Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Norðurorka sér um dreifingu rafmagns innan Akureyrar. Rafmagnsþjónusta fyrirtækisins þjónar einnig öðrum veitum félagsins sem starfa í alls átta sveitarfélögum. Verkefni rafvirkja Norðurorku eru því fjölbreytt og snúa jöfnum höndum að háspennu og lágspennu sem og að stjórnkerfum veitna. 

Nýframkvæmdir og viðhald

Viðhald og þjónusta rafbúnaðar eru til þess fallin að auka áreiðanleika með það að leiðarljósi að lágmarka ófyrirséð atvik. Mikilvægt er að verkefni sem þessi séu vel undirbúin og skipulögð, ekki síst með tilliti til rekstrar- og öryggismála.  Aðveitustöðvar Norðurorku eru tvær og tveir aflspennar á hvorum stað til að tryggja betra afhendingaröryggi. Í Kollugerði og Þingvallastræti var lokið við viðhalds- og þjónustuskoðun á aflrofum sem eru frá árunum 1993-1997, í framhaldi verður lagt upp með að meta forgangsröðun vegna endurnýjunar.

Á árinu var tengd heimtaug við Glerártorg vegna hleðslu rafbíla, auk þess sem styrking og endurnýjun dreifikerfis við Eyjafjarðarbraut (Leirur) og svæðið þar í kring átti sér stað. Uppbygging Móahverfis fór fram samhliða öðrum framkvæmdum á svæðinu þar sem nýrri dreifistöð var komið fyrir á lóð við Langamóa í september. Fyrsti áfangi Móahverfis er í framkvæmd og seinni áfangar koma í framhaldi. Við þéttingu byggðar og endurbætur er styrking dreifikerfis metin samhliða tilfallandi verkefnum.  Hvort sem horft er til framkvæmda í þegar byggðum hverfum eða nýjum þá útheimta verkefni góðan undirbúning og að skipulag sé í samráði við hlutaðeigandi. Hér er rétt að þakka m.a. verktökum og íbúum svæða fyrir gott samstarf í verkefnum.

Lagðir voru háspennustrengir frá dreifistöð 038 við Löngumýri að dreifistöð 013 við Grænumýri. Auk þess var lagður háspennustrengur frá dreifistöð 10 við Goðanes að Týsnesi sem með tímanum mun þar tengjast við fyrirhugaða dreifistöð. Lokið var við endurbætur á svæði við Löngumýri þar sem töluverð endurnýjun átti sér stað. Hér voru tækifæri nýtt samhliða öðrum framkvæmdum á svæðinu og dreifikerfið styrkt.

Til að auka enn frekar rekstrar- og persónuöryggi var áfram unnið að stjórnvaka, WinCC, sem gerir starfsfólki m.a. kleift að fylgjast betur með álagi, stöðu og viðvörunum í dreifikerfinu. Samhliða hefur verið unnið markvisst að því að skipta út eldri 11 kV rofabúnaði sem er í sumum tilfellum kominn til ára sinna. Nýrri búnaður dreifistöðva tengist alla jafna við stjórnvaka WinCC.

Orkuskipti í samgöngum

Orkuskipti í samgöngum hafa farið vel af stað á Akureyri og almennt er ágætis aðgengi að hraðhleðslu með hliðsjón af samtímaálagi. Eins og þekkt er þá hafa byggst upp staðir með hraðhleðslu þar sem ferðafólk, sem og aðrir, hefur möguleika á að hlaða rafbíla sína í bæjarlandinu.

Almennt séð hafa eigendur raf- og tengiltvinnbíla tekið því vel að hlaða bifreiðar utan álagstíma og álagsstýringar við fjölbýlishús og önnur stærri mannvirki er dæmigerð lausn þar sem nýtingu og lífsgæðum er haldið á lofti.  Rafhleðsla í samgöngum mun áfram færa okkur áhugaverð en jafnframt krefjandi verkefni næstu árin.

Þróun orkudreifingar hefur tekið breytingum síðustu ár eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Gera má ráð fyrir að orkusparnaður heimila sem skapast hefur með bættum tækjabúnaði og breyttri notkun sé að miklu leyti náð og möguleg aukning sé á næsta leyti.

Spennubreytingar

Á árinu var unnið við spennubreytingu úr 3x230V kerfi í 3N400/230V hjá viðskiptavinum og var um 105 neysluveitum breytt. Spennubreytingum verður haldið áfram á næstu árum og tækifæri nýtt eftir atvikum þegar skipta þarf um lagnir. Lokið var við að spennubreyta síðustu húsunum við dreifistöð 011 sem stendur við Sundlaug Akureyrar, m.t.t. framkvæmda. Þess utan sem ný staðsetning dreifistöðvar var valin innan lóðar við Skólastíg 6. Spennubreytingar fóru einnig fram í húsum við Kringlu- og Löngumýri frá Drst 038 við síðarnefnda götu og hluti húsa við Sólvelli, Víðivelli, Grenivelli og Eyrarveg sem tengjast frá Drst 033 við Hvannavelli.

Truflanir í flutningskerfi Landsnets

Þann 2. október átti sér stað truflun í flutningskerfi Landsnets sem olli rafmagnstruflunum víða um land, þar á meðal hjá viðskiptavinum Norðurorku. Truflunin varð þegar 540 MW af álagi hjá Norðuráli á Grundartanga sló út vegna viðhaldsvinnu. Álagið samsvarar um fjórðungi af heildarálagi landsins og olli miklum aflsveiflum í flutningskerfinu. Norðurorku bárust rúmlega hundrað tjónatilkynningar vegna atviksins en sem dreifiveita er það hlutverk Norðurorku að hafa milligöngu um öll tjónamál sem tengjast rafmagnsgæðum fyrir hönd sinna viðskiptavina. 

Öryggismál og rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi

Götuskápar Norðurorku eru í dag allir komnir með tvöfalda einangrun sem þýðir að markmiðum Norðurorku um að bæta persónu- og rekstraröryggi er náð hvað þann hluta varðar.

Á árinu var áfram unnið að því að leggja mat á hættusvæði ljósboga (ljósbogaorku) sem er ein af hættunum sem leynast í raforkukerfinu. Verkefnið snýst um að bæta bæði rekstraröryggi og ekki síður öryggi starfsfólks vegna vinnu við dreifikerfið. Á þeim stöðum sem búið er að leggja mat á ljósbogahættu er komið fyrir viðeigandi varúðarmerkingum og leiðbeiningum um þann hlífðarbúnað sem krafist er á hverjum stað. Þannig er dregið úr hættunni á slysum vegna mögulegra atvika ljósboga.

Ákveðnar reglur gilda um rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi rafveitu (RÖSK) sem m.a. fela í sér að hverja dreifistöð skal skoða a.m.k. á 10 ára fresti. Á árinu 2024 voru tuttugu og þrjú raforkuvirki skoðuð skv. RÖSK Norðurorku. Dreifikerfi út frá viðkomandi raforkuvirki er skoðað út frá eftirlitsáætlun og lagfært eftir þörfum hverju sinni, þess utan sem nýskoðun er gerð fyrir viðkomandi nývirki. Skipt er um þann búnað sem kominn er á aldur og/eða uppfyllir ekki lengur öryggiskröfur. Faggild skoðunarstofa tók út innri skoðanir dreifiveitu, auk þess sem ytri skoðanir voru framkvæmdar skv. opinberum kröfum þar sem u.þ.b. 1/3 hluti öryggisstjórnunarkerfisins var tekinn út. 

Til baka á forsíðu