Samorka
Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samtökin eru málsvari orku- og veitufyrirtækja og beita sér fyrir farsælli þróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi. Á meðal meginverkefna Samorku eru einnig innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna en í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk aðildarfyrirtækjanna.
Fallorka ehf.
Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þ.e. tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2021 varð orkuframleiðslan 42 GWst.
Fallorka setti upp á árinu fjórar hleðslustöðvar fyrir rafbíla á Akureyri og fleiri eru á teikniborðinu. Félagið vinnur að uppsetningu á litlum vindmyllum og sólarsellum í Grímsey til að framleiða umhverfisvæna orku sem mun draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í eynni.
Fallorka hefur formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun vegna mögulegrar þriðju virkjunar í Djúpadalsá og á árinu var haldið áfram rannsóknum á jarðfræði við fyrirhugað stíflustæði og á vatnsrennsli í ánni. Félagið er einnig með rannsóknarleyfi vegna Núpár í Sölvadal við Eyjafjörð og eru rannsóknir hafnar.
Undirbúningur vegna mögulegrar nýtingar á vindorku í Hörgárdal er í biðstöðu þar sem sveitarfélagið er ekki tilbúið að taka vindorkugarð inn á skipulag.
Hagnaður af rekstri Fallorku var rúmar 82 milljónir eftir skatta og veltufé frá rekstri tæpar 139 milljónir króna.
Vistorka ehf.
Í byrjun árs var nýju starfi bætt við hjá Vistorku, verkefnastjóra fræðslumála. Viðbótin hefur skilað því að heimasíða Vistorku er í dag full af fróðleik um umhverfis- og loftslagsmál. Á vefsíðunni er að finna fréttir og greinaskrif sem tengjast verkefnum og áherslum Vistorku. Þar má einnig finna skólaverkefni sem skólar geta nýtt sér auk vara sem Vistorka hefur komið að og þróað á undanförnum árum.
Leifur Arnar, CO2 áskorunin, samgönguáskorunin og Strætóskólinn eru dæmi um verkefni sem hafa verið kynnt á síðustu mánuðum. Samgönguáskorunin er þegar aðgengileg á vefsíðunni og CO2 áskorunin er til sýnis í anddyri Orkugarðs. Verkefnið matargjafir á Akureyri var sett af stað á árinu, með því eru veitinga- og matsölustaðir á Akureyri hvattir til að gefa til eldhúss Hjálpræðishersins þann mat sem ekki hefur verið nýttur. Þar er honum pakkað inn í umhverfisvænar umbúðir af sjálfboðaliðum og komið til þeirra sem á þurfa að halda. Norðurorka styrkti verkefnið með þátttöku í kaupum á umhverfisvænum matarbökkum.
Vegna samkomutakmarkana voru flest fræðsluerindi á netinu þetta árið en lögð var áhersla á að reyna að hitta þá hópa sem vildu, svo sem heimsóknir frá skólum, fræðsluerindi fyrir unglinga í sumarvinnu hjá Akureyrarbæ, Vísindaskóla Unga fólksins, kennslu í Símey, erindi og vettvangsferðir fyrir erlenda nemendahópar (SIT), fræðsluerindi fyrir erlenda ferðamannahópa (OAT) auk ýmissa annarra verkefna.
Vistorka tók þátt í átaki á samfélagsmiðlum með Akureyrarbæ, bæði í Samgönguvikunni og Nýtnivikunni en samkomutakmarkanir leyfðu ekki annað en kynningar á netinu þetta árið. Á árinu var nokkuð um viðtöl við starfsfólk Vistorku í fjölmiðlum bæði í útvarpi og sjónvarpi hjá erlendum og innlendum fjölmiðlum, flest þeirra má finna á vefsíðu eða Facebooksíðu Vistorku.
Tengir hf.
Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi. Starfsemi Tengis hefur vaxið mikið undanfarin ár og er tekjugrunnur félagsins sterkur. Á árinu 2022 er áætlað að þéttbýlið á Akureyri verði að fullu ljósleiðaravætt. Þá mun einnig á árinu verða unnið í tengingum á Siglufirði og Vopnafirði. Fjárfestingar Tengis munu á næstu árum að miklu leyti snúast um tengingar í nýjar fasteignir. Velta félagsins var 576 milljónir króna og hagnaður eftir skatta 86 milljónir króna. Rekstrarniðurstaðan er mjög ásættanleg í ljósi mikilla fjárfestinga í uppbyggingu á ljósleiðaraneti og búnaði liðin ár. Í árslok 2021 höfðu um 13 þúsund fasteignir möguleika á nýtingu ljósleiðarakerfis Tengis
NORAK ehf.
NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli. Reksturinn sem er fjárhagslega stilltur af miðað við samningstíma verksmiðjunnar til ársins 2027 gekk vel á árinu 2021.
Hrafnabjargavirkjun ehf.
Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðardals.
Í tillögu verkefnastjórnar Rammaáætlunar III til umhverfisráðherra eru allir fjórir nýtingakostir félagsins settir í verndarflokk. Rammaáætlun III hefur ekki farið fyrir Alþingi og ekki ljóst hver framvindan verður.
Íslensk orka ehf.
Norðurorka er hluthafi í félaginu Íslensk orka ehf. en félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði, verkefni sem enn er í biðstöðu. Fram hafa komið áhugsamir aðilar um nýtingu á heita vatninu til raforkuframleiðslu en það er mat stjórnar Íslenskrar orku að hagkvæmara sé fyrir félagið og heimafólk að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til einhvers konar iðnaðarframleiðslu. Það virðast þó vera að opnast fleiri tækifæri í landeldi sem nýtt geta jarðhitann.
Netorka hf.
Norðurorka á 7,7% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. Hlutverk Netorku hefur vaxið í ljósi aukinnar samkeppni á raforkumarkaði og þar af leiðandi fleiri aðilaskiptum.
Orkey ehf.
Norðurorka hefur átt Orkey ehf. að fullu frá árinu 2019 en Orkey rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarolíu frá veitingahúsum og ýmsum öðrum fitu- og olíuríkum úrgangi. Vinnsla félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfum bæjarins eða í urðun. Reksturinn er erfiður og margar áskoranir sem þarf að yfirstíga. Það má segja að tvö sjónarmið séu uppi varðandi reksturinn, annarsvegar að framleiða vöru sem markaðurinn þarfnast eða að horfa eingöngu til þess að safna olíu til að verja lífríkið. Markaðurinn hefur ekki kallað eftir vörunni og sala því gjarnan verið á samfélagslegum nótum.
Framtíðarsýn Norðurorku er enn að samþætta rekstur Orkeyjar öðrum fyrirtækjum sem taka á móti úrgangi og vinna úr honum verðmæti, verði ofan á að framleiða vöru vegna þarfa kaupenda. Helstu kaupendur Lífdísils er Malbikunarstöð Akureyrarbæjar og sem fyrr Samherji.
EIMUR
EIMUR er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf EIMS er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.
Vaðlaböð ehf.
Vaðlaböð ehf. var verkefni um náttúruböð sem kom út úr hugmyndasamkeppni EIMS á nýtingu heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum. Norðurorka er með 30% eignarhlut á móti Tækifæri hf. og Stefáni Tryggvasyni hugmyndasmið. Verkefnið var að kanna möguleika þess að koma upp náttúruböðum og nýta heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum. Nú þegar hugmyndin hefur verið framkvæmd af Skógarböðum er hlutverki félagsins lokið og félagið því í dvala.