Rekstur samstæðunnar gekk vel á árinu 2024. Rekstrarhagnaður samstæðunnar var 782 milljónir króna eftir skatta. Fjárfestingar voru 2.141 milljón króna og jukust um 38 milljónir frá fyrra ári. Líkt og fyrri ár var nokkuð um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við. Veltufé frá rekstri er góður mælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var 1.853 milljónir króna á árinu 2024 og lækkaði um níu milljónir frá fyrra ári. Miðað við fjárfestingar upp á ríflega 2,1 milljarð þá vantar 288 milljónir til þess að veltufé frá rekstri standi undir fjárfestingum. Það bil, og meira til, þarf að brúa með lánsfé.
Á árinu 2024 var, líkt og síðustu ár þar á undan, mikið lagt í jarðhitaleit og rannsóknir með það að markmiði að mæta aukinni og hratt vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Á undanförnum árum hefur Norðurorka aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og er ekki vanþörf á. Rannsóknarholur voru boraðar á Ytri Haga á árinu og lokið við að staðsetja vinnsluholu. Boranir munu hefjast þar sumarið 2025 og stefnt að því að ný hola verði tekin í notkun 2026.
Auk veitnanna á Akureyri og nágrenni á Norðurorka og rekur hitaveitu í Ólafsfirði og Reykjaveitu í Fnjóskadal. Þær veitur þarfnast athygli enda er hlutfallsleg aukning í heitavatnsnotkun ekki minni þar en á Akureyri. Afkastageta Reykjaveitu hefur verið aukin með því að setja dælu á lögnina við Hróarsstaði og nýrri dælu bætt við á Reykjum. Sú dæla afkastar meira en þær tvær sem fyrir voru til samans. Væntingar eru til þess að aðgerðirnar í Reykjaveitu muni anna aukningu í eftirspurn á því svæði í áratug eða svo. Í Ólafsfirði hefur Norðurorka staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum undanfarin ár til að staðsetja nýja vinnsluholu og er rannsóknum nú lokið. Undirbúningi fyrir borun og virkjun varma er lokið og munu boranir vinnsluholu hefjast í apríl 2025.
Í júlí var skrifað undir samning á milli Norðurorku hf. og aflþynnuverksmiðju TDK við Krossanes um nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni. Samningurinn byggir á viljayfirlýsingu sem sömu aðilar gerðu sín á milli í mars 2023. Sá stóri áfangi náðist 13. desember að glatvarmi nýttist í fyrsta sinn inn á kerfi Norðurorku. Hitaveita Norðurorku er um 100 MW að stærð, en um það bil 10-12MW bætast við með glatvarma frá TDK sem jafngildir 60 til 100 sekúndulítrum af heitu bakrásarvatni. Samstarfið við TDK er því mikilvægur þáttur í öflun á heitu vatni og er um að ræða mikla lyftistöng í rekstri hitaveitunnar.
Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að spennubreytingum í dreifikerfi rafmagns í þeim tilgangi að styrkja dreifikerfið enn frekar til að mæta áformum stjórnvalda um orkuskipti og til að taka við aukinni notkun, meðal annars hleðslu rafbíla. Fjárhagslegar áskoranir fylgja viðhaldi og endurnýjun í rafveitu og öðrum veitum vegna þess að slík verkefni skapa ekki auknar tekjur á móti fjárfestingum. Af þeim sökum þarf að sækja tekjur í gegnum verðskrá veitnanna til að mæta kostnaði við viðhald og endurnýjun.
Orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir hratt vaxandi áskorunum sem snúa að net- og upplýsingaöryggi. Grunninnviðir eru eftirsóknarverð skotmörk tölvu- og netárása og fyrirtæki í þessum geira verða að byggja upp og þróa öflugar varnir á því sviði. Einnig setur breytt heimsmynd og stríðsástand í Evrópu og víðar áherslur innviðafyrirtækja í nýtt samhengi og dregur fram nýjar áskoranir. Norðurorka, sem á og rekur mikilvæga innviði samfélagsins, leggur mikla áherslu á að halda uppi öflugum vörnum og halda vöku sinni sem m.a. birtist í aukinni áherslu fyrirtækisins á öryggis- og gæðamál á þessum vettvangi.
Það er að mörgu að hyggja í rekstrinum. Eðli starfsemi veitufyrirtækja er þannig að fjárfestingar eru ekki mjög sýnilegar þar sem veitukerfin eru að stærstum hluta grafin í jörðu. Þegar ný íbúðahverfi byggjast upp eru veitulagnir það fyrsta sem þarf að leggja, vatnsveita, fráveita, rafveita og hitaveita. Fjárfestingar í slíkum lagnakerfum hlaupa yfirleitt á hundruðum milljóna, jafnvel á milljörðum. Fjárfestingar veitukerfa eru mjög framþungar, þ.e. tekjur til að mæta þeim fjárfestingum koma á áratugum. Ef farið er af stað með lagnavinnu fyrir nýtt hverfi en tafir verða á frekari uppbyggingu þá frestast tekjustreymið að sama skapi. Efniskostnaður og annar framkvæmdakostnaður hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Sérstaklega finnum við fyrir kostnaðarauka við fráveitukerfið og er það úrlausnarefni um þessar mundir að tryggja að fráveitan standist virðismat, þ.e. að tekjur standi undir eignum.
Líkt og undanfarin ár finnum við fyrir mikilli aukningu í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Aukningunni fylgir áskorun hvað varðar rannsóknir, leit og fjárfestingar. Ekki er fyrirfram ljóst að nýjar sjálfbærar jarðhitaauðlindir séu til reiðu í Eyjafirði og kostnaðurinn við að virkja þær hefur aukist enda sífellt lengra að sækja. Það er mikilvægt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Sóun eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun.
Það er ljóst að fjárfestingarþörf verður áfram mikil á næstu árum. Áfram erum við að glíma við þá staðreynd að veltufé frá rekstri stendur ekki undir fjárfestingum og því þarf Norðurorka að brúa bilið með lánsfé. En við sjáum batamerki í rekstrinum og staðan til lengri tíma litið er jákvæð. Höfum það í huga að Norðurorka er öflugt fyrirtæki sem stendur styrkum fótum með sterka eiginfjárstöðu. Það er engin ástæða til að örvænta þrátt fyrir krefjandi úrlausnarefni sem við okkur blasir, það að snúa þróuninni við svo tekjur veitnanna standi undir fjárfestingum.
Ég þakka stjórn Norðurorku fyrir ánægjulegt og uppbyggilegt samstarf á árinu 2024 og sömuleiðis þakka ég starfsfólki Norðurorku fyrir þeirra góðu störf, eljusemi og metnað og fyrir að gera Norðurorku að skemmtilegum og líflegum vinnustað.
Eyþór Björnsson
Forstjóri