Norðurorka rekur grunninnviði sem samfélagið allt treystir á, allan sólarhringinn alla daga ársins. Fyrirtækið hefur verið með vottað gæðakerfi frá árinu 2009 og er það tekið reglulega út af óháðum aðila. Innra eftirlit með verkferlum fyrirtækisins er mjög virkt og árið 2024 voru 18 af 44 verklagsreglum ásamt fylgjandi skjölum yfirfarin og uppfærð. Heilbrigðiseftirlitið hefur á ári hverju tekið sýni til örverugreiningar úr öllum vatnsveitum fyrirtækisins auk þess sem tekin eru sýni til heildarefnagreiningar. Reglulegt vinnslueftirlit fer fram í hitaveitunni þar sem m.a. er mælt efnainnihald vatnsins og lagt mat á heildarafkastagetu vinnslusvæðanna. Árlega eru gerðar spennugæðamælingar í rafveitu til að fylgjast með því að kröfur til spennugæða, sem fram koma í reglugerðum og stöðlum, séu uppfylltar. Í fráveitunni eru framkvæmdar reglulegar sýnatökur meðfram strandlengju Akureyrar, fylgst er með álagi í kringum skilgreind þynningarsvæði í viðtakanum auk þess sem tekin eru sýni inn í hreinsistöð fráveitu bæði fyrir og eftir síun fráveituvatnsins.
Frá árinu 2011 hefur Norðurorka rekið innra eftirlitskerfi með sölumælum sínum sem hluta af gæðakerfi fyrirtækisins. Árlega er framkvæmd ytri úttekt á kerfinu til að sannreyna að kröfum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé fullnægt. Þessi þáttur gæðakerfisins snýr að því að tryggja réttar mælingar og að mælaskipti fari fram á réttum tíma.
Gott gæðakerfi ýtir undir að allt starfsfólk Norðurorku taki eftir og leiti að tækifærum til að bæta verkferla, auka öryggi og tryggja sem best afhendingaröryggi allra veitna. Rekstur gæðakerfisins er þannig verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins og því er þátttaka starfsfólks og skuldbinding stjórnenda algjört lykilatriði. Gott gæðakerfi snýst nefnilega ekki einungis um að gera vel heldur snýst það um að gera sífellt betur.