Á starfsárinu 2021 voru haldnir 11 stjórnarfundir, auk eigendafundar. Á aðalfundi 2021 var stjórn kosin óbreytt en stjórn félagsins á starfsárinu skipuðu auk mín, Ingibörg Isaksen formaður, Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður, Eva Hrund Einarsdóttir ritari og Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir. Varamenn voru, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson. Áheyrnafulltrúi minni hluthafa var Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit en á árinu tók Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðstrandarhrepps við því hlutverki. Á starfsárinum var Ingibjörg Isaksen kosin til Alþingis og tók varamaður hennar, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir við sem aðalmaður í stjórn auk þess að undirritaður tók við sem stjórnarformaður.
Rekstur Norðurorku hefur gengið vel undanfarin ár og árið 2021 var í engu frábrugðið. Hagnaður varð af rekstri samstæðunnar á árinu 2021 upp á 546 milljónir króna og bókfært eigið fé í árslok nam 12,8 milljörðum króna. Þá jókst veltufé frá rekstri um 229 milljónir króna milli ára. Ánægjulegt er að rekstrarkostnaður móðurfélagsins fyrir afskriftir var nokkurn vegin sá sami þriðja árið í röð. Staða félagsins er sterk og verkefnin stór og margþætt. Félagið hefur á undanförnum árum stækkað mikið og er vel í stakk búið til að fjármagna almennan rekstur og almenn framkvæmdaverkefni. Fjárfestingaráætlun áranna 2022-2025 gerir ráð fyrir framkvæmdakostnaði upp á tæpa fjóra milljarða króna og áður töldum við að toppnum væri náð í fjárfestingum. Nú blasa við ný og stór verkefni framundan í rannsóknum, leit og framkvæmdum til að auka orkumátt hitaveitunnar í ljósi þess að jarðhitakerfið við Hjalteyri er að líkindum fullnýtt. Eðlilega þarf því áfram nokkurt lánsfé til átaksverkefna í hitaveitunni.
Mikilvægt er að framtíðarsýn og fjárfestingaráætlanir félagsins taki áfram mið af rekstraröryggi veitukerfanna sem sífellt verða eldri og kalla á aukið viðhald. Í því sambandi má geta þess stóra verkefnis að byggja upp tvöfalt fráveitukerfi í eldri bæjarhlutum þannig að regn- og ofanvatn fari ekki gegnum hreinsistöðina heldur renni aðra leið til sjávar. Verkefnið kallast stundum hundrað ára verkefnið en nýta þarf öll tækifæri sem myndast til að vinna að því marki.
Árangur dótturfélags Norðurorku, Fallorku, var góður á síðasta ári og var hagnaður af rekstri félagsins rúmar 82 milljónir króna eftir skatta. Það má segja að á árinu hafi gengi krónunnar verið félaginu hagfellt. Veltufé frá rekstri var með besta móti eða tæpar 139 milljónir króna. Fallorka er áfram að vinna að verkefnum til að auka framleiðslu á grænni orku, bæði hvað varðar vatns- og vindafl. Norðurorka, eigandi Fallorku hefur útbúið Fallorku eigendastefnu sem var lögð fyrir aðalfund félagsins 2022.
Ný hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót var gangsett á síðari hluta ársins 2020 og hefur rekstur hennar gengið vel. Þrátt fyrir þennan stóra áfanga í hreinsun bendir margt til að frekari hreinsunar verði krafist innan fárra ára. Í því samhengi þarf að meta hvort fjármagni til aukinnar hreinsunar er skynsamlega varið með tilliti til árangurs og bóta fyrir lífríkið. Það fé yrði ekki sótt til annarra en íbúa og því verða að vera sterk og haldbær rök fyrir slíkum álögum.
Á starfsárinu tók Norðurorka þátt í stóru samstarfsverkefni varðandi gerð hjóla- og göngustígar frá Vaðlaheiðargöngum að Skógarböðum. Í stíginn voru lagðar aðveitulagnir að Skógarböðum sem og neysluvatnslögn úr vatnsbóli ganganna að Akureyri. Verkefnið var unnið á mjög skömmum tíma yfir harðasta veturinn og var vatni hleypt á Skógarböð í febrúar sl. Verkefnið er að okkar mati mikilvægt fyrir samfélagið við Eyjafjörð til að auka aðdráttarafl svæðisins m.a. með tilliti til ferðmensku.
Frá Norðurorku séð þykir eðlilegt að geta þess að nú á árinu 2022 eigum við von á að ný og sterkari tenging við flutningskerfi rafmagns verði að veruleika þegar ný háspennulína austur á Hólasand verður spennusett. Það eru góð tíðindi fyrir samfélagið við Eyjafjörð enda höfum við átt við vandkvæði að etja liðin ár með að skaffa raforku til atvinnulífs. Nú sjáum við fram á betri tíma hvað rafmagn og orkuöryggi varðar. Þegar minnst er á flutningkerfi raforku, er ekki úr vegi að minna á að Norðurorka á tæp 40% í ljósleiðarfyrirtækinu Tengir hf., sem nú er að ljúka þeim stóra áfanga að allflestar húseignir á starfssvæðinu eiga þess kost að tengjast ljósleiðara.
Á starfsárinu náði Norðurorka þeim stóra áfanga að hljóta jafnlaunavottun. Það var í því sambandi ánægjulegt að fyrirtækið fór athugasemdalaust í gegnum vottunarúttekt, sem leiddi í ljós að ekki þyrfti að gera breytingar á launasetningu starfsfólks. Kynbundinn launamunur á föstum launum mældist 0,8% konum í vil en Norðurorka hafði sett sér markmið um að launamunur væri innan við 2,5%.
Norðurorka er sterkt félag og býr yfir miklum möguleikum til þess að styðja við og fjölga tækifærum í samfélagi okkar með ýmsum hætti og það höfum við vissulega gert í gegnum tíðina með góðum árangri. Við megum hins vegar ekki fjarlægjast kjarnarekstur Norðurorku, sem er veitustarfsemi og mikilvægt að muna að þar liggur okkar megin ábyrgð. Veitustarfsemin kallar á fulla athygli stjórnar og stjórnenda ekki síst nú þegar áfram eru „skaflar“ framundan.
Ég vil að lokum þakka forstjóra, starfsfólki Norðurorku ásamt félögum mínum í stjórninni fyrir gott og farsælt samstarf á árinu. Þá vil ég einnig færa hluthöfum bestu þakkir fyrir ánægjulega samvinnu á árinu.
Hlynur Jóhannsson
Stjórnarformaður