Fara í efni
Ársskýrsla 2024

Heitavatnsnotkun hefur aukist hratt á Akureyri og nágrenni á undanförnum árum en vöxturinn hefur að meðaltali verið tæp 4% á ári frá árinu 2003. Ástæðan er sú mikla uppbygging sem fylgir fjölgun íbúa og stækkun byggðar en þegar þróun rúmmáls nýs húsnæðis er skoðuð kemur í ljós að orkunotkun á hvern rúmmetra eykst einnig jafnt og þétt. Þessi vaxandi eftirspurn kallar á áframhaldandi rannsóknir svo að tryggja megi nægt framboð af heitu vatni, auk frekari framkvæmda til að efla og stækka núverandi hitaveitukerfi.

Móahverfi

Á árinu 2024 hófust gatnaframkvæmdir í tengslum við fyrsta áfanga í uppbyggingu Móahverfis og samhliða þeim var hitaveitukerfi lagt í gangstéttir auk þess sem stofnlögn var lögð inn í hverfið samsíða Borgarbraut. Þetta var stærsta framkvæmd hitaveitu Norðurorku á árinu en í heildina voru lagðir um 5,5 km af hitaveitulögnum í hverfinu. Í þessu verkefni er innleidd sú nýbreytni að öll hús hverfisins verða tengd við bakrásarkerfi hitaveitunnar, en hingað til hafa einungis fjölbýlishús og stærri byggingar verið tengd því. Verktakafyrirtækin G. Hjálmarsson og GV. Gröfur annast lagningu hitaveituröra. Áframhaldandi vinna við fyrsta áfanga hverfisins fer fram árið 2025 og stefnt er að því að hefja annan áfanga verkefnisins síðla árs.

Veitutenging við Móahverfi

Eldri hitaveitulagnir á Akureyri voru ekki hannaðar með tilliti til byggðar á svæðinu þar sem Móahverfi er að rísa og því þarf Norðurorka nú að leggja hitaveitulagnir að hverfinu. Fyrsti áfangi framkvæmdarinnar fór fram á árinu 2024, þegar tenging var lögð frá Vestursíðu inn í Móahverfi í gegnum Bæjarsíðu. Samhliða því að lagnir eru lagðar að hverfinu er unnið að endurnýjun stofnlagna á svæðinu. Slík framkvæmd er bæði tímafrek og krefjandi, þar sem unnið er með lifandi kerfi og aðgerðir þurfa að miðast við að sem sjaldnast sé lokað fyrir heitt vatn hjá notendum. Verktakafyrirtækið Vélaleiga HB annaðist framkvæmdina fyrir Norðurorku. Árið 2025 verður áfram unnið að verkefninu en þá verða stofnlagnir í gegnum Móasíðu endurnýjaðar.

Nýting glatvarma frá TDK

Lengi hefur verið litið til þess mikla varma sem fer til spillis í sjóinn við aflþynnuverksmiðju TDK (áður Becromal) í Krossanesi. Sjór er notaður til þess að kæla hringrásarkerfi verksmiðjunnar í gegnum varmaskipta og þaðan fer hann út u.þ.b. 65-70°C heitur. Snemma árs 2023 undirrituðu Norðurorka og TDK viljayfirlýsingu um könnun á nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni, með það fyrir augum að hita upp bakrásarvatn úr kerfum Norðurorku. Skömmu síðar hófst hönnunarvinna sem verkfræðistofan EFLA annaðist í samstarfi við starfsfólk Norðurorku. Sumarið 2024 hófust framkvæmdir við lagnavinna frá gatnamótum Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar að Krossanesi, sem verktakafyrirtækið Ísrefur annaðist. Samhliða fóru einnig af stað framkvæmdir við uppsetningu varmaskipta og innanhússlagna hjá TDK, sem Slippstöðin sá um. Lagðar voru tvær DN300 lagnir; annars vegar lögn með 30°C gráðu heitu bakrásarvatni og hins vegar lögn með upphituðu vatni frá verkmiðjunni. Samtals eru lagnirnar um 2,4 kílómetrar að lengd. Síðarnefnda lögnin var tengd inn á framrásarkerfi bæjarins. Upphaflega var aðeins litlu magni vatns hleypt á lagnirnar en magnið var síðan smá saman aukið. Á árinu 2025 hefur upphitunin skilað um 10 MW inn á kerfið en gert er ráð fyrir að afköstin muni aukast smátt og smátt eftir því sem fleiri hús tengjast bakrásarkerfinu.

Hrafnagil

Samhliða gatnaframkvæmdum sem unnið var að á Hrafnagili á árinu 2024 var lögð hitaveita í nýja götu, Hólmatröð. Í leiðinni voru lagðar bakrásarlagnir fyrir hitaveitu í fyrsta sinn á svæðinu, með það að markmiði að leiða bakrásarvatn niður í borholu á Hrafnagili í framtíðinni. Fyrsta skref verkefnisins var lagning nýrrar stofnlagnar meðfram Hrafnatröð (gömlu Eyjafjarðarbraut). Nýja stofnlögnin mun meðal annars þjóna hinu fyrirhugaða Ölduhverfi sem áætlað er að rísi á næstu árum í landi Kropps, norðan við Hrafnagil. Samhliða lagningu nýju stofnlagnarinnar voru gerðar ýmsar lagfæringar á eldra hitaveitukerfi svæðisins.

Langamýri á Akureyri

Á árinu 2024 var unnið að endurnýjun hitaveitukerfisins í suðurhluta Löngumýrar á Akureyri samhliða spennubreytingum í götunni. Endurnýjunin fólst í því að lögð var ný hitaveitulögn frá Löngumýri 14 að Hamarstíg. Á næstu árum mun vinna við spennubreytingar í Mýrunum halda áfram og áætlað er að hitaveitukerfið verði endurnýjað jafnóðum eftir því sem verkinu miðar áfram.

Svalbarðseyri

Unnið var við gatnagerð í Bakkatúni og Lækjartúni á Svalbarðseyri á árinu 2024 og samhliða því verkefni var lögð hitaveita á svæðinu. Gert er ráð fyrir um 40 lóðum við þessar nýju götur.

Dæluupptektir hitaveitu

Dæla í holu LN-12 á Syðra-Laugalandi var endurnýjuð á árinu 2024 í samræmi við reglubundið viðhald. Við gangsetningu nýju dælunnar kom í ljós að vatnsrennsli úr holunni var lítið sem ekkert. Nánari athugun sýndi að holan hafði fallið saman sem útskýrði hvers vegna rennslið hafði minnkað verulega. Norðurorka hefur falið ÍSOR að útbúa áætlun um mögulegar aðgerðir sem gætu gert holuna nothæfa á ný. Reynist slíkar aðgerðir of umfangsmiklar gæti verið hagkvæmara að bora nýja holu.

Hola SE-01 á Svalbarðseyri

Í október og nóvember 2024 var hola SE-01 lagfærð með það að markmiði að auka nýtni hennar í ljósi aukinnar heitavatnsnotkunar á Svalbarðseyri. Við lagfæringuna var ný fóðring sett niður í holuna sem nær niður á 175 m dýpi, en eldri fóðringin nær aðeins niður á 12 metra. Framkvæmdina annaðist Finnur ehf., en ráðgjöf og verkefnisstjórn var í höndum Jóns Árna Jónssonar hjá Borlausnum. Að loknum framkvæmdum var holan tengd aftur við veitukerfið og nýtt til blöndunar við vatn frá Brunná, auk þess sem hún þjónar bænum Svalbarði. Eftir endurfóðrunina skilar holan auknu vatnsmagni í sjálfrennsli, en endanlegur árangur liggur enn ekki fyrir. Áform eru um að setja djúpdælu í holuna haustið 2025, sem mun auka nýtingu hennar frekar og létta um leið á stofnlögninni á Svalbarðsströnd.

Ýmsar framkvæmdir

Á Ólafsfirði var unnið við endurnýjun hitaveitukerfisins í Hlíðarvegi, auk þess sem ný lögn var lögð að Brimnesi, norðan Ólafsfjarðarkaupstaðar. Í Eyjafjarðarsveit var heimlögn tengd við nýbyggða kornþurrkunarstöð sem notuð verður til að þurrka korn á haustin. Einnig var unnið við hitaveitulagnir í þéttbýliskjarnanum Brúarlandi í Eyjafjarðarsveit, þar sem færa þurfti stofnlögn sem legið hafði í gegnum skipulagssvæðið. Í Hálöndum ofan Akureyrar var hafist handa við lagningu hitaveitulagnar í nýja götu sem kallast Hörpuland og var það gert samhliða gatnagerð.

Á Akureyri var unnið áfram við að fjarlægja gamla hitaveitubrunna. Í framkvæmdum sem fóru fram í Bæjarsíðu voru þrír brunnar fjarlægðir og jafnframt þrír brunnar í Hjallalundi. Brunnafjarlægingar fóru einnig fram á Sólvallagötu, í Hamarsíg, Löngumýri og Hrafnabjörgum; einn á hverjum stað. Að lokum var fjarlægður stór brunnur við gatnamót Mímisbrautar og Þórunnarstrætis þar sem DN500 hitaveitustofn frá Syðra-Laugalandi kemur inn í bæinn. Samhliða þeirri vinnu var stofnlögnin endurnýjuð að hluta í Þórunnarstræti og upp Mímisbrautina, að afleggjaranum sem liggur að dælustöð Norðurorku. Þá voru ýmis hefðbundin verkefni unnin, meðal annars tenging nýrra heimlagna. Lagfæringar voru gerðar á hitaveitunni á þó nokkrum stöðum þar sem komnir voru fram lekar, en ljóst er að hitaveitukerfið er að eldast og þarfnast endurnýjunar á fleiri stöðum á næstu árum.

 

 

Til baka á forsíðu