Samorka
Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samorka er málsvari orku- og veitufyrirtækja og beitir sér fyrir farsælli þróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi. Í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum. Á meðal meginverkefna Samorku eru innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna.
Fallorka ehf.
Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þ.e. tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2024 var orkuframleiðslan 39,3 GWst sem er um 10% samdráttur frá fyrra ári en vatnsbúskapur á landinu var afar þungur, sérstaklega fyrri hluta ársins.
Auk þessa rekur Fallorka 11 hleðslustöðvar á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir rafbíla og hefur sett upp sólarsellur og tvær litlar vindmyllur í Grímsey til að framleiða umhverfisvæna orku og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í eynni.
Á árinu setti félagið upp nýja 330 kW vél í Djúpadal. Sú vél kemur til viðbótar við eldri 900 kW vél í Djúpadal II og eykur afkastagetu þeirra virkjana. Þá standa enn yfir rannsóknir vegna mögulegrar þriðju virkjunar í Djúpadal sem og nýrrar virkjunar í Núpá í Sölvadal við Eyjafjörð.
Afar hörð samkeppni ríkir á smásölumarkaði raforku og einkenndist árið af þungum heildsölumarkaði en innkaupsverð raforku hækkaði mikið á árinu. Þessar aðstæður gerðu það að verkum að tap upp á 71,3 milljónir varð af rekstri Fallorku á árinu 2024. Horfur ársins 2025 eru hins vegar nokkru betri enda vatnsbúskapur umtalsvert léttari nú en undanfarin ár.
Skógarböð ehf.
Norðurorka á 4,54% hlut í Skógarböðum ehf. en hlutur Norðurorku kemur til vegna ákvæða viljayfirlýsingar sem gerð var í aðdraganda þess að framkvæmdir við lagningu vatnslagna úr Vaðlaheiðargöngum til Skógarbaða hófust. Norðurorka lagði umtalsverða fjármuni og vinnu í það verkefni og er stolt af því að vera ein af grunnstoðum þess að fyrirtækið varð að veruleika. Starfsemi Skógarbaða ehf. hefur sannað sig og hefur fyrirtækið verið í miklum vexti frá opnun. Enda er hér um að ræða vel heppnað og metnaðarfullt verkefni sem þegar hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.
Vistorka ehf.
Árið 2024 vann Vistorka áfram að þeim helstu verkefnum sem hafa verið í gangi hjá félaginu undanfarin ár. Á árinu var tekin ákvörðun um að leggja félagið niður. Verkefni Vistorku sem talið var tilefni til að halda áfram var fundinn farvegur annars vegar hjá Akureyrarbæ og hins vegar hjá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.
Tengir hf.
Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi. Starfsemi Tengis hefur vaxið mikið undanfarin ár og er tekjugrunnur félagsins er sterkur. Á árinu 2024 voru miklar fjárfestingar í ljósleiðaranetinu og var mikið um nýlagnir á starfssvæðinu öllu. Að mestu var klárað að leggja í þéttbýli Vopnafjarðar, hafin vinna við fyrsta áfanga í að tengja öll staðföng á Þórshöfn auk þess sem uppbygging hélt áfram í mörgum þéttbýliskjörnum m.a. á Akureyri, Siglufirði og Raufarhöfn. Nýtingarhlutfall ljósleiðaranetsins í nýtengingum var mjög gott. Í maí var gengið frá kaupum á öllu ljósleiðaraneti og innviðum Fjarskiptafélags Svalbarðsstrandarhrepps ehf. en það kerfi er sem stendur í útleigu til Mílu. Afhending á því er í febrúar 2027.
NORAK ehf.
NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli. Rekstur félagsins gekk vel á árinu 2024 en reksturinn er fjárhagslega stilltur af miðað við samningstíma verksmiðjunnar til ársins 2028.
Hrafnabjargavirkjun ehf.
Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðardals.
Í Rammaáætlun III sem Alþingi samþykkti á árinu 2022 voru allir fjórir nýtingakostir félagsins settir í verndarflokk. Það er því áfram mikil óvissa um framtíð félagsins.
Íslensk orka ehf.
Norðurorka á 36,26% hlut í félaginu Íslensk orka ehf., 32,29% eru í eigu Landsvirkjunar og 31,45% eru í eigu Orkuveitu Húsavíkur ohf. Félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði, verkefni sem enn er í biðstöðu. Fram hafa komið áhugasamir aðilar um nýtingu á heita vatninu til raforkuframleiðslu en það er mat stjórnar Íslenskrar orku að hagkvæmara sé fyrir félagið og heimafólk að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til einhvers konar iðnaðarframleiðslu. Í landeldi gætu skapast tækifæri þar sem jarðhiti gæti nýst auk þess sem fleiri kostir geta komið til skoðunar.
Netorka hf.
Norðurorka á 7,73% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. Hlutverk Netorku hefur vaxið í ljósi aukinnar samkeppni á raforkumarkaði og þar af leiðandi fleiri aðilaskiptum.
EIMUR
EIMUR er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, SSNE, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf EIMS er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, afla styrkja til nýsköpunar og þróunar, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.