Rannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Norðurorku en þær eru að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR. Rannsóknir byggja annars vegar á því að fylgjast vel með þeim auðlindum sem verið er að nýta hverju sinni, svokallað vinnslueftirlit, en hins vegar á að huga að mögulegum framtíðarvinnslusvæðum.
Ólafsfjörður
Að beiðni Norðurorku tóku Íslenskar orkurannsóknir saman yfirlit um jarðhitastaði í Ólafsfirði með það að markmiði að fá samantekt um stöðu rannsókna á svæðinu. Niðurstaðan var birt í skýrslu sem kom út árið 2020 þar sem fjallað var um sextán jarðhitastaði. Í framhaldi af þeirri vinnu beindist athyglin að svæði við vestanvert Ólafsfjarðarvatn sem var þá myndað með hitamyndavél úr dróna og niðurstöður bornar saman við eldri mælingar. Einnig voru endurbætt gögn sem til voru um holur sem eru við Ólafsfjarðarvatn og nágrenni þar sem þær voru hnitsettar ásamt því að mæla rennsli og hita þar sem það átti við.
Hjalteyri
Eins og áður hefur komið fram þá tókst borun holunnar HJ-21 á Hjalteyri með ágætum árið 2018 og gæti þar verið um að ræða eina vatnsgæfustu lághitaholu á landinu. Vinnsla úr henni hefur verið í gangi frá síðari hluta árs 2019. Ekki er annað að sjá en holan standi undir væntingum og verði einn af máttarstólpum vatnsvinnslu hitaveitunnar í framtíðinni. Árið 2021 var gert afkastapróf á holunni en fyrri afkastapróf höfðu misfarist. Prófið tókst með ágætum í þetta sinn og sýnir að um er að ræða mjög vel heppnaða borholu. Einnig var nokkrum gömlum rannsóknarholum í flæðarmáli lokað þar sem talið var að sjór gæti runnið ofan í jarðhitakerfið.
Svalbarðseyri
Norðurorka hefur hafið vinnu við að nýta sjálfrennsli vatns úr holu SE-01 til notkunar á Svalbarðseyri með uppblöndun við vatn sem kemur frá Laugalandi í Eyjafirði. Þess má geta að SE-01 sá hitaveitunni á Svalbarðseyri fyrir vatni áður en stofnlögnin var lögð frá Akureyri árið 2004 en hefur síðan þá eingöngu verið nýtt fyrir sveitabæinn Svalbarð síðan. Hún verður nú nýtt betur til að létta á stofnlögninni á Svalbarðsströnd. Íslenskar orkurannsóknir framkvæmdu svokallaða blandreikninga til að meta hættu á útfellingum þegar vatni úr SE-01 og vatni frá Laugalandi er blandað saman. Niðurstaða þessa er að ekki er hætta á útfellingum en full ástæða til að fylgjast með því fyrst eftir að blöndun hefst.
Ytri Vík
Rannsóknum á jarðhitasvæðinu að Ytri-Vík var haldið áfram í því formi að safna gögnum um jarðskjálfta á svæðinu. Áður hafði verið sett upp net jarðskjálftamæla í samvinnu við ÍSOR til að fá betri mynd af legu og stefnu sprungna í Eyjafirði. Unnið var að úrvinnslu gagna úr holunni YV-20 sem boruð var árið 2017 og skýrsla um borun gefin út. Auk þess voru gerðar svokallaðar strúktur jarðfræðigreiningar og þær tengdar við jarðeðlisfræðileg gögn í þeim tilgangi að varpa ljósi á samhengi bergganga á svæðinu við jarðhitakerfið. Eldri holu á svæðinu var einnig lokað með steypu þar sem holutoppur var ónýtur og skapaði hættu.
Almennt
Hafinn var undirbúningur að borun hitastigulsholna víða um Eyjafjörð og er tilgangurinn sá að loka eyðum sem hafa verið í þekkingu á hitastigli á starfsvæði Norðurorku. Einnig voru tekin sýni til efnagreiningar úr jarðhitasvæði við Draflastaði í Fnjóskadal í sama tilgangi en það hefur ekki verið gert áður á vegum Norðurorku.
Vaðlaheiði
Rannsóknir jarðhitans í Vaðlaheiðinni hafa verið færðar aftar í forgangsröðina. Byggir það m.a. á því að erfitt og dýrt er að koma við rannsóknum á heiðinni. Fylgst er með efnasamsetningu heita vatnsins sem hluta af vinnslueftirliti Norðurorku. Norðurorka tók þátt í rannsóknaverkefni InSAR um landhæðarbreytingar í Vaðlaheiði ásamt Vaðlaheiðargöngum og Vegagerðinni.
Afmörkun vatnsverndarsvæðis í Vaðlaheiði, vegna vatnsbólsins í göngunum, hófst 2018 og felst sú vinna bæði í mælingum og gerð reiknilíkans til að meta áhrifasvæði vatnsbólsins í heiðinni. Verkfræðistofan Vatnaskil sér um líkangerð en verkfræðistofan Mannvit annast mælingar. Gert er ráð fyrir lokaskilum á skýrslu um vatnsverndarsvæðið í byrjun árs 2022.