Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Árið 2024 hefur fráveitan styrkt starfsemi sína varðandi rannsóknir á fráveitukerfinu. Keyptur hefur verið búnaður til að mynda og hljóðbylgjumæla lagnir og mæla þær með GPS hnitum. Í framhaldinu eru gögnin færð upp í „ský“ sem starfsfólk hefur aðgang að, þar á meðal starfsfólk teiknistofu sem hleður gögnunum inn til að uppfæra kortasjá Norðurorku.

Árið 2024 hefur Norðurorka einbeitt sér að því að bæta kortasjána þannig að upplýsingarnar séu eins nákvæmar og mögulegt er. Ljóst er að þetta er ekki gert á einum degi heldur er um stöðugt verkefni að ræða sem áfram verður unnið að.

Til viðbótar við hefðbundinn rekstur og viðhaldsverkefni var meðal annars unnið að eftirfarandi verkefnum á árinu 2024. Um sumarið kom í ljós að gamla frárennslislögnin frá MS Akureyri var  í mjög slæmu ástandi. Ástæðuna má rekja til þess að fráveituvatnið frá MS Akureyri hefur lágt pH stig sem með árunum eyðileggur steinrörin. Því var farið í það verkefni að endurnýja gömlu lögnina austur að Furulundi. Verkefnið var vandasamt þar sem að lögnin var stór og um hana fóru daglega um 1000 m³ (eða 1.000.000 lítrar). Ekki var mögulegt fyrir MS að stöðva framleiðsluna meðan á framkvæmdum stóð en með góðri skipulagningu tókst verkefnið afar vel. Áætlað er að annar áfangi fari í framkvæmd árið 2025.

Norðurorka hélt áfram að tvöfalda fráveitukerfi bæjarins og hefur með nýrri 60 metra regnvatnslögn tengt MS Akureyri við regnvatnslögnina í Furulundi. Á árinu var einnig skipt um svokallaðan bíofilter í Hreinsistöð fráveitunnar á Óseyri. Bíofilterinn samanstendur af steinkassa sem inniheldur 10 tonn af lerkikurli og er staðsettur á þaki Hreinsistöðvarinnar. Hann hefur þann tilgang að eyða lykt frá loftræsikerfi stöðvarinnar. Um er að ræða nútímalega og umhverfisvæna lausn sem dugar í mörg ár. Lerkikurlið var fengið úr Kjarnaskógi.

Á liðnu ári framkvæmdi Norðurorka ástandsrannsókn á útrásum regnvatnslagna út í sjó með aðstoð kafara. Áætlanir næstu ára gera ráð fyrir endurbótum á þessum kerfishlutum til að tryggja að þeir sinni sínu hlutverki.

 

Til baka á forsíðu