Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Um árabil hefur Norðurorka hf. ástundað tiltekna aðferðafræði til að ákvarða grunn til útreikninga á breytingu á verðskrám komandi árs. Annars vegar er ársreikningur liðins árs brotinn niður á kostnaðarþætti og vægi rekstrarkostnaðar tengdur vísitölum. Með þessu sjást áhrif vísitölubreytinga á rekstrarkostnað Norðurorku. Hins vegar er horft til verðbólguspár Seðlabanka Íslands fyrir komandi ár. Vísitala Norðurorku og verðbólguspá Seðlabankans fyrir 2024, vegnar saman til helminga, voru 6,6% í lok árs 2023 og það var grunnur fjárhagsáætlunar 2024. Einnig var horft til rekstrar og áhrifa stórra verkefna Norðurorku. 

Þann 1. janúar 2024 tóku í gildi breytingar á verðskrám Norðurorku fyrir rafveitu, vatnsveitu og fráveitu. Á grundvelli greiningar á rekstrarkostnaði og vísitölum og að teknu tilliti til fjárfestingaáætlana, var ákveðið að hækka verðskrá rafveitu um 10,0%, verðskrá vatnsveitu um 6,6% og fráveitu um 6,6%. Einnig var ákveðið að hækka verðskrá hitaveitu almennt um 12,0% og Reykjaveitu um 8,6% og var ráðgert að verðskrárbreytingarnar tækju einnig gildi 1. janúar 2024. Verðskrárbreyting hitaveitu er háð staðfestingu Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis. Afgreiðsla málsins hjá ráðuneytinu dróst og því tók ný verðskrá hitaveitu ekki gildi fyrr en 1. febrúar 2024.

Það er mikilvægt að við munum að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.

Til baka á forsíðu