Ekkert verk er svo mikilvægt að það réttlæti að heilsu eða öryggi starfsfólks sé ógnað. Fyrirtækið leggur metnað í að útvega þann öryggisbúnað sem þurfa þykir til að tryggja megi öryggi starfsfólks og almennings vegna framkvæmda.
Norðurorka tilnefnd til Farvarnarverðlauna VÍS
Á Forvarnaráðstefnu VÍS sem haldin er árlega, er fjallað um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum og veitt Forvarnarverðlaun VÍS eru veitt til fyrirtækja sem þykja skara fram úr í öryggismálum og eru öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Norðurorka var eitt af þremur fyrirtækjum sem tilnefnd voru í flokki stærri fyrirtækja og hlaut á ráðstefnunni, sem haldin var í Hörpu í febrúar 2024, viðurkenningu fyrir góðan árangur í öryggis- og umhverfismálum. Fyrirtækið er stolt að því að tilheyra þeim hópi fyrirtækja sem leggur áherslu á öryggi í allri sinni starfsemi og mun halda áfram á sömu braut.
Atvikaskráningar
Í Norðurorku er haldin skrá yfir slys og hættuleg atvik hjá fyrirtækinu og ber starfsfólki að tilkynna ef það verður fyrir slíku. Vinnuslys árið 2024 voru 13, þar af tvö fjarveruslys. Óásættanlegar aðstæður, ótryggur búnaður eða annað sem ógnað getur öryggi og/eða heilsu er einnig skráð ásamt næstum slysum og voru þessar skráningar sex á árinu. Hvorki barst skráning um ógn né einelti eða áreitni. Við hverja skráningu fær næsti yfirmaður póst um atvikið og sér hann til þess að úrbætur séu gerðar eins fljótt og auðið er, í samvinnu við þann sem skráði.
Öryggisnefnd Norðurorku
Hjá Norðurorku starfar öryggisnefnd sem fundar að lágmarki átta sinnum yfir árið og oftar ef þurfa þykir. Fundina sitja einnig öryggisstjóri og verkefnastjóri öryggismála. Nefndin fer yfir atvikaskráningar, t.d. slys og ábendingar frá starfsfólki um hættulegar aðstæður og fylgist með því að úrbætur séu gerðar. Einnig sér öryggisnefndin um að miðla öryggismolum, sem varðar heilsu og öryggi, til starfsfólks s.s. inni á Teams síðu fyrirtækisins eða á starfsmannafundum þar sem öryggismál eru alltaf fyrsta mál á dagskrá.
Öryggisfræðsla
Öryggismál er hluti af nýliðafræðslu sem starfsfólk fær á fyrstu dögunum eftir að það hefur störf hjá Norðurorku. Ákveðinn grunnur á við fyrir allt starfsfólk, svo sem vinnuvernd, atvikaskráning, rýming húsnæðis við bruna, staðsetning slökkvitækja og sjúkrakassa svo eitthvað sé nefnt. En einnig er nýliðafræðslan sniðin að þeim störfum sem viðkomandi nýliði er ráðinn inn til að sinna. Áhættur eru mismunandi á milli veitna, t.d. hvort unnið er við rafmagn eða heitt vatn, og því er lögð áhersla á að kynna fyrir nýliðanum áhættumat starfa sem unnið hefur verið af starfsfólki fyrirtækisins.
Í árlegum fræðsluvikum Norðurorku er öllu starfsfólki fyrirtækisins boðið upp á ýmsa vinnutengda fræðslu. Mikil áhersla er lögð á að vera þá með gagnlega fræðslu tengda öryggi starfsfólks. Á fræðsluvikum 2024 var meðal annars boðið upp á námskeið í líkamsbeitingu fyrir skrifstofufólk, notkun Tetrastöðva, varnir gegn ógnandi hegðun, námskeið um vinnuslys og vinnuslysarannsóknir, skyndihjálparnámskeið og öryggisnámskeið fyrir starfsfólk sem þarf að fara inn í mannvirki rafveitunnar vegna vinnu við annað en raforkukerfin sjálf annars vegar (kunnáttumaður 1) og fyrir starfsfólk sem þarf að fara inn í mannvirki rafveitunnar vegna vinnu við raforkukerfin hins vegar (kunnáttumaður 2).