Rekstrarreikningur
Rekstur samstæðunnar gekk vel á árinu 2021 fyrir samstæðuna í heild. Tekjur urðu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir í hitaveitu þrátt fyrir sérlega gott árferði veðurfarslega. Tekjur rafveitu voru hins vegar undir væntingum og einnig var rekstrarkostnaður rafveitunnar meiri en gert var ráð fyrir. Áhrif Covid hafa verið minniháttar á tekjur samstæðunnar og þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið hefur verið til hafa ekki valdið verulegum kostnaðarauka.
Verulegur umsnúningur er á fjármagnsliðum til hins betra en þar munar mestu um gengishagnað upp á 82,8 milljónir króna á móti 194,2 milljóna króna gjaldfærslu vegna gengismunar árið áður. Því má segja að rétt tæplega helmingur þess gengismunar sé kominn til baka.
Hagnaður samstæðunnar Norðurorku hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 546,1 milljónum króna á árinu 2021 samanborið við 206,6 milljónir króna árið á undan.
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 4.319 milljónum króna og hækkuðu um 6,8% milli ára.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.791 milljón króna eða 41,5% af veltu samanborið við 1.564 milljónir króna árið áður.
EBITDA stendur fyrir framlegð reksturs án fjármagnsliða, afskrifta og skatta.
EBITDA framlegð er hlutdeild EBITDA af heildartekjum.
Ársreikningur samstæðu Norðurorku 2021
Efnahagur
Heildareignir Norðurorku námu 21.151 milljón króna í árslok 2021 og heildarskuldir 8.342 milljónum króna. Í lok árs nam handbært fé 534 milljónum króna en handbært fé frá rekstri nam 1.677 milljónum króna. Eigið fé var 12.810 milljónir króna og eiginfjárhlutfall í árslok 60,6%.
Fjárfesting samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum á árinu 2021 nam 1.141 milljón króna en verulegar fjárfestingar hafa verið á undanförnum árum í hitaveitu og fráveitu.
Tekið var nýtt lán á árinu hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 600 milljónir króna en um er að ræða svokallaða græna fjármögnun. Skuldsetning samstæðunnar heldur því áfram að aukast milli ára en vaxtaberandi skuldir hækkuðu um 445 milljónir króna milli ára.
Arðsemi eigin fjár fyrir árið er 4,33% samanborið við 1,67% árið 2020.
Greiddur arður á árinu 2021 vegna afkomu ársins 2020 var 127 milljónir króna.
Ársreikningur samstæðu Norðurorku 2021
Sjóðstreymi
Sjóðstreymisyfirlit gefur glögga mynd af raunverulegu peningastreymi til og frá rekstrinum.
Veltufé frá rekstri jókst um 229 milljónir króna milli ára. Handbært fé í upphafi árs 2021 var 29,9 milljónir króna en endar í 533,9 milljónum króna í lok árs.
Miklar fjárfestingar hafa verið undanfarin ár og ánægjulegt hversu vel hefur tekist til þrátt fyrir heimsfaraldur.
Dökkbláu liðirnir sýna innstreymi fjármagns og ljósbláu liðirnir útstreymi fjármagns.
Lykiltölur
Lykiltölur (fjárhæðir í þúsundum króna)
2017 | 2018 | 2019 | 2020 | 2021 | |
Rekstrartekjur | 3.529.638 | 3.817.436 | 4.032.278 | 4.045.931 | 4.319.032 |
Orkukaup | 818.984 | 808.564 | 775.801 | 659.798 | 690.589 |
Almennur rekstrarkostnaður * | 1.457.792 | 1.521.326 | 1.828.816 | 1.822.584 | 1.837.429 |
Almennur rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum | 41,3% | 39,9% | 45,4% | 45,0% | 42,5% |
Rekstrarhagnaður (EBIT) | 782.661 | 971.802 | 672.676 | 732.671 | 923.938 |
EBITDA | 1.252.863 | 1.487.545 | 1.427.661 | 1.563.549 | 1.791.014 |
EBITDA framlegð | 35,5% | 39,0% | 35,4% | 38,6% | 41,5% |
Fjárfestingahreyfingar | 1.494.329 | 2.170.378 | 2.066.521 | 1.589.630 | 1.319.806 |
Fjárfestingahreyfingar í hlufalli við tekjur | 42,3% | 56,9% | 51,2% | 39,3% | 30,6% |
Hagnaður | 497.653 | 559.136 | 347.548 | 206.602 | 546.056 |
Hagnaður sem hlutfall af rekstrartekjum | 14,1% | 14,6% | 8,6% | 5,1% | 12,6% |
Eignir | 14.054.830 | 18.698.976 | 19.796.506 | 20.199.761 | 21.151.363 |
Eigið fé | 8.567.234 | 12.084.458 | 12.306.138 | 12.394.375 | 12.809.529 |
Skuldir | 5.487.596 | 6.614.519 | 7.490.367 | 7.805.386 | 8.341.833 |
Arðsemi eigin fjár | 5,9% | 5,4% | 2,9% | 1,7% | 4,3% |
Eiginfjárhlutfall | 61,0% | 64,6% | 62,2% | 61,4% | 60,6% |
Veltufjárhlutfall | 0,74 | 2,10 | 1,25 | 0,79 | 1,35 |
Innra virði | 9,68 | 14,27 | 14,53 | 14,64 | 15,13 |
* Rekstrargjöld án afskrifta og orkukaupa |
Horfur í rekstri
Áætlanir samstæðunnar fyrir árið 2022 gera ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 383,3 milljónir króna hjá móðurfélaginu og 33,9 milljónir króna hjá dótturfélaginu fyrir tekjuskatt. Í tekjuáætlun er byggt á væntum magnbreytingum miðað við reynslu síðustu ára.
Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem besta vitneskja er um svo sem verðbólguþróun og vaxtastig. Í rafveitu er byggt á raunkostnaði og að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér.
Áætlanir samstæðunnar um framkvæmdir á árinu 2022 hljóða upp á rétt tæplega 1.000 milljónir króna en þar eru stærstu tölur tengdar Hjalteyrarverkefninu. Áfram er gert ráð fyrir miklum fjárfestingum til að auka orkumátt hitaveitunnar og ljóst að leggjast þarf í rannsóknarvinnu vegna hennar. Einnig er gert ráð fyrir töluverðum framkvæmdum við spennubreytingar í dreifikerfi rafmagns ásamt því sem unnið er að endurnýjun á húsnæði Norðurorku að Rangárvöllum svo helstu framkvæmdir séu nefndar. Töluverðar framkvæmdir eru einnig fyrirhugaðar í gatnagerð þá bæði tengt nýframkvæmdum og endurgerð.
Ársreikningur samstæðu Norðurorku 2021 - PDF
Ársreikningur móðurfélags Norðurorku 2021 - PDF