Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Stórfelldar og alvarlegar netárásir á einstaklinga og fyrirtæki eru því miður mjög algengar. Norðurorka, sem á og rekur mikilvæga innviði samfélagsins, leggur mikla áherslu á að halda uppi öflugum vörnum og halda vöku sinni á þessum vettvangi. Grunninnviðir eru eftirsóknarverð skotmörk tölvu- og netárása og fyrirtæki í orku- og veitugeiranum verða að byggja upp og þróa öflugar varnir á því sviði.

Norðurorka hefur tekið stór skref til að bregðast við þeim ógnum sem að steðja. Í lok árs 2023 varð gerður samningur við ráðgjafafyrirtæki á þessu sviði, til að framkvæma stöðumat á þessum málum hjá Norðurorku, undirbúa og innleiða verklag sem tekur mið af bestu venjum samkvæmt alþjóðlegum stöðlum um net- og upplýsingaöryggi og persónuvernd. Jafnframt var gerður samningur við ráðgjafa um að gegna hlutverki upplýsingaöryggisstjóra UT hjá Norðurorku.

Áhætturáði var komið á fót í Norðurorku en það er vettvangur stjórnunar á öryggis-, gæða- og áhættumálum varðandi upplýsingatækni hjá Norðurorku. Áhætturáð skilgreinir stjórnun og eftirlit öryggismála UT, stýrir öryggi og gæðum og samhæfir innleiðingu á stefnum félagsins í öryggis- og gæðamálum UT.

Stjórn Norðurorku hefur samþykkt áhættustefnu fyrir félagið. Tilgangur stefnunnar er að viðhalda yfirsýn og viðeigandi stýringu áhættu í starfsemi Norðurorku, til hagsbóta fyrir samfélagið, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa. Tilgangur með stefnunni er einnig að styrkja áhættustjórnun og innra eftirlit með heildstæðum hætti í rekstri og starfseminni, ná fram betri nýtingu fjármuna ásamt fylgni við lög og reglur í samræmi við stefnumörkun stjórnar. Í áhættustefnunni er kveðið á um að reglulega geri Norðurorka áhættumat til þess að greina og meðhöndla áhættu í starfseminni, tryggja að hún sé innan ásættanlegra viðmiða og til að efla áhættuvitund í starfseminni.

Í lok árs hófst innleiðing á „Arctic Wolf“ hugbúnaðaröryggiskerfi sem býður upp á öfluga netöryggisvernd sem er sérsniðin að þörfum fyrirtækja. Arctic Wolf rekur öfluga miðlæga öryggisvöktun sem er mönnuð allan sólarhringinn og er í nánu samstarfi við tölvudeild Norðurorku. Kerfið greinir öryggisógnir hratt og bregst við í rauntíma. Með því að nýta sér gagnagreiningu, vélnám (e. machine learning) og flókna ferla við vinnslu atburða veitir Arctic Wolf yfirsýn sem þarf til að sjá heildarmyndina í öryggisógnum í rauntíma.

Norðurorka leggur mikið upp úr því að fræða starfsfólk um net- og upplýsingaöryggi og efla vitund og varfærni í umgengni við tæknibúnað og -kerfi. Hafa fræðsluvikur m.a. verið nýttar í þeim tilgangi en einnig er virk upplýsingamiðlun og fræðsla á innri vef fyrirtækisins.

Til baka á forsíðu