Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Á starfsárinu 2024 voru haldnir 12 stjórnarfundir auk eigendafundar. Stjórn Norðurorku skipa auk mín Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður, Hilda Jana Gísladóttir ritari, Sóley Björk Stefánsdóttir og Þórhallur Jónsson. Áheyrnarfulltrúi minni hluthafa er Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.

Eins og fram kom í ávarpi síðasta árs þá reyndist árið 2023 Norðurorku erfitt, m.a. vegna verðbólgu. Á árinu 2024 eru heilt yfir litlar en þó jákvæðar breytingar á rekstrinum, sér í lagi hjá móðurfélaginu. Helstu fjárhagslegu mælikvarðar batna, EBITDA hækkar, veltufjárhlutfall hækkar, eiginfjárhlutfall er sterkt, þó það standi í stað milli ára, og lausafjárstaða er sterkari en á árinu 2023. Fjárfestingar eru miklar og verða það áfram næstu ár. Þær þarf að fjármagna með lántöku að einhverju leyti og það er mikilvægt að afkoman sé góð, sérstaklega á meðan félagið stendur frammi fyrir miklum fjárfestingum. Tekjur aukast um 15% á milli ára og við erum að sjá magnaukningu umfram áætlanir bæði í hitaveitunni og rafveitunni. Þó er það neikvætt að rekstrargjöld hækka hlutfallslega meira en tekjur en þar spilar Fallorka stórt hlutverk. Það er gleðilegt að við sjáum nú fjármagnsliði fara batnandi vegna lækkandi verðbólgu.

Nú hafa bæjarráð og bæjarstjórn samþykkt eigendastefnu fyrir Norðurorku sem farið verður í að innleiða strax á þessu ári og er það fagnaðarefni. Eigendastefnan kallar á breytingu á vinnubrögðum hjá stjórn, eigendum og forstjóra svo sem að eigendur komi fram með stefnu sína á eigendafundi og greini frá því hvert þeir vilja sjá fyrirtækið stefna og stjórn mun svo framfylgja þeirri stefnu. Þannig koma allir pólitískir fulltrúar að stefnumótun fyrir Norðurorku. Einnig er inni í stefnunni að einungis sitji þrír pólitískir fulltrúar í stjórn Norðurorku, tveir frá meirihlutanum og einn frá minnihlutanum, en síðan verði auglýst eftir tveimur óháðum fulltrúum. Það er von okkar að með þessu fyrirkomulagi fáum við breiðari þekkingu inni í stjórn og er stefnt á að þetta verði gert fyrir aðalfund 2026.

Eins og ég kom að hér að framan, þá hefur rekstur Fallorku reynst okkur erfiður og snýr það eingöngu að söluhluta fyrirtækisins. Ákvörðun var tekin um að skoða það að selja söluhlutann til að snúa rekstrinum við og hafa samningaviðræður verið í gangi í töluvert langan tíma vegna þess. Ýmsar áskoranir hafa komið upp í þessu ferli sem nú sér loks fyrir endann á. Rétt er að ítreka að ekki eru hugmyndir uppi um að selja virkjanirnar, enda hefur stjórn Norðurorku og bæjarráð samþykkt að svo verði ekki.

Á árinu var tekin ákvörðun um að loka Vistorku og tekur umhverfis og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar við þeim verkefnum sem talið er nauðsynlegt að sinna áfram og nokkur verkefni fá framhaldslíf á vettvangi Umhverfis- og orkustofnunar. Smám saman erum við að komast á þann stað með Norðurorku að fyrirtækið geti einblínt á sinn kjarnarekstur, þ.e. veitustarfsemina, enda liggur þar okkar meginábyrgð. Veitustarfsemin kallar á fulla athygli stjórnar og stjórnenda og er mikilvægt að stjórn styðji við stjórnendur í þeim verkefnum sem framundan eru.

Norðurorka nýtti sér púlsmælingar Moodup árið 2024. Um er að ræða fyrirtæki sem sérhæfir sig í könnunum meðal starfsfólks og staðfestir að á vinnustaðnum ríki mikil starfsánægja og framúrskarandi vinnustaðamenning. Norðurorka hlaut viðurkenningu Moodup „Vinnustaður í fremstu röð“ á árinu 2024. Til þess að hljóta þessa viðurkenningu þurfa fyrirtæki að uppfylla þrjú skilyrði en það er að mæla starfsánægju að minnsta kosti einu sinni á ársfjórðungi, bregðast við endurgjöf starfsfólks og ná árangursviðmiði um starfsánægju miðað við aðra íslenska vinnustaði. Að sjálfsögðu uppfyllti Norðurorka framangreind skilyrði og sýndi með því í verki að stjórnendur hlusta á starfsfólk og sýna að álit þess skiptir máli. Svarhlutfall hjá Norðurorku í þessum könnunum Moodup var 98%. VÍS veitti forvarnarverðlaun sín 29. febrúar 2024 og í flokki stærri fyrirtækja var Norðurorka eitt af þremur fyrirtækjum sem hlaut tilnefningu til verðlaunanna auk þess sem Norðurorka hlaut á árinu umhverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst þá hlaut Norðurorka þriðja árið í röð viðurkenningu jafnvægisvogarinnar.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki Norðurorku fyrir að gera Norðurorku að því flotta fyrirtæki sem það er. Forstjóra ásamt félögum mínum í stjórninni vil ég þakka fyrir gott og farsælt samstarf á árinu og hluthöfum fyrir ánægjulega samvinnu á árinu.

Hlynur Jóhannsson
Stjórnarformaður