Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Heildarnotkun neysluvatns á Akureyri hefur haldist nær óbreytt um árabil, þrátt fyrir fjölgun íbúa, sem þýðir að meðalnotkun á hvern íbúa hefur farið minnkandi. Stór hluti neysluvatnsins kemur úr tveimur vatnslindum í Hlíðarfjalli, það er Hesjuvallalindum og Sellandslindum. Það sem upp á vantar er tekið frá vatnstökusvæðinu á Vaglaeyrum í Hörgárdal. Á komandi árum er áformað að ljúka tengingu vatnsveitulagnar frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar. Þá rekur Norðurorka einnig nokkrar minni vatnsveitur.

Móahverfi

Stærsta verkefni vatnsveitu Norðurorku á árinu 2024 var lagning vatnsveitukerfis í götur Móahverfis, sem unnin var samhliða gatnaframkvæmdum í tengslum við fyrsta áfanga í uppbyggingu hverfisins. Á árinu voru lagðir samtals um 5,6 km af neysluvatnslögnum í Móahverfi og þar með hafa nánast allar lagnir, sem áætlað var að leggja í fyrsta áfanganum, verið lagðar. Framkvæmdirnar önnuðust verktakafyrirtækin G. Hjálmarsson og GV. Gröfur. Áformað er að hefja vinnu við annan áfanga í uppbyggingu Móahverfis síðla árs 2025.

Færsla á Vaglalögnum

Frá Vöglum í Hörgárdal til Akureyrar liggja tvær samsíða stofnlagnir vatnsveitu. Sú eldri er 315 mm víð og sú yngri 400 mm. Þar sem lagnirnar lágu í gegnum skipulagssvæði hins nýja Móahverfis reyndist nauðsynlegt að færa þær. Verkið var að mestu unnið árið 2023 en ekki hafði verið unnt að ljúka því á þeim tíma þar sem leyfi skorti til að þvera rafmagnsstrenginn RA2 sem liggur í aflþynnuverksmiðjuna TDK. Leyfið fékkst árið 2024 og í kjölfarið var ráðist í færslu lagna á tæplega 100 metra löngum kafla. Hér var um eitt flóknasta verkefni ársins 2024 að ræða þar sem ekki var unnt að taka strauminn af RA2 strengnum á meðan framkvæmd stóð yfir. Strengurinn tengist Landsneti og er á 132 kV spennu, því var afar mikilvægt að fara að öllu með gát.

Hrafnagil

Á árinu 2024 var lagður nýr stofn fyrir vatnsveitu á Hrafnagili og var það gert samhliða vinnu við nýjan hitaveitustofn. Jafnframt var vatnsveita lögð í nýja götu í þéttbýliskjarnanum Hólmatröð. Hinn nýi vatnsveitustofn mun meðal annars þjóna væntanlegu Ölduhverfi sem áformað er að reisa á næstu árum í landi Kropps, norðan við Hrafnagil.

Svalbarðseyri

Unnið var við gatnagerð í Bakkatúni og Lækjartúni á Svalbarðseyri á árinu 2024 og samhliða verkinu var lögð vatnsveita í göturnar. Áætlað er að um 40 lóðir verði við þessar nýju götur.

Glæsibær

Við áframhaldandi uppbyggingu í Glæsibæ norðan Akureyrar á árinu 2024 reyndist nauðsynlegt að stækka stofnlögn vatnsveitunnar inn í hverfið. Lögð var 140 mm víð og 1,7 km löng vatnsveitulögn frá Skjaldarvík að Glæsibæ. Samhliða þessari vinnu var settur upp þrýstiminnkari fyrir hverfið inn í dælustöðina á Skjaldarvík.

Slys á vatnsverndarsvæði Norðurorku

Alvarlegt rútuslys átti sér stað við Fagranes í Öxnadal þann 14. júní. Viðbúnaður viðbragðsaðila var mikill og aðkoma starfsfólks Norðurorku einnig þar sem að slysið átti sér stað innan vatnsverndarsvæðis. Gripið var til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir að olía eða önnur óæskileg efni kæmust í gegnum jarðlögin, í neysluvatn Akureyringa og nærsveitunga.

Neysluvatnsdæling frá vatnstökusvæðinu á Vöglum var stöðvuð af öryggisástæðum og mengunarvarnabúnaði komið fyrir í og við ána. Árkvísl sem liggur næst veginum var stífluð ofan við slysstað til að stöðva vatnsrennsli við mengaðan árbakkann. Skjót og rétt viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar og sem betur fer tókst að koma í veg fyrir að vatn spilltist. Ljóst er að þetta mengunarslys er það umfangsmesta sem orðið hefur á vatnsverndarsvæði Norðurorku.

Ýmsar framkvæmdir á árinu

Önnur verkefni vatnsveitu Norðurorku á árinu 2024 voru meðal annars lagning heimlagna í nýbyggingar, reglubundnar rennslismælingar og útskolanir á brunahönum, hreinsun vatnstanka og lagfæringar á vatnslindum á Svalbarðseyri

 

Til baka á forsíðu