Norðurorka sér um dreifingu rafmagns innan Akureyrar. Einnig þjónar rafmagnsþjónusta fyrirtækisins öðrum veitum félagsins sem starfa í alls 8 sveitarfélögum. Verkefni rafvirkja Norðurorku eru því fjölbreytt og snúa jöfnum höndum að háspennu og lágspennu sem og að stjórnkerfum veitna.
Nýframkvæmdir og viðhald
Aðveitustöðvar Norðurorku eru tvær og tveir aflspennar á hvorum stað til að tryggja afhendingaröryggi. Á vordögum var skipt um 66kV háspennurofa fyrir rofareit í Þingvallastræti frá Rangárvöllum. Haustið var svo m.a. notað í að skipta um 66kV háspennurofa í Kollugerði fyrir rofareit frá Þingvallastræti. Framkvæmdir sem þessar er kostnaðarsamar og krefjast góðs undirbúnings. Fjöldi fólks kom að verkunum sem bæði tókust afar vel, samstillt og lausnarmiðuð hugsun.
Auk þessa var kominn tími á viðhald eftir að mælingar á sex Calor Emag aflrofum í KOG (´78) gáfu til kynna að líftíma gömlu aflrofanna væri við það að ljúka enda þeir orðnir u.þ.b. 43 ára gamlir. ABB bauð upp á retrofit-kit þannig að lausnin var til staðar og búið að útfæra víða um heim. Ákveðið var að endurnýja aflrofana sjálfa, s.s. ekki þörf á að endurnýja skápana sem og skinnukerfið. Vegna heimsfaraldursins tafðist afhending á nýju aflrofunum en fyrstu tveir aflrofanir voru tengdir og prófaðir í janúar og síðustu fjórir komu um miðjan febrúar. Síðasti aflrofinn var svo prófaður og settur í rekstur í mars. Margir koma að verkefnum sem þessum og gekk samstarf Norðurorku, Landsnets og verktaka á svæðinu vel. Í ofangreindum verkefnum er sérstaklega mikilvægt að verkið sé vel undirbúið og skipulagt og þá ekki síst með tilliti til öryggismála. Sjá má fleiri myndir frá framkvæmdunum hér.
Á árinu voru þrjár nýjar dreifistöðvar teknar í notkun. Tvær þeirra tengjast orkuskiptum í samgöngum því að annarsvegar var um að ræða dreifistöð sem staðsett er við Austursíðu 2 fyrir hraðhleðslu rafbíla og hinsvegar við Tangabryggju þar sem Hafnasamlag Norðurlands kemur til með að landtengja skip. Háspennustrengir voru lagðir samhliða aðgerðum á svæðinu við Tangabryggju. Orkuskipti í samgöngum eru hluti af okkar verkefnum og ljóst að hleðsla rafbíla mun færa okkur áhugaverð en jafnframt krefjandi verkefni næstu árin. Auk þessa var lagður nýr háspennustrengur í Kaupfélagsgilinu frá Smiðjunni og upp að Kaupvangsstræti 14 og þar með fækkaði olíustrengjum um einn. Ný dreifistöð var reist og spennusett við Jaðarsvöll og þar með var síðasti loftlínuspennirinn tekinn úr rekstri.
Á árinu var unnið við spennubreytingu úr 3x230V kerfi í 3N400/230V hjá viðskiptavinum og var 103 veitum breytt, samhliða ýmsum framkvæmdum eða skoðunum og framkvæmdum við dreifistöðvar. Spennubreytingum verður haldið áfram á næstu árum og þau tækifæri nýtt sem gefast þegar skipta þarf um lagnir.
Á fyrstu dögum ársins var farið í að endurnýja hluta af rafbúnaði í Drst 039 (Glerárskóli) í kjölfar íkveikju við skólann. Reykagnir mettuðu þá lofteinangrara í háspennurofum í dreifistöðinni sem orsakaði skammhlaup og rofar í aðveitustöð Kollugerði (KOG) fóru út rétt fyrir miðnætti. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki og rafmagnið var komið aftur á stærstan hluta Glerárhverfis um hálftíma síðar og á dreifistöðina í Glerárskóla kl. 06.10 næsta morgun. Verkefnið var tekið á liðsheildinni og algjörlega til fyrirmyndar hversu vel tókst að leysa það.
Öryggismál og öryggisstjórnunarkerfið
Á árinu var áfram unnið að því að leggja mat á ljósbogahættu en hún er ein af hættunum sem leynast í raforkukerfinu. Verkefnið snýst um að bæta bæði rekstraröryggi og alls ekki síður öryggi starfsfólks í vinnu við dreifikerfið. Á þeim stöðum sem búið er að reikna ljósbogaaflið eru komnar viðeigandi varúðarmerkingar og leiðbeiningar um þann hlífðarbúnað sem krafist er á hverjum stað. Þannig er reynt að draga úr hættunni á slysum vegna ljósboga.
Strangar reglur gilda um rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi rafveitu sem m.a. fela í sér að hverja dreifistöð á að skoða á 10 ára fresti. Á árinu 2021 voru sextán raforkuvirki skoðuð skv. rafmagnsöryggisstjórnunarkerfinu. Dreifikerfi út frá viðkomandi raforkuvirki er einnig skoðað og lagfært eins og þörf er á. Skipt er um þann búnað sem kominn er á aldur og/eða uppfyllir ekki lengur þær öryggiskröfur sem gerðar eru. Til að sannreyna að innri skoðanir Norðurorku séu samkvæmt reglugerðum er hluti þeirra endurskoðaður sem ytri skoðun af Rafskoðun ehf. sem er faggild skoðunarstofa.
Til að auka enn frekar rekstrar- og persónuöryggi er unnið að nýjum stjórnvaka, WinCC, sem gerir starfsfólki kleift að fylgjast betur með álagi, stöðu og viðvörunum í dreifikerfinu. Unnið hefur verið að endurnýjun 11kV rofabúnaðar og tengingum dreifistöðva við stjórnvaka. Rafveitan er komin vel af stað í þá vegferð að endurnýja liðaverndarbúnað í TIN en verkefnið hefur tafist vegna Covid og vöruskorts. All flestir götuskápar Norðurorku eru í dag komnir með tvöfalda einangrun skv. skráningu sem þýðir að markmiðum okkar um að bæta persónu- og rekstraröryggi er náð hvað þann hluta varðar.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina