Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Undanfarin ár hafa jarðhitarannsóknir verið mikilvægur þáttur í starfsemi Norðurorku og eru þær að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR). Rannsóknirnar skiptast í tvennt: annars vegar vöktun og eftirlit með þeim jarðhitasvæðum sem eru í nýtingu (svokallað vinnslueftirlit) og hins vegar jarðhitaleit þar sem möguleg framtíðarvinnslusvæði eru könnuð. Eftirfarandi er yfirlit yfir helstu verkefni ársins 2024.

Ólafsfjörður

Í upphafi árs 2024 skilaði ÍSOR greinargerð til Norðurorku um staðsetningu nýrrar vinnsluholu fyrir þéttbýliskjarnann í Ólafsfirði. Við vinnuna kom í ljós að ákveðin óvissa var í mati á gögnum úr rannsóknarholu sem gegnir lykilhlutverki í ákvörðun um staðsetninguna. Til að auka öryggi við mat gagna var ákveðið að dýpka umrædda holu. Aðgerðin reyndist þó ekki möguleg, en í staðinn var boruð önnur og dýpri hola þétt við hlið hennar. Sú hola færði sönnur á nálæga hræringu í jarðhitakerfinu og renndi þar með stoðum undir að upphafleg staðsetning vinnsluholunnar hafi verið rétt valin. Vinna við borholuplan fór fram í lok árs 2024 og borun vinnsluholunnar er áætluð á tímabilinu 1. apríl til 31. júlí 2025. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða mun annast borunina og verður jarðborinn Sleipnir notaður við verkið. Holan verður 1000-1300 metra djúp og fóðruð niður á 450 metra dýpi. Hún er staðsett í landi Ósbrekku, neðan við núverandi vinnsluholur, á bakka manngerðrar tjarnar vestan við gömlu flugbrautina.

Í desember 2024 gaf ÍSOR út skýrslu þar sem farið er yfir vinnslusögur og eiginleika jarðhitasvæðanna á Skeggjabrekkudal og Laugarengi. Skýrslunni fylgir uppfært líkan af jarðhitakerfinu á Laugarengi sem spáir fyrir um þróun vatnsborðs næstu 20 árin. Fyrri uppfærsla líkansins var gefin út árið 2009.

Hjalteyri

Í lok árs 2021 veittu efnafræðingar ÍSOR því eftirtekt að klóríðstyrkur í eftirlitssýnum frá Hjalteyri hafði aukist lítillega. Síðan þá hefur styrkurinn aukist töluvert og fer vaxandi yfir vetrarmánuði. Við þessum breytingum var brugðist með því að fjölga eftirlitssýnum úr vinnsluholunum og var sýnum safnað á 1-2 vikna fresti til að byrja með en mánaðarlega árið 2024. Sýnin eru greind jafnóðum á rannsóknastofu ÍSOR og þannig er fylgst náið með breytingum í efnainnihaldi jarðhitavatnsins. Jafnframt gefa síritaðar rafleiðnimælingar í vinnsluholunum vísbendingar um efnabreytingar í rauntíma. Sú aukning í klóríðstyrk sem mælst hefur bendir til innstreymis saltara vatns inn í jarðhitakerfið en ekki er augljóst enn sem komið er hvort um er að ræða sjó eða saltari jarðhitavökva. Þrátt fyrir að seltan sé enn lítil getur hún leitt til útfellingar kalsíts í jarðhitavatninu með tímanum en það gæti valdið truflunum á rekstri vinnsluholnanna. Ljóst þykir að lækkandi þrýstingur í jarðhitakerfinu sé frumorsök innstreymisins og því hefur vinnsla á Hjalteyri verið dregin saman eins og kostur er, í samræmi við markmið Norðurorku um sjálfbæra nýtingu kerfisins. Til að vega upp á móti minni vinnslu á svæðinu hefur framleiðsla verið aukin á öðrum vinnslusvæðum hitaveitunnar. Í desember 2024 hóf Norðurorka nýtingu á glatvarma frá álþynnuverksmiðju TDK til upphitunar bakrásarvatns í hitaveitukerfi fyrirtækisins. Með þeirri viðbót hefur verið hægt að draga enn frekar úr vinnslu á Hjalteyri. Til að auðvelda ákvarðanir um stýringu jarðhitavinnslu á svæðinu í framtíðinni hefur Norðurorka falið ÍSOR að ráðast í líkanreikninga með það að markmiði að þróa líkan sem sem hermir eftir byggingu og eðli jarðhitakerfisins og getur spáð fyrir um áframhald innstreymisins. Fyrsti áfangi verkefnisins, sem fólst í undirbúningi fyrir líkanreikningana, var unninn á seinni helmingi ársins 2024.

Mið-Eyjafjörður

Lengi hefur verið talið að jarðhitakerfið við Botn í Eyjafjarðardal geti gefið meira vatn en fæst úr núverandi vinnsluholum, enda skila báðar holurnar enn sjálfrennandi vatni sé ekki dælt úr þeim, þrátt fyrir rúmlega 40 ára vinnslusögu. Þar sem svæðið liggur vel við núverandi dreifikerfi Norðurorku gæti borun nýrrar og vel heppnaðrar vinnsluholu leitt til betri nýtingar þeirra innviða hitaveitunnar sem þegar eru til staðar á svæðinu. Aukin orkuvinnsla á Botni gæti þannig mætt vaxandi orkuþörf í Eyjafirði um nokkurt skeið á hagkvæman hátt. Með tilliti til þess hafa farið fram jarðhitarannsóknir í nágrenni Botns undanfarin misseri sem hafa það að markmiði að leita að meginuppstreymi jarðhitakerfisins en talið hefur verið að það sé að finna undir um 80-100 metra þykkri setfyllu sem hylur botn Eyjafjarðardals. Í apríl 2024 hófust tilraunaboranir í setfylluna í samstarfi við Finn ehf. og ÍSOR. Samtals voru boraðar sjö rannsóknarholur á árinu, hver um sig u.þ.b. 50-115 metra djúp, sem flestar eru fóðraðar niður í botn.

Á seinni hluta ársins 2024 færðu sérfræðingar ÍSOR öll tiltæk rannsóknargögn frá jarðhitasvæðunum í Mið-Eyjafirði inn í þrívíddarforrit og smíðuðu jarðlagalíkan sem mun nýtast við ákvarðanatöku um áframhaldandi rannsóknir og boranir á svæðinu. Að þessu sinni var ekki gerð sérstök skýrsla um líkanið, þar sem rannsóknir standa enn yfir, en fyrirhugað er að uppfæra það jafnóðum og ný gögn berast.

Í nóvember 2024 skilaði ÍSOR skýrslu um viðnámsmælingar í nágrenni jarðhitasvæðanna við Botn, Hrafnagil, Syðra-Laugaland og Grýtu í Eyjafjarðarsveit. Markmið viðnámsmælinga er að mæla eðlisviðnám jarðlaga á mismunandi dýpi undir ákveðnum stað eða mæla breytingar í eðlisviðnámi frá einum stað til annars. Við jarðhitaleit með viðnámsmælingum er byggt á þeirri forsendu að jarðlög mettuð heitu vatni leiða rafmagn almennt betur en jarðlög með köldu vatni, og jarðhiti kemur því fram í mælingunum sem lágt viðnám. Viðnámsmælingarnar sem fjallað er um í skýrslunni fóru fram sumarið 2023 með TEM-aðferð (Transient Electro Magnetic). Tilgangur mælinganna var að þétta eldra mælinganet og varpa ljósi á jarðlög undir setfyllunni í miðju dalbotnsins. Þær eru hluti af umfangsmeira rannsóknarátaki sem miðar að því að auka orkuvinnslu á jarðhitasvæðinu við Botn. Niðurstöður mælinganna gefa til kynna að lágviðnámslag sé til staðar í setfyllunni og nái frá norðri og suður fyrir Botn. Ekki reyndist þó unnt að draga afgerandi ályktanir um viðnámsgerð undir því lagi. Gögnin styðja enn fremur fyrri hugmyndir um tilvist brots sem gæti legið þvert yfir dalinn sunnan við Botn.

Svokallað ferilefnapróf var sett af stað á Botni í febrúar 2023 en í jarðhitarannsóknum eru slík próf notuð til að rekja hreyfingu vökva í jarðhitakerfum og hvort, hvernig og hversu hratt hann berst milli holna. Markmið prófsins á Botni var að kanna nánar þrýstisamband milli holnanna BÝ-3 og vinnsluholunnar HN-10, sem staðsettar eru með um 120 metra millibili. Prófið fór þannig fram að ferilefni var sett ofan í BÝ-3 og síðan fylgst með hvernig það skilaði sér í vatnið úr HN-10. Jafnframt var kannað hvort efnið myndi greinast í hinni vinnsluholunni á svæðinu, BN-1. Sýnataka og efnagreiningar vegna ferilefnaprófsins stóðu enn yfir á árinu 2024 og verður niðurstöðum prófsins lýst í fyrirhugaðri skýrslu ÍSOR.

Ytri-Hagi

Borun tveggja djúpra könnunarholna við Ytri-Haga lauk á fyrri hluta ársins 2024. Markmiðið var að fá skýrari mynd af hitadreifingu í dýpri jarðlögum en fyrri holur höfðu náð til og kanna nánar vesturjaðar berggangasyrpu sem skagar út í sjó og jarðhitinn virðist að mestu leyti bundinn við. Holurnar eru 450 og 500 metra djúpar og voru boraðar þannig að þær halli 10° frá lóðréttu hvor í sína áttina (NV og NA); önnur í átt að jaðri berggangasyrpunnar og hin út úr henni. ÍSOR skilaði skýrslu um borun, mælingar og jarðlög í annarri holunni á árinu 2024 og er skýrsla um hina holuna í vinnslu. Niðurstöður rannsókna í holunum tveimur, ásamt tiltækum gögnum úr fyrri rannsóknum, voru nýttar til að búa til þrívítt líkan af jarðhitakerfinu. Líkanið styður fyrri hugmyndir um að jarðhitauppstreymi sé að mestu bundið við vesturjaðar berggangasyrpunnar, enda fundust heitar og vatnsríkar sprungur í báðum könnunarholunum. Á þessum grunni staðsetti ÍSOR djúpa vinnsluholu (1100-1500 m), sem fyrirhugað er að bora sumarið 2025. Holan verður staðsett skammt sunnan við syðri könnunarholuna og stefnuboruð til NNA, með það að markmiði að skerast við lekar sprungur í dýpri hluta jarðhitakerfisins. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða mun annast borunina og verður jarðborinn Sleipnir notaður til verksins.

Þorvaldsdalur

Í september 2023 var boruð rannsóknarhola (hitastigulshola) við Grund í Þorvaldsdal sem gaf skýrar vísbendingar um jarðhita í nágrenninu. Holan var boruð af Finni ehf. og var hluti af jarðhitaleitarátaki Norðurorku og Dalvíkurbyggðar á árunum 2022-2024. Í kjölfar þessara nýju vísbendinga var ákveðið að beita viðnámsmælingum til að rannsaka svæðið nánar og afla frekari gagna um hvar í dalnum líkur séu á jarðhita. Í mars og apríl 2024 framkvæmdi ÍSOR viðnámsmælingar með TEM-aðferð eftir endilöngum Þorvaldsdal í samstarfi við Norðurorku og Hitaveitu Dalvíkur. Niðurstöður mælinganna benda til þess að jarðhitauppstreymi sé til staðar í dalnum og gefa skýrar vísbendingar um að ástæða sé til frekari rannsókna á svæðinu.

Almennt

Jarðhitaleitarátak með rannsóknarborunum hófst árið 2022 og lauk í ársbyrjun 2024. Á tímabilinu voru boraðar samtals 26 holur á Eyjafjarðarsvæðinu, og var verkefnið að hluta unnið í samstarfi við Dalvíkurbyggð. Holurnar voru boraðar af Vatnsborun ehf. og Finni ehf. Hitamælingar úr holunum voru notaðar til að meta hitastigul, sem lýsir því hversu hratt hiti eykst með dýpi. Tilgangur átaksins var annars vegar að afmarka betur þekkt frávik í hitastigli og hins vegar að leita vísbendinga um áður óþekkt jarðhitakerfi, sem ekki gefa augljós merki á yfirborði en gætu verið möguleg framtíðarvinnslusvæði. Niðurstöðum verkefnisins er lýst í skýrslu ÍSOR, sem gefin var út í apríl 2024. Þar kemur meðal annars fram að skýr ummerki um áður óþekktan jarðhita hafi fundist í Þorvaldsdal.

Í nóvember 2024 skilaði ÍSOR skýrslu til Norðurorku og Hitaveitu Dalvíkur með yfirliti yfir hitastigulsrannsóknir í og við Eyjafjörð. Skýrslan felur í sér samantekt á öllum tiltækum og nýtilegum gögnum, bæði eldri og nýrri, um staðbundinn hitastigul þekkra jarðhitasvæða sem Norðurorka og Hitaveita Dalvíkur hafa yfir að ráða. Í sama mánuði var gefin út skýrsla um niðurstöður viðnámsmælinga sem framkvæmdar voru árið 2022 meðfram vestanverðum Eyjafirði, frá Akureyri og norður fyrir Dalvík, auk mælinga í Hrísey. Tilgangur rannsóknarinnar var að kortleggja gróflega viðnámsbyggingu jarðlaga við vestanverðan Eyjafjörð og kanna hvort djúpt lágviðnám kæmi þar fram með hvelfingu upp á við, svipað og fundist hefur undir Eyjafjarðardal sunnan Akureyrar, og gæti verið vísbending um að grunnt væri á nýtanlegan jarðhita. Mælingarnar sýna djúpt viðnámslag á 6-40 km dýpi og bendir samanburður við eldri rannsóknir til að fylgni sé á milli þess og jarðhita. Í desember 2024 gaf ÍSOR út skýrslu um endurmat vinnslugetu jarðhitasvæðanna á Botni, Syðra-Laugalandi, Ytri-Tjörnum, Glerárdal, Laugalandi á Þelamörk og Hjalteyri í Eyjafirði. Í skýrslunni er afkastageta jarðhitakerfanna endurmetin og vatnsborðsspár reiknaðar fram til ársins 2037.

Vinnslusvæði Norðurorku eru vandlega vöktuð en í því felst að rennsli og hitastig úr hverri vinnsluholu eru skráð í síritakerfi, auk þess sem fylgst er með vatnsborði. Jafnframt er eftirlitssýnum af jarðhitavatninu safnað reglulega til efnagreininga hjá ÍSOR. Sérfræðingar ÍSOR vinna með reglubundnum hætti skýrslur um vinnslueftirlit og orkubúskap vinnslusvæðanna. Í þeim eru eftirlitsgögnin borin saman við spár um viðbrögð jarðhitakerfanna við vinnslu til lengri tíma. Vinnslueftirlitsskýrsla fyrir árið 2023, sem nær yfir veitukerfi Akureyrar og nágrennis, var gefin út í september 2024.

Frá því seltuaukning mældist fyrst í eftirlitssýnum frá Hjalteyri hefur verkfræðistofan COWI (áður Mannvit) annast stöðugar mælingar á rafleiðni og sjávarhita á völdum stöðum í og við Arnarnesstrýtur. Gögnin benda til þess að undanfarin ár hafi verið tengsl milli vinnslu á Hjalteyri og náttúrulegs uppstreymis úr strýtunum, en það hefur stöðvast þegar dæling úr kerfinu er í hámarki. Norðurorka mun áfram hafa eftirlit með Arnarnesstrýtum og fylgjast með viðbrögðum þeirra við vinnslu úr Hjalteyrarkerfinu í framtíðinni.

Norðurorka og ÍSOR hafa rekið staðbundið jarðskjálftamælanet á Eyjafjarðarsvæðinu frá ársbyrjun 2017. Tilgangurinn er að safna samfelldum gögnum um smáskjálfta sem nýtast við kortlagningu á jarðhitasvæðum og gefa upplýsingar um lekt í berggrunni Eyjafjarðar. Mælanetið, sem samanstendur af fimm skjálftamælum til viðbótar við mæla Veðurstofu Íslands, hefur verið í samfelldum rekstri frá árinu 2017 og verður rekstrinum haldið áfram í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi gagnasöfnun.

 

Til baka á forsíðu