Á árinu 2024 störfuðu 105 einstaklingar hjá Norðurorku í 76 stöðugildum, 68 karlar og 37 konur.
Á fjármálasviði störfuðu sex konur, á framkvæmdasviði sem jafnframt er fjölmennasta sviðið störfuðu 41 einstaklingur yfir árið og þar af þrjár konur, á skrifstofu forstjóra störfuðu fjórir einstaklingar og þar af einn karl, á veitu- og tæknisviði 17 þar af fjórar konur, á þjónustusviði 15 og þar af fimm karlar.
Í sumarafleysingar og tímabundin verkefni komu 14 einstaklingar til starfa, sjö konur og jafn margir karlar. Fjórir einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, fjórir á veitu- og tæknisviði, fimm á þjónustusviði og einn í fjármálum. Mælaálestur var, eins og undanfarin ár, að mestu í höndum verktaka en fimm álesarar komu tímabundið inn á launaskrá meðan á verkefninu stóð.
Starfsmannavelta jókst úr 7,8% í 12%. Alls létu 11 einstaklingar af störfum hjá Norðurorku árið 2024 en 13 hófu störf.
Á árinu voru veittar tíu starfsaldursviðurkenningar og í þetta skiptið voru þær allar veittar starfsfólki sem hafði náð 10 ára starfsaldri. Viðurkenningarnar hlutu Anna María Sigurðardóttir, Baldur Hólm Jóhannsson, Daiva Tumaité, Frosti Frostason, Haraldur Jósefsson, Heiðar Austfjörð Björnsson, Hjalti Steinn Gunnarsson, Hulda Guðmundsdóttir, Jón Hermann Hermannsson og Sigurbjörn Gunnarsson.
Starfsmannafundir og -samtöl
Alls voru haldnir sjö starfsmannafundir á árinu. Fundirnir eru alla jafna haldnir í matsal fyrirtækisins en jafnframt er boðið upp á þátttöku starfsfólks í gegnum Teams fyrir þau sem eru í fjarvinnu á fundardegi.
Lagt er upp með að starfsmannasamtöl fari fram tvisvar á ári, í mars og október. Starfsmannasamtöl sem fara áttu fram í mars 2024 drógust yfir lengra tímabil og í maí var ákveðið að bregða út af vananum og bjóða starfsfólki að koma í starfsmannasamtal til mannauðsfulltrúa og starfsnema á mannauðssviði, hvoru tveggja hlutlaus aðili. Allt starfsfólk hafði val og bauðst að eiga hefðbundið starfsmannasamtal við sinn næsta stjórnanda og 57% þáðu það, en hin 43% mættu í starfsmannasamtal hjá starfsfólki mannauðssviðs. Megináhersla þeirra samtala var líðan í starfi. Í október fóru af stað starfsmannasamtöl með hefðbundnum hætti. Þá var fagmennska sérstakt áhersluatriði auk þess sem líðan í starfi er rædd í öllum samtölum. Markmið þemans er að allt starfsfólk þekki hvað það felur í sér að starfa af fagmennsku hjá Norðurorku. Það þekki þær væntingar sem gerðar eru til þeirra og að stjórnandi og starfsmaður ræði sameiginleg markmið næstu mánaða.
Ráðstefnur og kynningar
Ársfundur Samorku var haldinn í mars. Umfjöllunarefnið var ómissandi innviðir og sérstök áhersla var lögð á virði orku- og veituinnviða fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið og fyrir efnahagslífið.
Fagþing raforku var haldið í Hveragerði 23.-24. maí með þátttöku 11 fulltrúa Norðurorku. Mörg áhugaverð erindi voru flutt sem fjölluðu meðal annars um tækninýjungar í flutningi og dreifingu á raforku, orkuskipti, orkuöryggi og snjallvæðingu í geiranum, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig var efnt til fagkeppni þar sem rafvirkjar orkufyrirtækjanna öttu kappi í hinum ýmsu raforkutengdu þrautum, og rafvirkjar Norðurorku urðu fyrirtækinu til sóma.
Alþjóðlega IFAT fráveituráðstefnan fór fram í München dagana 13.-17. maí og Norðurorka átti þar þrjá fulltrúa. Viðburðurinn er gríðarstór þar sem fram fer vörusýning og fjöldi áhugaverðra erinda um allt það áhugaverðasta í fráveitumálum.
Í lok maí fór IGC ráðstefnan, eða Icelandic Geothermal Conference, fram í Hörpu þar sem Norðurorka átti tvo fulltrúa: Verkefnastjóra rannsókna og viðhalds og fagstjóra hita- og vatnsveitu. Markmið ráðstefnunnar er að fyrirtæki og stofnanir geti kynnst því nýjasta sem er í gangi í jarðhitageiranum hverju sinni og mörg áhugaverð erindi voru flutt.
Mannauðsdagurinn var haldinn í Hörpu 4. október og Norðurorka sendi sjö starfsmenn, þar af sex aðila framkvæmdaráðs, til þátttöku en um er að ræða einn stærsta viðburð stjórnunar og mannauðsmála á Íslandi.
Sama dag var haldin haustráðstefna Jarðfræðifélags Íslands, en í það skiptið var megin áherslan lögð á rannsóknir á hafsbotnum og strandsvæðum í kring um Ísland. Sigurveig Árnadóttir, jarðfræðingur, mætti á ráðstefnuna fyrir hönd Norðurorku og flutti erindi um vöktun Strýta í Eyjafirði.
Þann 1. október fór hin árlega kynnisferð starfsfólks fram en slíkar ferðir eru liður í að auka þekkingu starfsfólks á starfsemi fyrirtækisins. Rúmlega fjörutíu starfsmenn fóru í ferðina sem heitið var inn í Móahverfi, í TDK, aðveitustöðina í Þingvallastræti, Vaðlaheiðargöng og loks á Reyki í Fnjóskadal.
Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir
Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. Á árinu 2024 skráði 31 einstaklingur vistvænar ferðir til og frá vinnu og þar af fengu 28 þeirra greiddan samgöngustyrk. Flestir fengu greiddan styrk fyrir maí en flestir dagar voru skráðir í september eða alls 341. Þá kemur eflaust ekki á óvart að í desember séu skráðar fæstar ferðir enda oft slæmar aðstæður til útivistar í þeim mánuði. Samtals skráði starfsfólk 3.771 dag allt árið, sem er lítilleg fækkun frá árinu áður. Í heildina greiddi Norðurorka samgöngustyrk fyrir 196 mánuði vegna ársins 2024, en til samanburðar voru þeir 228 árið 2023, 244 árið 2022, 196 árið 2021 og 184 árið 2020.
46 einstaklingar nýttu heilsueflingarstyrk frá Norðurorku, sem er fækkun um fimm frá árinu 2023.
Endurmenntun
Árlegar fræðsluvikur Norðurorku fóru fram í janúar í sjötta sinn. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur frá 8. til 19. janúar. Þegar allt er talið voru haldin 40 mismunandi námskeið, til dæmis skyndihjálparnámskeið, námskeið um hreinlæti við lagnavinnu, námskeið um jákvæða karlmennsku og jafnrétti og námskeið um upplýsingaöryggi – svo fátt eitt sé nefnt. Þó nokkur fræðsluerindi voru í höndum innanhússfólks. Almennt lærðu öll eitthvað nýtt, víkkuðu sjóndeildarhringinn eða í það minnsta rifjuðu upp bráðnauðsynlega hluti eins og t.d. endurlífgun.
Jafnréttismál
Jafnréttisráð var á sínu fjórða starfsári og fundaði reglulega árið 2024. Ráðið er skipað fimm sjálfboðaliðum, tveimur konum og þremur körlum úr hópi starfsfólks til viðbótar við mannauðsstjóra.
Eitt af hlutverkum ráðsins er að stuðla að fræðslu um jafnréttismál og fjölbreytileika og framlag ráðsins til fræðsluvikna á árinu voru þrjú námskeið sem allt starfsfólk sat. Það fyrsta var námskeið um jákvæða karlmennslu og jafnrétti, hvernig og hvers vegna jákvæð karlmennska styður við jafnrétti, og hvernig skaðleg karlmennska bitnar á strákum og körlum, konum og kvárum. Námskeiðið féll almennt í góðan jarðveg. Einnig var haldið námskeið um samskipti og líðan sem var kennt af sálfræðingi frá ráðgjafastofunni Líf og sál. Fjallað var um starfshlutverk, fagmennsku, starfsanda, samskiptaaðferðir, að setja mörk og gagnrýni. Farið var yfir birtingarmyndir eineltis og áreitni og hvernig hægt er að fyrirbyggja að neikvæðir samskiptahættir nái að þrífast á vinnustaðnum. Miklar umræður spunnust eftir námskeiðið en almennt lýsti fólk yfir ánægju með fræðsluna og umræðurnar. Loks var boðið upp á fyrirlesturinn „Samskipti ólíkra kynslóða“ sem fjallaði um árangursríkar leiðir til að skilja og bera virðingu fyrir yngri og eldri kynslóðum. Fyrirlesturinn fjallaði almennt um samskipti og hafði að markmiði að hjálpa starfsfólki að skilja hvernig hver kynslóð nálgast hlutina á ólíkan og misjafnan hátt en skilningur á kynslóðabili eflir starfsanda og góða vinnustaðamenningu.
Skoðun á kynjaskiptingu í starfseiningunum leiðir í ljós að þar urðu litlar breytingar milli ára. Konur eru 35% starfsfólks fyrirtækisins og karlar 65% en til samanburðar voru konur 32% starfsfólks árið 2023 og karlar 68%. Norðurorka fékk viðurkenningu jafnvægisvogarinnar þriðja árið í röð.
Kynbundinn launamunur
Launagreining ársins 2024 var unnin í PayAnalytics eins og undanfarin ár og notast var við gögn úr launakeyrslu október. Heildartölur fyrir árið sýna að kynbundinn launamunur mældist 0,6% konum í vil, sem er lækkun frá síðasta ári þegar munurinn mældist 0,8%. Launamunur undir 1% telst afar lítill og er það ánægjuleg niðurstaða í sjálfu sér.
Þegar mælt er út frá heildarlaunum eru karlar að meðaltali með 1,6% hærri laun en konur en þegar mælt er út frá föstum launum eru konur með 0,6% hærri laun en karlar. Heildarlaun eru föst laun ásamt yfirvinnu og óreglulegum greiðslum, t.d. vaktaálagi. Föst laun eru grunnlaun ásamt föstum launaliðum. Launamunurinn er vel innan við sett markmið Norðurorku frá í mars 2022 um að kynbundinn launamunur fastra launa skuli vera innan við 2,5%.