Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Norðurorka leggur ríka áherslu á öfluga upplýsingagjöf í sinni starfsemi.

Vefur Norðurorku

Á vef fyrirtækisins er hægt að nálgast allar upplýsingar um starfsemi Norðurorku og þá þjónustu sem fyrirtækið veitir. Þar birtast meðal annars fréttir frá helstu framkvæmdum, tilkynningar um þjónusturof ásamt ýmsum fróðleik sem snertir veitustarfsemi og orkunýtingu. Þess má geta að á vefnum geta notendur einnig skráð sig á Mínar síðurog séð þar orkureikninga, línurit yfir notkun auk þess að senda inn álestur. Norðurorka vill vera í góðu sambandi við viðskiptavini og leggur sig fram um að miðla upplýsingum hratt og örugglega.

Samfélagsmiðlar

Einn liður kynningarmála er sýnileiki á samfélagsmiðlum. Miðlarnir Facebook, Instagram og LinkedIn voru nýttir til að koma skilaboðum á framfæri, segja frá framkvæmdum, miðla myndum og fróðleik og styðja virkni heimasíðu. Fylgjendum á samfélagsmiðlum Norðurorku fer sífellt fjölgandi enda um öflugan og lifandi vettvang til samskipta að ræða.

Dæmi um vinsælar færslur á Facebook árið 2024:
  • Nýting á glatvarma frá TDK
  • Kynning á þjónustuveri Norðurorku
  • Norðurorka hlaut umverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni
  • Umfjöllun um jarðhitaleit í Eyjafirði
Framhald vitundarvakningar

Eftir að grána tók í fjöllum hélt Norðurorka áfram með vitundarvakningu sína um stöðu hitaveitu, sem var ýtt úr vör ári áður undir yfirskriftinni „Hitamál“. Markmiðið með vitundarvakningunni er að hvetja íbúa á þjónustusvæði Norðurorku til umhugsunar um eigin orkunotkun og benda á gagnlegar leiðir til umbóta í því samhengi. Sem fyrr voru auglýsingar tengdar vitundarvakningunni birtar á helstu vef- og prentmiðlum þjónustusvæðisins. Í ár bættist þó við auglýsing á strætisvagni sem ók um götur Akureyrar og náði vonandi að grípa athygli sem flestra.

Sýnileiki í fjölmiðlum

Fjölmiðlar sýndu Norðurorku talsverða athygli árið 2024 og fjallað var um málefni Norðurorku í sjónvarpi, útvarpi, vef- og prentmiðlum. Helstu umfjöllunarefnin snéru m.a. að nýtingu glatvarma frá TDK, verklokum við gerð nýju aðveituæðarinnar sem flytur Akureyringum og nærsveitungum heitt vatn frá Hjalteyri og þeirri mengunarhættu sem skapaðist innan vatnsverndarsvæðis þegar alvarlegt rútuslys átti sér stað í Öxnadal síðastliðið sumar. Eins fjölluðu fjölmiðlar um áskoranir í hitaveitu og má í því samhengi nefna fróðlegt viðtal við vélfræðinginn Baldur Viðar Jónsson, í útvarpsþættinum Samfélagið RÚV, um snjóbræðslukerfi, kulda og hitaveituinnviði.

Kynningar og heimsóknir

Norðurorka leggur metnað í að taka vel á móti gestum sem óska eftir að koma í heimsókn til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins ásamt þeim störfum sem þar eru unnin. Móttökur af þessu tagi gefa fyrirtækinu tækifæri til að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri auk þess að vekja athygli á Norðurorku sem ákjósanlegum vinnustað í framtíðinni.

Gestir ársins hlaupa á hundruðum og eru á breiðum aldri. Hópar af öllum skólastigum, allt frá leikskóla og upp í háskóla hafa komið í heimsókn ásamt félagasamtökum og ýmsum fyrirtækjum. Á meðal heimsókna má nefna Jarðhitaskóla GRÓ (Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu) sem kom hingað í sína árlegu heimsókn með nemendur frá ýmsum þjóðlöndum. Hlutverk skólans er að veita ungum sérfræðingum frá þróunarlöndunum þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita. Orku- og veitufyrirtæki eru dugleg að miðla reynslu og þekkingu sín á milli og er samstarf þeirra á milli mikilvægt. Starfsfólk úr öðrum veitufyrirtækjum kom til að kynna sér Norðurorku og ýmsar lausnir sem hér hafa verið þróaðar.

Norðurorka tók þátt í ýmsum viðburðum á árinu 2024. Starfamessan var haldin í Háskólanum á Akureyri í mars þar sem elstu grunnskólanemunum gafst tækifæri á að kynnast ýmsri atvinnustarfsemi og þeim möguleikum sem bíða þeirra í framtíðinni. Þar kynnti Norðurorka þau margvíslegu störf sem unnin eru hjá fyrirtækinu.

Til viðbótar við allt ofan talið hefur starfsfólk Norðurorku farið víða og haldið fyrirlestra og kynningar ef óskað hefur verið eftir því, hvort sem er í skólum, fyrirtækjum eða hjá félagasamtökum.

 

Til baka á forsíðu