Fara í efni

Helstu framkvæmdir vatnsveitunnar á árinu 2021 voru lagfæringar á Kaupvangsveitu og á vatnsveitu Grímseyjar ásamt tengdum verkefnum.

Kaupvangsveita

Á árinu var farið í framkvæmdir til að bæta afhendingaröryggi og tryggja gæði vatnsins í Kaupvangsveitu í Eyjafjarðarsveit en Norðurorka keypti veituna árið 2020. Ljóst var við kaupin að fara þyrfti í framkvæmdir til að veitan myndi uppfylla kröfur Norðurorku um vatnsveitur. Í þurrkatíð, líkt og var sumarið 2021, gefa vatnbólin varla nægt vatn og því er tenging til staðar frá vatnsveitunni í Vaðlabyggð. Á henni voru handvirkir lokar sem erfitt gat verið að stjórna í rekstri með tilheyrandi hættu á sóun eða vatnskorti. Því var farið í endurbætur sem m.a. auka sjálfvirkni í stýringu auk þess sem sett var niður lítið hús rétt fyrir neðan brunnsvæðin þar sem lýsingartæki var tengt inn á veituna í þeim tilgangi að tryggja hreinleika vatnsins.

Grímsey

Á árinu var farið í ýmsar endurbætur á vatnsveitunni í Grímsey. Lagðar voru lagnir og strengir til að hægt væri að tengja veituna við stjórnkerfi Norðurorku, þannig að hægt væri að vakta og stýra veitunni frá landi. Eins og með margt annað þá hafði Covid áhrif á hraða þessarar framkvæmdar en þetta verkefni var í gangi allt árið. Í desember var sett upp lýsingartæki eftir að mengun hafði mælst í veitunni. Á árinu 2022 verður litlu húsi komið fyrir yfir holu GR-11 þar sem lýsingartækið verður staðsett ásamt rafmagnsbúnaði fyrir þá holu. Einnig verður klárað að tengja kerfið við fjarvöktunarbúnað.

Ýmsar framkvæmdir á árinu

Á árinu var haldið áfram með framkvæmdir í nýju hverfi í Glæsibæ ásamt því að húsin sem fyrir voru í landi Glæsibæjar voru tengd. Í Bakkatröð Hrafnagili var klárað að leggja stofnlagnir þar sem uppbygging hélt áfram og sömu sögu er að segja um Kotru, sem er hverfi á austurbakka Eyjafjarðarsveitar, þar sem hverfið stækkar og húsum fjölgar. Á Svalbarðsströnd var gatan Sólheimar tengd en þar eru 10 lóðir. Vatnstankar voru þrifnir á árinu, skv. áætlun, en sjá má myndir af því hér. Það var því í ýmis horn að líta hjá vatnsveitunni á árinu fyrir utan allt venjulegt viðhald.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

Ársskýrsla Norðurorku