Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Umhverfismál eru Norðurorku afar mikilvæg. Fyrirtækið leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið og hefur m.a. samþykkt umhverfisstefnu og skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að minnka myndun úrgangs frá starfseminni og auka flokkun.

Á árinu hlaut Norðurorka umhverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni og eru verðlaunin sannarlega hvatning til að halda áfram á sömu braut. Í umsögn frá Terra kemur meðal annars fram „Norðurorka hefur sett fordæmi fyrir því hversu vel má flokka allt sem til fellur hjá stóru fyrirtæki. Hlutfall sem er urðað eða sent í brennslu er í algjöru lágmarki. Norðurorka hefur tileinkað sér þær nýjungar sem Terra býður upp á, hefur verið reiðubúin að prófa nýjar lausnir og gefið sitt álit á virkni þeirra.“

Starfsfólk Norðurorku hefur lagt sitt að mörkum í umhverfismálum undanfarin ár m.a. með því að hittast eftir vinnu, einn dag að vori, ásamt fjölskyldum til að tína rusl og fegra umhverfið í næsta nágrenni við mannvirki fyrirtækisins. Í byrjun júní kom saman góður hópur starfsfólks ásamt fjölskyldumeðlimum á öllum aldri og tíndi rusl í blíðskaparveðri. Dagurinn endaði svo á pizzuveislu.

Helsta aðgerð fyrirtækisins til að draga úr kolefnislosun vegna starfseminnar er sú að kanna ávallt möguleikann á vistvænum bílum við endurnýjun bílaflotans. Í lok árs voru 18 af 38 bílum Norðurorku knúnir á vistvænan hátt og fer þeim fjölgandi. Norðurorka hvetur starfsfólk sitt til vistvænna samgangna til og frá vinnu. Starfsfólk hefur tekið vel í þá hvatningu og árið 2024 skráðu um 30% starfsfólks alls 3.271 vistvæna ferð til og frá vinnu, sem má áætla að hafi sparað um 3,6 tonn CO2 losunar út í andrúmsloftið eða sem samsvarar nær allri losun fyrirtækisins vegna flugferða Norðurorku árið 2024.

Auk áherslu á að finna leiðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vinnur fyrirtækið einnig að bindingu kolefnis. Í gegnum árin hefur Norðurorka gróðursett tré og í upphafi ársins 2024 átti fyrirtækið um 60 hektara af skógi sem bindur koltvísýring. Ekki voru gróðursett ný tré á árinu 2024 en Norðurorka hefur metnaðarfull áform um áframhaldandi skógrækt næstu ár og til stendur að halda gróðursetningu áfram á Hjalteyri og á Reykjum í Fnjóskadal.

Til viðbótar við skógræktina hefur Norðurorka, frá árinu 2014, unnið gegn gróðurhúsaáhrifum með því að safna metangasi úr gömlu sorphaugunum ofan við Akureyri. Þar sem metan er margfalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur næst mikil minnkun gróðurhúsaáhrifa með því að koma í veg fyrir að metanið sleppi út í andrúmsloftið. Árið 2024 vann Norðurorka 181 þúsund rúmmetra af metani og batt þannig tæp 3,2 þúsund tonn af koltvísýringi.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá kolefnisspor Norðurorku frá og með árinu 2020. Ofan við núlllínuna er talin upp losun vegna starfsemi fyrirtækisins en neðan við núlllínuna sést binding kolefnis. Árið 2024 losaði Norðurorka 354 tonn kolefnis en batt 3.566 tonn. Fyrirtækið batt því mun meira magn CO2 en það losaði og er heildarkolefnisspor ársins 2024 því -3.212 tonn CO2 ígildi. Sjá má að binding CO2 er minni árið 2024 en undangengin ár og skýrist það af minna streymi metangass frá sorphaugunum, sem er eðlileg þróun við slíka söfnun.

Ársskýrsla Norðurorku


Rekstur hreinsistöðvar fráveitu frá árinu 2020 er stórt jákvætt skref í umhverfismálum fyrir allt samfélagið við Eyjafjörð. Í hreinsistöðinni er öllu fráveituvatninu veitt í gegnum þrepasíu með 3 mm gatastærð. Síuðu fráveituvatninu er síðan veitt í gegnum fráveitulögn út í sjó, sem liggur á 40 m dýpi og nær 400 m út frá landi. Árið 2024 hreinsaði stöðin rúm 46,5 tonn af rusli úr fráveitunni og sýna mælingar að áhrif hreinsunarinnar séu mjög jákvæð.

 

Til baka á forsíðu