Áhöld og tæki
Á árinu 2021 fjárfesti Norðurorka fyrir tæpar ellefu miljónir í tækjum og ýmsum stærri verkfærum. Meðal tækja sem keypt voru eru tvær vatnsdælur, Haelok stálpressa til að setja saman stállagnir að 50mm og tvær rafstöðvar, önnur 5.5kW en hin 80kW og á kerru. Sú síðarnefnda (80 kW) er m.a. hugsuð sem varavél fyrir kerfisdælur í dreifikerfi hita- og vatnsveitu ef um langvarandi rafmagnsleysi er að ræða.
Tvær minni jarðvegsþjöppur bættust í flotann á haustmánuðum í þeim tilgangi að auka sveigjanleika og geta þá valið þyngd þjöppunar eftir aðstæðum á hverjum stað.
Í desember var ákveðið að fjárfesta í notuðum krókheysisvagni með skúffu til að nota við vinnu í görðum og á gangstéttum og einnig sem flutningsvagn á nýrri minigröfu (2,9 tonn). Grafan átti upphaflega að koma í byrjun desember en vegna tafa er áætlað að hún verði komin í febrúar 2022. Reynist kaup á þessum vagni hagstæð fyrir okkur hvað varðar vinnutilhögun og verkskipulagningu, sem við vonumst svo sannarlega til, verður eldri kerruvagninn seldur á árinu 2022.
Bílafloti Norðurorku
Endurnýjun á bílum Norðurorku fer eftir aldri bílaflotans og þörf á ári hverju og því misjafnt milli ára hversu margir bílar eru endurnýjaðir. Til stóð að kaupa einn nýjan Ford pallbíl á árinu 2021 og ljúka þar með endurnýjun bílaflota Kerfisstjórnar en ekki hefur verið mögulegt að fá nýjan metan/bensín breyttan bíl afhentan frá framleiðanda vegna ástandsins í heiminum. Leit verður þó haldið áfram að bíl sem hentar okkar þörfum.
Í dag eru eldri bílar notaðir í ákveðin sérverkefni og verða þeir endurnýjaðir að þeim loknum. Varðandi framtíðar endurnýjun bílaflotans þá verður leitast við að endurnýja í vistvæna bíla eins og mögulegt er þjóni það hagsmunum Norðurorku.
Bifreiðum Norðurorku var ekið alls 263.751 km á árinu 2021 en þar af var akstur vistvænna bíla 119.027 km eða 45,1 %. Það er um 7% aukning frá árinu á undan.