgreindra frétta var ákveðið að bíða með byggingaframkvæmdir á meðan þessi óvissa um getu vinnslusvæðisins væri uppi. Í maí hafði þó fyrsta sendingin af íhlutum fyrir nýja dælustöð og skilju borist, rör sem vera áttu á milli skilju og dælustöðvar sem eru þau stærstu sem Norðurorka hefur keypt eða 700 mm að þvermáli í 900 mm plastkápu með einangrun á milli. Hvert rör er 16 m langt og vegur um 2,9 tonn. Einnig var búið að kaupa varavél fyrir dælustöðina en hún stendur nú í upphitaðri geymslu og bíður þess að dælustöðin verði byggð. Vélin mun geta þjónað öllum mannvirkjum okkar á Hjalteyri miðað við hámarksafköst, en hún er 1.200 kW. 

Ytri Vík

Á Ytri Vík rekur Norðurorka hitaveitu sem fær vatn sitt úr Holu YV-20 en hún var boruð haustið 2017. Þar var fyrir holan YV-14 sem sá hitaveitunni á staðnum fyrir vatni allt frá árinu 1998. Sú hola var orðin verulega léleg þar sem holutoppurinn var farinn að tærast og leka og ekki var talin nein örugg leið til að laga hana og því var henni lokað varanlega með steypu. Verkefnið var krefjandi þar sem tryggja þurfti að aðgerðin hefði ekki áhrif á holuna YV-20 sem er einungis í 11m fjarlægð en hún skaffar hitaveitunni vatn. Auk þess sem tryggja þurfti öryggi þeirra sem að verkinu komu í þessari flóknu aðgerð. Verkið gekk vel og í framhaldi af lokun holunnar var farið í að klára frágang á svæðinu umhverfis gömlu og nýju holuna ásamt ýmsum smáverkum til að snyrta í kringum starfssvæði hitaveitunnar sem Norðurorka rekur nú á svæðinu.  

Reykjaveita

Á árinu var byggð ný dælustöð sem er í landi Hróarsstaða. Þessi dælustöð var sett í kjölfar ítarlegrar greiningar á rennsli vatns í Reykjaveitunni og er tilgangur hennar að jafna rennslið á þessari löngu lögn, frá Reykjum í Fnjóskadal og alla leið til Grenivíkur. Dælustöðin, sem er 15 m2 var byggð innanhúss hjá byggingaverktakanum og var síðan flutt til næstu verktaka sem smíðuðu dælur og pípukerfi, loftræsingu og stýri- og rafmagnskerfið í hana, hver á sínum heimavelli. Þetta fyrirkomulag gafst mjög vel og lækkaði kostnað við bygginguna þar sem verktakar þurftu ekki að ferðast langa leið til að frá verkstað, heldur voru með stöðina hver við sína starfsstöð. Því má telja miklar líkur á því að sambærilegt fyrirkomulag verði haft á þegar byggja á hús sem hægt er að færa á milli staða á kranabíl. Dælustöðin var sett í gang í desember og hafði sannað tilgang sinn aðeins nokkrum dögum síðar þegar kom mikill frostakafli. Þá kom ávinningur nýrrar dælustöðvar vel í ljós þar sem þrýstingur á Grenivík hélst mun stöðugri en í fyrri frostaköflum.
Samhliða byggingu á dælustöðinni á Hróarstöðum voru settir upp fjórir þrýstiminnkarar á þá notendur sem staðsettir eru fyrir neðan dælustöðina til að verja þá fyrir þeim aukna þrýstingi sem dælustöðin getur skilað af sér. 

Miklar leysingar í júlí áraun á kerfi Norðurorku

Í júlí voru miklar leysingar í Fnjóská sem óx mikið og reif niður bakka sína. Vegurinn inn að Reykjum í Fnjóskadal, þar sem eitt af vinnslusvæðum Norðurorku er, fór á stórum kafla og var hann lokaður fyrir innan Illugastaði. Auk þess var um tíma óttast um brúna yfir Fnjóská hjá Illugastöðum þar sem farið var að grafa undan undirstöðum hennar. Stofnlögn Reykjarveitu, sem liggur 54 km frá Reykjum í Fnjóskadal að Grenivík, liggur um brúna og því var það mikið kappsmál að brúin myndi halda sem og að ekki myndi grafa það mikið frá undirstöðum hennar að lögnin gæti farið þar í sundur. Vegagerðin fór í varnaraðgerðir á meðan flóðinu stóð og tókst að verja brúna og veginn upp að henni og þar með stofnlögn hitaveitunnar.

Skógarböðin og framkvæmdir vegna þeirra

Unnið við Skógarböð í Vaðlaheiði. Mynd: Hjalti Steinn Gunnarsson.Eitt stærsta verkefnið á árinu var lagning á lögnum frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum. Lagnirnar liggja í göngu- og hjólastíg sem liggur eftir Vaðlareitnum en vatnsveitulögnin mun í framtíðinni liggja alla leið til Akureyrar. Fyrstu níu mánuði ársins fór mikil vinna í hönnun og samningagerð við hina ýmsu hagaðila en ljúka þurfti um 20 samningum áður en verklegar framkvæmdir gátu hafist í lok september. Á næ´stu þremur mánuðum var lokið lagningu á 2.900 m af 250 mm hitaveituröri í 355 mm kápu og 2.400 m af 355 mm vatnsveituröri og var allri lagnavinnu að mestu lokið í desemberlok. Gert hafði verið ráð fyrir að verkið myndi klárast í byrjun árs 2022 en óhætt er að segja að allir hluta verkefnisins hafi verið unnir á miklum hraða. Hér má sjá fleiri myndir frá framkvæmdum Norðurorku í tengslum við Skógarböð á árinu 2021.

Dæluupptektir hitaveitu

Skipt var um dælur í tveimur borholum á árinu. Dælan í holu BN-01 á Botni var endurnýjuð í júní, sem hluti af venjulegu viðhaldi en miðað er við að fara í dæluupptekt sem þessa á um 10 ára fresti. 
Einnig var skipt um dælu í holu ÓB-3 á Ólafsfirði. Nýja dælan sem sett var í holuna dælir meira en sú sem fyrir var, til að mæta aukinni notkun á svæðinu. Aukna notkun má m.a. rekja til þess að á árinu 2017 var hitaveita lögð að bænum Hólkoti, sk. Hólkotsveita, en þar með bættust á annan tug nýrra notenda við veituna.   Sjá frétt og myndir um borholuupptektina á Ólafsfirði hér.

Ýmislegt fleira

Samkomulag um lúkningu og uppgjör mála vegna blárra mæla var undirritað í mars eftir að sátt náðist í málinu.

Í lok janúar varð bilun á lokabúnaði við borholu hitaveitu í Hrísey sem olli því að of mikið vatn rann í gegnum skiljuna og því náði hún ekki að skilja loftið frá vatninu eins og venjulega með þeim afleiðingum að heita vatnið innihélt loft sem gat safnast saman i ofnum húsa. Íbúar Hríseyjar þurftu því að tappa lofti af ofnum húsa sinna á meðan beðið var eftir nýjum loka, en vegna Covid þá tók óvenju langan tíma.

Í febrúar var ræst ný og glæsileg dælustöð hitaveitu sem staðsett er í landi Hlíðarenda. Dælustöðin sér um að dæla vatni upp að Hálöndum, en það hverfi er alltaf að stækka. Einnig er kalt vatn fyrir nærliggjandi notendur þrýstiminnkað í dælustöðinni auk þess sem þar er dreifistöð háspennu sem styrkir rafmagnskerfið á svæðinu til muna. Því er ljóst að þessi bygging er mikil bót fyrir marga. 

Töluverð aukning hefur verið á heitavatnsnotkun í austanverðum Eyjafirði og hefur stofnlögn hitaveitunnar sem liggur þar um verið á mörkunum að ná að sinna öllum notendum á álagstímum. Til að létta á lögninni, frá Brunná og austur yfir fjörðinn,  stendur til að nýta holu SE-01 sem er staðsett fyrir ofan Svalbarðseyri en sú hola sá allri Svalbarðseyrinni fyrir vatni áður en Norðurorka tók reksturinn yfir árið 2003. Þessi framkvæmd, sem hófst árið 2021 og mun klárast á árinu 2022, mun hjálpa verulega til við að anna heitavatnsþörf í austanverðum Eyjafirði. 

Í júlí var unnið að endurnýjun á þaki heitavatnstanka við Súluveg. Gamla þakið var pappaklætt á spónaplötur og var orðið lélegt. Þakið var klætt þakkrossvið og tvö lög af pappa brædd yfir. 

Farið var í miklar framkvæmdir við Glerárskóla samhliða byggingu leikskólans þar sem hitaveitu- og vatnsveitukerfin voru endurnýjuð að skólanum. Teknir voru brunnar í götunni Höfðahlíð og verður þeirri framkvæmd haldið áfram á árinu 2022.  

Haft var samband við Norðurorku í haust vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Vegna stækkunarinnar var ljóst að ný bygging myndi lenda ofan á stofnlögnum Norðurorku á svæðinu. Fyrirvarinn var stuttur og stutt var í að jarðvegsframkvæmdir myndu hefjast á svæðinu. Því var brugðist hratt við og nýtt kerfi hannað og lagt á skömmum tíma með góðu samstarfi við Eyjafjarðarsveit og verktakana sem að verkinu komu.

Á árinu var haldið áfram með framkvæmdir í nýju hverfi í Glæsibæ ásamt því að húsin sem fyrir voru í landi Glæsibæjar voru tengd. Á Hjalteyri rétt fyrir ofan verksmiðjuna bættust 4 lóðir við sem lögð var hitaveita í. Í Bakkatröð Hrafnagili var klárað að leggja stofnlagnir þar sem uppbygging heldur áfram og sömu sögu er að segja í Kotru þar sem hverfið stækkar og húsum fjölgar. Á Svalbarðsströnd var gatan Sólheimar tengd en þar eru um 10 lóðir. Það var því í ýmis horn að líta hjá hitaveitunni á árinu fyrir utan allt venjulegt viðhald.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Ársskýrsla Norðurorku