Norðurorka hóf framleiðslu metangass úr gömlu ruslahaugunum í Glerárdal fyrir ofan Akureyri í ágústlok árið 2014. Til að byrja með var salan nokkuð í takt við væntingar en vöxturinn hefur verið minni en áætlað var í upphafi. Salan á árinu 2024 var 203.996 Nm3 og minnkaði um 10% frá fyrra ári.
Á árinu 2024 var flutt gas frá Sorpu í Álfsnesi til Akureyrar og létti það nokkuð á framleiðslunni frá Glerárdal sem ekki annar lengur eftirspurn á álagstímum. Fluttir voru um 22.000 Nm3 til Akureyrar á árinu 2024.
Ljóst er að framleiðslugeta haugsins hefur fyrir nokkru náð hámarki og kemur til með að minnka jafnt og þétt næstu ár. Hlutverk Norðurorku er að safna því metani sem myndast á gömlu ruslahaugunum í Glerárdal og vinna úr því eldsneyti. Það er verkefni samfélagsins að finna lausnir til frekari framleiðslu á metangasi og væri líforkuver á Dysnesi rökrétt framhald þar sem metan væri unnið við stýrðar aðstæður úr lífrænu hráefni.
Hámarksframleiðslugeta haugsins í Glerárdal er talsvert minni en ráðgert var í upphafi verkefnisins. Nú þegar við stöndum frammi fyrir þessari áskorun er gott að rifja upp að frá upphafi hefur Norðurorka safnað, hreinsað og þjappað um 1,8 milljón Nm3 af metangasi. Þetta hefur sparað innflutning jafn margra lítra af jarðefnaeldsneyti og sparað losun á því sem nemur u.þ.b. 30 þúsund tonnum af koltvísýringi. Verkefnið hefur því sannarlega skilað samfélaginu ávinningi sem við getum verið stolt af.